Lifum Betur – Beggi Ólafs

Lifum betur er fastur liður hér á síðunni okkar þar sem við spyrjum samferðafólk spjörunum úr og fáum innsýn í þeirra lífsvenjur. Með slíku samtali vonumst við til að fá hugmyndir og innblástur og ekki síður fyrirmyndir á okkar oft á tíðum hlykkjóttu vegferð – til þess að lifa betur.

Bergsveinn Ólafsson eða Beggi Ólafs eins og margir þekkja hann er knattspyrnumaður, fyrirlesari og talsmaður heilbrigðs lífstíls. Ásamt því að standa vaktina í varnalínu Fjölnis leggur Beggi stund á mastersnám í Hagnýtri jákvæðri sálfræði og þjálfunarsálfræði. Fyrir nokkrum árum hóf hann það ferðalag að vera besta útgáfan að sjálfum sér og hjálpar nú fleirum í áttina að aukinni vellíðan á hinum ýmsu sviðum lífsins. Beggi deilir reglulega fróðleik varðandi andlega og líkamlega heilsu í formi fyrirlestra, á instagram reikningi sínum og VLOG-I. Frábær fyrirmynd sem vert er að fylgjast með.

Lýstu sjálfum þér í þremur orðum?
Metnaðarfullur, heilsupervert, þrjóskur

Morgunrútínan þín?

Ég  hef verið að reyna “mastera” morgunrútínuna mína síðastliðið ár. Hún er misjöfn eftir dögum. Oftast er hún þannig að ég vakna um 06:30 og það fyrsta sem ég geri er að þamba eitt stórt vatnsglas. Þar á eftir tek ég sirka 20 mínútna hugleiðslu (hef verið að blanda henni við Wim Hof öndunaræfingar undanfarið) og svo skelli ég mér beint í kalda sturtu í 3 mínútur. Þar á eftir skrifa ég þrjá hluti niður sem ég er þakklátur fyrir og svo les ég nokkrar blaðsíður í vel valinni bók og svara vefpóstum. Morgunmaturinn tekur svo við yfirleitt klukkan 10:00 og þá myndi ég segja að formlegri morgunrútínu væri lokið.

Uppáhalds morgunverður?
Grænn hræringur. Uppskrift hér að neðan!

Hvernig viltu kaffið þitt?
Oftast vil ég það kolsvart og því sterkara, því betra. Stundum geri ég vel við mig og fæ mér tvöfaldann hafra cappuccino.

Matarspeki?
Ég gæti skrifað heila BSc ritgerð með mínar matarpælingar en ég ætla reyna hafa þetta stutt.

Að borða óunninn mat, semsagt matur úr jörðinni sem ekki er búið að bæta neinu rusli í og taka eitthvað gott úr. Þessi matur á að vera mestmegnis plöntufæði.

Ég hef líka verið að vinna með að borða á 10 klukkustunda ramma og hvíla “systemið” í 14 tíma (ittermittent fasting). Það hefur reynst mér afar vel. Þetta er alls ekki mikil breyting frá venjulegum matarvenjum þar sem ég sleppi einungis morgunmatnum og kvöldmönnsinu.

Mér finnst mikilvægt að benda á það að þú ert þinn besti sérfræðingur. Það eru endalaus skilaboð í samfélaginu; Borðaðu morgunmat, ekki borða morgunmat, borðaðu kolvetni, ekki borða kolvetni, borðaðu reglulega, borðaðu 2 stórar máltíðir og ég gæti haldið endalaust áfram. Gerðu það sem hentar þér best og það sem þú getur haldið þér við til lengri tíma. Það er engin skyndilausn í mataræði.

Hreyfingin þín?
Ég spila fótbolta með Fjölni svo það er helsta hreyfingin mín. Fótbolti er hlaupaíþrótt en ég elska líka að lyfta og ég reyni að vera eins duglegur og ég get að rífa í járnin í kringum æfingar og leiki.

Ómissandi í eldhúsið?
Blandari, kaffivél og wok panna

Þrennt matarkyns sem þú átt alltaf til?
Grænkál, kasjúhnetur og bananar.

Hvaða verkefni eru á döfinni hjá þér?
Ég var að byrja með tvo fyrirlestra; “Blómstraðu” sem er í mjög stuttu máli hvernig fólk getur liðið virkilega vel í lífinu. Hinn fyrirlesturinn heitir “Uppfylltu þína möguleika” og í grunninn er hann um hvað ber að hafa í huga til þess að uppfylla það sem einstaklingum er mögulegt í lífinu. Ég verð með þessa fyrirlestra hér og þar næstu mánuðina og ég er mjög spenntur fyrir því. Ég er aðalega að fara í fyrirtæki, íþróttafélög, skóla, stofnanir og hópa en ég stefni á halda fyrirlestrakvöld þar sem allir sem hafa áhuga geta mætt.

