Íslendingar sofa of lítið

Svefn er öllum mikilvægur og er þess vegna fyrirferðarmikill hluti lífs okkar. Ef þú nærð að verða nítíu ára þá hefur þú líklegast sofið hátt í 32 ár en við sofum að meðaltali yfir þriðjung ævinnar.

Svefn er ekki bara hvíld og orkusparnaður. Í djúpsvefni á sér stað gríðarlega virkt ferli þar sem heilinn hreinsar út notuð boðefni dagsins og undirbýr nýjan dag, þar fer fram bæði endurnýjun og viðgerð á frumum. Einnig er í draumsvefni okkar virkt ferli þar sem unnið er úr upplýsingum dagins og lærdómur festist í minni.

Svefnleysi er ástand þar sem þú ert lengi að sofna, vaknar upp um nætur eða vaknar of snemma um daginn. Þetta leiðir til þess að þú finnur fyrir pirring, einbeitingarleysi, skertu minni og minnkaðri orku. Afleiðingar þess eru meðal annars aukinni sókn í orkuríka fæðu, aukin slysatíðni, verri árangur í starfi og námi ásamt aukinni tíðni hjarta og æðasjúkdóma.

Svefnvenjur fara versnandi og svefnleysi eykst á Íslandi

Á vesturlöndum hafa svefnvenjur breyst verulega síðustu áratugi í tengslum við rafvæðingu og breytta lifnaðarhætti. Rannsóknir sýna að heilbrigður svefn er um 7-8 klukkustundir og var meðalsvefn árið 1950 um 8 klst. Tölur Landlæknisembættisins sýna að meðalsvefn hefur styst verulega og árið 2009 var hann um 6,5 klst og að þriðjungur Íslendinga sefur 6 klst eða minna að jafnaði.

Tölur landlæknis

Margar ástæður hafa verið nefndar fyrir þessu og er rafvæðing nefnt sem mikilvæg orsök. Til marks um það hefur ljósmengun og áreiti aukist frá rafvæðingu. Í skýrslu umhverfisstofnunar kemur fram að myrkurgæði hafa minnkað 15-20 falt samanborið við náttúrulegt myrkur.

Hér má sjá skýrsluna.

Breyttir lifnaðarhættir og áreiti frá ljósvaka og nýmiðlum eru einnig talin vera stórir áhrifavaldar. Þá hefur vinnumunstur breyst á síðustu árum og kannast margir við að vinna sé einn stærsti áhyggjuvaldur í lífi þeirra. Algengt er að störf séu farin að færa sig út fyrir skrifstofuna og yfir í 24 stunda vinnudag þar sem tölvupóstur í símanum er það seinasta sem fólk skoðar áður en það legst á koddann.

Þessar breytingar eru flestar ómeðvitaðar og hægt er að ná miklum árangri í baráttu við svefnleysi með því að takast á við svefnvenjur sínar gera umhverfið svefnvænt.

Skyndilausnasamfélagið – Met í notkun svefnlyfja

Íslendingar hafa hingað til tekist á við vaxandi svefnleysi með svefnlyfjum… og það ekkert lítið af þeim. Íslendingar nota fjórum sinnum meira af svefnlyfjum en Danir og eru ávísaðir um 8 milljón skammtar af svefnlyfjum á hverju ári. Þetta fer heim og saman við að 30% Íslendinga nota tauga- og geðlyf á hverju ári.  Ítrekað hefur verið reynt að takast á við vandann en fá önnur ráð hafa verið í boði við langvarandi svefnleysi.

Svefnlyf eru ágæt lausn við skammvinnu svefnleysi og skv. Leiðbeiningum og rannsóknum eru þau ætluð sem skammtíma lausn í 2-3 vikur við tímabundnum svefnvanda. Vegna fæðar annarra úrræða enda þó margir á þeim til langtíma. Við langtíma notkun myndast í sumum tilfellum þol fyrir áhrifum lyfjanna sem ýtir undir þörf fyrir stærri skammta og einnig eru lyfin bæði líkamlega og andlega ávanabindandi sem gerir fólki erfitt með að hætta á þeim eftir lengri meðferð en 2-3 vikur.

Svefnlyf eru í eðli sínu slævandi lyf sem eiga að valda þreytu eða syfju og hafa mörg þeirra svipuð áhrif og áfengi á samhæfingu og árvekni. Áætlað er að svefnlyf séu farin að valda fleiri umferðarslysum í Bandaríkjunum og Bretlandi en alkóhól eitt og sér.

Ef Íslendingar færu að miða við samsvarandi slævandi áhrif og ólögleg gildi alkóhóls í blóði er til aksturshæfis og sem Norðmenn miða við, >0.2 prómill, að þá eru sennilega ansi margir ökumenn ólöglegir á götunum okkar í dag.

Hér má lesa meira um sláandi notkun svefnlyfja á Íslandi samanborið við annarsstaðar í heiminum.

Átak í svefnmálum Íslendinga

Landlæknisembættið og samtök lækna hafa lengi unnið að því að komast að orsök svefnlyfjavandans og finna leiðir til að vinna markvisst að því að minnka notkun.

Í kjölfar umræðu á Læknadögum 2013 þar sem heill dagur fór í umræðu um svefnvandann var stofnað til verkefnisins Betri svefns þar sem markmiðið var að veita bestu mögulegu meðferð við svefnleysi, Hugræna atferlismeðferð við svefnleysi. Þar er unnið markvisst að því að uppræta rót svefnleysis með því að vinna með svefnvenjur, svefnumhverfi og neikvæðar hugsanir um svefn. Verkefnið er unnið sem skandinavískt rannsóknarverkefni með áherslu á að veita fólki sérfræðiþjónustu hvar sem er og hvenær sem er með því að bjóða þjónustuna í gegnum netið. Með því er hægt að bjóða sérfræðiþjónustu í afskektum dölum og úti á sjó jafnt sem heima í stofu á höfuðborgarsvæðinu.

Markmið okkar er að Íslendingar verði meðvitaðir um að svefnleysi er ekki óviðráðanlegt ástand sem þarf að meðhöndla með lyfjum. Orsakir þess að einstaklingar festast í vítahring langvarandi svefnleysis eru vel þekktir og með fræðslu og breytingum á svefnvenjum er hægt að ná betri svefni til lengri tíma.

Texti: Guðni Jóhannsson læknir.

Ertu að glíma við svefnleysi? Hér eru nokkur góð ráð

Tögg úr greininni
, , , ,

1 athugasemd

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.