Kulnun – settu lífið í hleðslu

Mynd: Adam Biernat 

Íslendingar hafa ætíð talið sig vera dugnaðarforka og að dugnaður væri dyggð sem við ættum að vera stolt af.  Í dag blasir við faraldur af örmagna fólki sem hefur algerlega tæmt batteríin, sem hefði verið hægt að komast hjá með nokkrum einföldum ráðum sem hlaða mann og næra.

Ósýnilegar kröfur samfélagsins um dugnað og árangur hafa ekki breyst mikið í gegnum árin en nútímavinnuumhverfi hefur aftur á móti tekið stakkaskiptum. Tæknin sem átti að spara okkur tíma og gefa okkur þar af leiðandi meiri frítíma, hefur þvert á móti orðið til þess að við sitjum uppi með enn fleiri verkefni, meira áreiti og erum aldrei laus við vinnuna, sem minnir á sig með pípum og titringi allan sólarhringinn. Margir sitja nær allan daginn fyrir framan tölvuskjá, og með snjallsímann og áreiti félagsmiðlanna á kantinum. Við búum við stöðugan samanburð og samkeppni við náungann eða „hitt“ fyrirtækið, sem nýtur meiri velgengni en okkar.

Birtingarmynd kulnunar getur verið jafnmismunandi eins og við erum mörg. Einkennin geta verið ólík og alvarleikinn líka en eitt það mikilvægasta í baráttunni gegn kulnun er að fólk hugsi vel um sig að staðaldri, sjái og skynji hvenær batteríið er að tæmast, og viti þá hvað það er sem endurhleður það.

BRUNNIN ÚT Í LÍFINU

Margrét Grímsdóttir er framkvæmdarstjóri hjúkrunar á Heilsustofnuninni í Hveragerði, en á þeim sex árum sem hún hefur unnið á stofnuninni hefur hún séð mikla aukningu á kulnun. Hún hefur bæði komið að því að móta streitumeðferðir og þjónustu í þessum málaflokki en einnig hefur hún sjálf persónulega reynslu af kulnun sem var tengd hennar einkalífi, ekki vinnunni. „Þegar ég byrjaði hjá Heilsustofnuninni buðum við aðallega upp á vikulöng streitunámskeið en í dag er biðlisti í fjögurra vikna meðferð, sem við bjóðum upp á tvisvar á ári. Þessi hópur er nú orðin 15-20% af öllum gestum Heilsustofnunarinnar, og á sama tíma er meðalaldur allra þeirra sem leita til okkar að lækka töluvert en áður var meðalaldur dvalagesta um 68 ár,“ segir Margrét. „Orsökin er sambland af mörgu.

Segja má að við séum hálfgeggjuð þjóð, það er alltaf einhver keppni í gangi, nú eru t.d. allir að hjóla eða á gönguskíðum.

Ég rölti t.d. upp á Esjuna í sumar og þegar ég kom niður hitti ég vinkonu mína og það fyrsta sem hún spyr mig er – Á hvaða tíma varstu? Fólk er að keyra sig áfram í streitu; vinna fullan vinnudag, í meistaranámi, að skutla börnunum, horfa á þau keppa, eru í stjórnum og félögum, mæta í líkamsræktina klukkan sex á morgnana, og segja alltaf já við öllu sem það er beðið um. Það er alltof algengt að við setjum okkur hvorki mörk í vinnu né í félagsstarfi. Hugsunin er alltof oft: Ég þarf að vera svo dugleg, fitt og flott. Með mitt allt á hreinu út á við og taka þátt í öllu sem ég er beðin um. En það getur enginn gert þetta til lengdar. Svo hættir þú að sinna þér og þá fer þér að líða illa og smám saman fer að molna undan þér. Þú nærð ekki að standa þig nógu vel og vanlíðanin kikkar inn. Neistinn er farinn, það er ekkert skemmtilegt lengur.“