Ég er líka að fá mjög reglulega fólk til mín í þjálfunarsálfræðitíma, sem ég hef mikinn metnað fyrir. Mér finnst afar gaman að hjálpa fólki að bæta frammistöðu og vellíðan á ýmsum sviðum lífsins.

Þetta tvennt er svona það helsta sem er á döfinni hjá mér!

Þrjár manneskjur sem veita þér innblástur?

 1. Jordan Peterson, einn frægasti sálfræðingur samtímans. Hann er umdeildur meðal margra þar sem hann hefur sterkar skoðanir á viðkvæmum málefnum. Burt séð frá því þá er að hann að gera frábæra hluti og hefur hjálpað mörgum að eignast betra líf. Hann skrifaði bók nýverið, 12 rules for life og svo er hann með fullt af flottu efni á youtube.
 2. Sergio Ramos, einn besti varnarmaður allra tíma hefur lengi verið minn maður. Ekki bara rosalega góður fótboltamaður heldur einnig bráðmyndalegur einstaklingur með útlitið á hreinu.
 3. Duglegt fólk sem ég umgengst á nánast hverjum degi og fólk sem er að gera frábæra hluti í sínu lífi. Ég elska að sjá fólk uppskera eftir mikla vinnu og ég fæ mikla hvatningu frá því fólki.

Sannleikurinn á bakvið velgengni?
Það er enginn einn sannleikur að velgengni en það sem ég tel að geti hjálpað fólki að ná góðum árangri í lífinu í stuttu máli eru þessir þættir:

 1. Hafa sýn á framtíðina – Þú færð ekki það sem þú miðar ekki á en þú gætir fengið það sem þú miðar á.
 2. Drifkraftur – Til að gera sýnina að veruleika. Drifkraftur kemur sjálfkrafa ef sýnin skiptir þig nógu miklu máli.
 3. Sinna því sem hefur tilgang en ekki því sem er hentugast – Að fórna eitthverju á líðandi stundu sem er hentugt fyrir það sem hefur tilgang upp á framtíðina. Gerðu það sem þú munt draga ávinninga af í framtíðinni í staðinn fyrir að fá skamman ávinning frá því sem er hentugast.
 4. Endurhugsa erfiðleika – Lífið er erfitt en þú hefur alltaf val hvernig þú bregst við erfiðleikum. Ætlaru að láta þá draga þig niður eða hífa þig upp?
 5. Jákvæðar venjur – Lykilatriði hjá þeim sem ná árangri (t.d. mataræði, svefn, morgunrútína, hreyfing)
 6. Góður félagsskapur – Þú ert meðaltalið af þeim sem þú hangir með. Umkringdu þig góðu fólki sem styður þig og vill þér vel.

Hvað gerir slæman dag betri?
Fyrst langar mér til að segja að það eiga allir slæma daga. Það er eðlilegt. Það þarf alls ekki að vera slæmt. Við eigum að skoða allan tilfinningaskalann með því að faðma neikvæðar tilfinningar rétt eins og jákvæðar. Að eiga slæman dag minnir okkur á hversu heppin við erum að eiga góða daga. Ef okkur myndi aldrei líða illa myndum við ekki kunna að meta það þegar okkur líður vel.

Það sem hefur virkað vel fyrir mig er að tala um hlutina við annan einstakling sem er tilbúinn að hlusta. Það er hreint ótrúlegt hvað það gerir manni gott. Það getur líka verið gott að skrifa hugsanirnar sínar niður. Þannig skipuleggjum við hugsanir okkar sem gerir það að verkum að við erum ekki stöðugt að velta okkur upp úr sömu hlutunum. Að hreyfa sig er líka fáránlega gott meðal við slæmum degi!

Hvernig hugar þú að andlegri heilsu?
Úff margt og mikið. Það er mikil vinna í því að halda góðri andlegri heilsu. Rétt eins og þegar við förum í ræktina þá eigum við líka að eyða tíma í að efla okkur andlega.

