Jóga: Náðu lengra

Kona að gera teygju á viðargólfi

Jóga getur tekið okkur á ótrúlegustu staði bæði líkamlega og andlega. Líkaminn breystist til hins betra við jógaiðkun og við finnum fyrir auknum styrk, liðleika og vellíðan. Fátt er jafn skemmtilegt og hvetjandi þegar við náum að komast í stöður sem okkur hefur dreymt um að komast í, í lengri tíma. Jógastöðurnar eru jafn ólíkar og þær eru margar og það er endlaust hægt að þróa sig áfram og finna hvað líkaminn okkar getur.

Í jóga er gott að setja sér lítil markmið og þarf í margar jógastöður mikla þrautseigju og metnað til þess að komast í þær og ná lengra og dýpra . Hugurinn þarf að sjálfsögðu að vera á réttum stað og viljinn og trúin þarf að vera fyrir hendi. Eftirfarandi atriði er vert að hafa í huga ef þú vilt ná markmiði þínu:

Mættu á mottuna: Það þýðir ekkert að mæta endrum og eins og ætlast til þess að einhverjir stórfenglegir hlutir gerist. Mæta þarf reglulega og nauðsynlegt er gefa sér tíma í æfingarnar. Þegar þú mætir á æfingu mættu þá aðeins fyrr og gerðu til dæmis öndunaræfingar, farðu í smá hugleiðslu, leggstu á dýnuna og slakaðu á eða gerðu einhverjar góðar og einfaldar teygjur rétt til þess að hita líkamann. Þú vilt ná að byrja tímann yfirveguð/aður og með hugann alveg við efnið.

Hlustaðu á kennarann eða leiðbeinandann: Það skiptir miklu máli að æfingarnar séu gerðar rétt þar sem hægt er að meiða sig í jóga eins og í öllum öðrum æfingum. Margar stöður eru vand með farnar og nauðsynlegt er að gera þær rétt. Ef stöðurnar eru farnar að vera mjög krefjandi þá skiptir sérstaklega miklu máli að fá góða útskýringu á því hvernig eigi að gera þær til þess að koma í veg fyrir meiðsli. Gott er að tileinka sér það að fá alltaf góða útskýringu á jógastöðum sem verið er að gera í fyrsta skipti svo að þær verði gerðar á  réttan hátt í framtíðinni.

Þolinmæði: Krefjandi stöður, hvort sem að þær reyna á styrk eða teygja mikið, taka tíma. Taktu stöðurnar í skrefum og einblíndu á að bæta alltaf aðeins við þig í hverjum tíma, annað hvort sjálf/ur eða með hjálp kennara. Með þolinmæðina að vopni þá er hægt að komast langt.

Hafðu trú á sjálfum þér: Ekki gefast upp þó að þú getir ekki gert eitthvað alveg strax. Hafðu trú á því að þú getir þetta og gefðu þér tíma til að ná því. Með rétta hugarfarinu kemstu lengra en þig grunar. Mundu bara að æfingin skapar meistarinn.

Vertu dugleg/ur að hrósa þér í þessu ferli og ekki vanmeta það þegar þú hefur náð árangri. Njóttu þess að koma sjálfri/um þér á óvart og farðu út fyrir þægindarammann til þess að ná enn lengra.

Gangi þér vel!

Sara

Tögg úr greininni
, , ,