Líkt og annars staðar leita fleiri konur hjálpar hjá Heilsustofnuninni en karlar þegar kemur að kulnun. Margrét vil meina að þeir eigi auðveldara með að setja sér ramma og fókusera á eitt verkefni í einu. „Konur þurfa oft að halda mörgum boltum á lofti. Þær vinna um leið og þær skipuleggja afmæli. Þær grípa alla boltana og líka þá sem þeim var ekki ætlað að grípa, því við reddum málunum. Karlar eiga auðveldara með að setja verkefnin til hliðar, og eru ekki í eins mikilli tilfinningakaós. Þeir eiga auðveldara með að ganga úr vinnu, setja mörk og fara þá að sinna öðru.

Konur fara frekar í það að svara tölvupóstum klukkan þrjú að nóttu, sem maður á auðvitað alls ekki að gera, þá á maður að vera sofandi.

En þetta sér fólk oft ekki fyrr en út í óefni er komið. Á námskeiðunum hjá Heilsustofnun vinnum við með meðvirkni, núvitund, sjálfsmyndina, streitueinkenni og streituvaldana í lífinu. Við skoðum hvernig við getum breytt slæmum venjum. Svo tvinnum við þessa vinnu saman með hreyfingu, mat og góðum svefni. Það er mjög mikilvægt að fólk fari út úr sínu venjulega umhverfi og er bara alfarið hér, stoppi og stígi út úr lífi sínu og fái tækifæri til að horfa á hlutina í nýju ljósi og horfa inn á við.“

Margrét segir jafnframt að lykillinn í bataferlinu sé að byrja smátt og ætla sér ekki of mikið, því það virki ekki að kúvenda lífinu á einu bretti. Grunnurinn sé að gera eitthvað gott fyrir sjálfan sig, fara út að ganga, hitta góða og jákvæða vini, vera einn með sjálfum sér, stunda núvitund, jóga eða aðra líkamsrækt, sem gefur okkur náttúruleg gleðihormón. „Og það er þetta einmitt sem við eigum að vera að gera til að fyrirbyggja kulnun, því þegar búið er að keyra á tómu batteríi í einhvern tíma þá hleðst það ekki svo auðveldlega upp og getur tekið langan tíma að fullhlaða það, ef það þá tekst þá einhvern tímann.

Ég segi yfirleitt að það taki tvö ár að vinna sig út úr kulnun, og er ekki vinsæl þegar ég segi það.

En ég hef lent í þessu sjálf. Það var ekki tengt vinnu, ég krassaði í einkalífinu. Það að vera í góðri vinnu með góðan yfirmann hjálpaði mér mikið. Fólk heldur oft að það geti bara lagað þetta á fjórum vikum hjá okkur, en það er ekki þannig. Þetta er aðeins fyrsta lendingin, að stoppa og skoða hvert vil ég fara. Fólk þarf að breyta hugsuninni og gildum sínum og byrja frá grunni. Ef við höldum áfram og förum of skart af stað þá endum við í kulnun aftur og aftur og endum í örmögnun.

 Þegar sálfræðingurinn minn sagði: „Þú ert bara brunnin út í lífinu“ fannst mér fannst ég algjör aumingi að geta ekki lifað lífinu eins og allir aðrir án þess að kulna.

Þarna var ég búin að vera að halda öllum boltum á lofti lengi, svo komu upp krísur í lífi mínu, mikið andlegt álag ásamt mikilli ábyrgð í nokkur ár. Þá fara öll verkefnin að verða erfið og þú verður þreyttur og allir fara í taugarnar á þér. Þú heldur jafnvel að þetta sé starfinu eða yfirmanninum að kenna, en svo þarf það ekki að vera. Síðan er oft svo mikil skömm að fara að tala um þetta en það er einmitt svo mikilvægt,“ segir Margrét.

Greinin í heild sinni birtist í tímaritinu Í boði náttúrunnar VETUR 2018: Kauptu eintak HÉR.

Viltu koma í áskrift? Smelltu hér. 

Nánar má lesa um kulnun á vef Heilsustofnunar.

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir