Lífskraftur og vellíðan

Það geta komið tímabil í lífi okkar þar sem við hættum að finna fyrir vellíðan, orku eða lífskrafti. Það geta verið tímabil þar sem við finnum ekki lengur metnað og áhuga fyrir lífinu og finnum ekki hvatningu til að koma okkur framúr og inn í daginn. Á þessum tímum er oft mikilvægt fyrir okkur að endurskoða líf okkar og hvernig við eyðum tímanum og dögunum okkar. Þá getur verið gott að spyrja sig að þessum spurningum:

Hvert er ég að stefna í lífi mínu og hvað skiptir mig máli? Er ég að sækjast eftir hamingju? Eða er ég að sækjast eftir einhverju öðru? Ef svo er, hverju þá? Ef ég er að sækjast eftir hamingjunni, hvað er þá hamingjan fyrir mér?

Það getur verið mikilvægt að gera sér grein fyrir þessum spurningum, þar sem við höfum ótrúlega mikil áhrif á líf okkar. Þótt við stjórnum alls ekki öllu þá getum við haft mjög mikil áhrif á það og það er mikilvægt að gera okkur grein fyrir því hvað við höfum áhrif á og hvað við getum gert í því.

Ef markmið okkar er að gera það sem skiptir okkur máli og gera það sem veitir okkur vellíðan, þá er mikilvægt að við áttum okkur á því hvað það er og í framhaldi af því að framkvæma það. Fyrir suma er auðvelt að átta sig á því hvað er sem skiptir þá máli og hvað það er sem veitir þeim vellíðan en fyrir aðra flóknara. Þar að auki koma tímabil í lífinu þar sem við þurfum að endurskoða þetta. Hvort sem það er breyting, þroski hjá okkur sem hefur áhrif á þetta eða breyting í umhverfi okkar. Dæmi um breytingu hjá okkur með hvað skiptir okkur máli væri t.d. það að jólagjafirnar eru ekki lengur að veita okkur mestu vellíðan heldur samverustundir með fólkinu okkar á jólunum. Dæmi um breytingu í umhverfinu væri kona/karl sem telur starfið sitt skipta mestu máli en eignast síðan barn sem verður síðan það sem skiptir hana/hann meira máli.

Því miður getur það stundum verið auðvelt að gleyma því hvað það er sem skiptir okkur máli og gleyma því að gera það sem lætur okkur líða vel. Kröfur og væntingar í samfélaginu geta haft áhrif á þetta. Þar að auki getum við gleymt að endurskoða hvað það er sem skiptir okkur máli og hvað það er sem lætur okkur líða vel. Við getum gleymt því að líta inn á við og spyrja okkur hvort okkur líði raunverulega vel. Þar sem við getum orðið alltof kappsöm að eltast við okkar eigin væntingar og markmið.

Þess vegna er gott að spyrja sig að því með reglulegu millibili: ,,Hvað er það sem skiptir mig máli?”, ,,Hvað er það sem lætur mér líða vel?” og í framhaldi af því framkvæma það.

Nokkur ráð til þess að átta sig á því hvað það er sem skiptir mann máli og hvað það er sem lætur manni líða vel:

1) Spyrja sig að því, hvað er það sem ég vil vera búin að gera þegar ég dey, hvað er það sem ég vil minnast á seinustu dögum ævi minnar. Hvað vil ég að sé skrifað um mig þegar ég er farin frá (í minningargreinum t.d.)? Hvernig vil ég að fólk muni eftir mér (t.d. hún/hann var alltaf svo hjartahlý/r, hún/hann var alltaf svo metnaðarfull/ur) ?

2) Skrifa bréf í nútíð um sjálfan sig sem gerist eftir 2-5 ár. Þar sem maður lætur sig dreyma mjög stórt og skrifar um sig eins og maður sé að lifa draumalífinu og sé hinn besta útgáfa af sjálfum sér.

3) Skrifa niður lista yfir það sem lætur manni líða vel, það sem gefur manni orku. Hvað er það sem er nærandi fyrir þig og það sem þér finnst virkilega skemmtilegt?

Í framhaldi af þessu er mjög mikilvægt að framkvæma, þ.e. að byrja að stíga skref í áttina að því lífi sem maður vill lifa, gera það sem skiptir manni máli og lætur sér líða vel. Mundu að það er enginn annar en þú sem getur gert þetta og það veit enginn betur en þú hvað skiptir þig máli og lætur þér líða vel. Ekki einu sinni foreldrar þínir ! 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.