Ég hreyfi mig, hugleiði og reyna að einbeita mér að hverju augnabliki fyrir sig, ég plana gæðastund með vinum og fjölskyldu, ég haga mér eins og hamingjusamur einstaklingur með því að brosa og halda góðri líkamstjáningu, fer í kulda (kalda sturtu eða kalt ísbað), ég reyni að gefa eins mikið af mér og ég get, ég æfi bjartsýnina með því að sjá fyrir mér framtíðina, ég skrifa niður hugsanir, næri mig eins vel og ég get, sef í 7 til 9 tíma, ég tala um hlutina, ég tjái tilfinningar og reyni að haga mér eins mikið og ég get á hverjum degi í samræmi við mín gildi og mína framtíðarsýn. Mér líður langt best þegar ég áorka eitthvað á hverjum deg og að ég sé aðeins betri einstaklingur en ég var í gær. Þar fæ ég mína mestu hamingju, í vinnunni sem felst í því að sinna sínum tilgangi í lífinu.

Uppáhalds heilsuuppgötvun?
Kuldi. Ég elska kuldann, það er eitthvað við hann. Alltaf jafn erfitt að koma sér í hann en manni líður alltaf jafn vel þegar maður lætur verða að því. Ef þú vilt skora á sjálfa/n þig, byrjaðu þá á kaldri sturtu á morgnana. Þú ert strax búin/n að takast á við eina áskorun og dagurinn er ekki byrjaður. Því verður auðveldara að takast á við áskoranir og hindranir dagsins.

Ráð sem þú hefðir vilja gefa yngri sjálfum þér?
Að þróa gróskuhugarfar fyrr með því hafa trú á því að ég gæti orðið góður í hverju sem er með því að leggja nógu hart að mér. Ég hefði líka bankað í sjálfan mig aðeins fyrr og sagt við mig að það sé í mínum höndum og á minni ábyrgð að ná árangri og líða vel í lífinu. Ég áttaði mig á þessum þáttum þegar ég átti svo kallað AHA augnablik þegar ég var 16 ára í B-liði í fótbolta þegar ég var að horfa á A-liðið keppa. Ég hugsaði með mér; vá hvað mér langar til að komast í A-liðið. Frá þessu augnabliki byrjaði mín vegferð í lífinu. Ég hefði viljað eiga þetta AHA augnablik aðeins fyrr, þá væri ég kominn skrefinu lengra í dag.

Besta ráð sem þér hefur verið gefið?
Það tók mig mjög langan tíma að finna svar við þessari spurningu. Ég man ekki eftir að hafa fengið þetta ráð frá einhverjum en mér finnst þetta allavegana góð lífsregla; Að vera trúr sjáfum sér með því að haga sér í samræmi við sjálfan sig og gera það sem manni líður vel með í staðinn fyrir að haga sér á ákveðinn máta bara til þess að leita eftir samþykki og ganga í augun á öðrum einstaklingum.

Hvað er það besta við að búa á Íslandi?
Íslenska vatnið og sundlaugarnar.

 Hver er uppáhalds staðurinn þinn á landinu?
Sumarbústaðurinn í Grímsnesinu.

Hvert er þitt framlag að bættum heimi?
Að vera stanslaust að vinna í þessu klassíska, að vera besta útgáfan af sjálfum sér og í leiðinni að gefa af mér og hjálpa öðrum einstaklingum að gera slíkt hið sama.

Hvar líður þér best?
Þegar ég spila fótbolta og í þýðingarmiklum samtölum með fólki sem mér þykir vænt um.

Drauma ferðalag?
Ástralía!

Uppáhalds árstíð?
Sumarið. En uppáhalds árstími er klárlega jólin.

Uppáhalds bók?
Man’s Search for Meaning / Leitin að tilgangi lífsins – Viktor E. Frankl

Mantra/mottó?
What a man can be, he must be. Við erum öll með ákveðna möguleika í lífinu sem eru að bíða eftir að láta uppfylla sig. Þú ert ekki allt sem þú getur orðið og þú veist það. Finndu hverju þú vilt stefna að í lífinu og  uppfylltu þessa stefnu á hverjum degi.

Viltu gefa okkur eina uppáhalds uppskrift í lokin?

Grænn ofurhræringur

Innihald:

 • 150 gr grænkál/spínat
 • 2 bananar
 • 1 paprika
 • 1 msk möndlusmjör
 • 3 msk hampfræ
 • 3 msk chiafræ
 • 3 msk hörfræ
 • 1/2 msk maca duft
 • 1/2 msk kanill
 • 1 msk Green Phytofoods frá Now
 • 1 bolli af frosnum bláberjum
 • Fylla upp í með vatni

Innihaldsefnin fara rakleiðis í blandarann. Ef þú vilt fá meiri sætu, þá er tilvalið að skipta paprikunni út fyrir appelsínu. Þessi uppskrift er miðuð við 1,5 til 2 lítra. Það er tilvalið að fá sér rúmlega hálfan líter í morgunmat og rúmlega hálfan eftir æfingu!

Umsjón: Karítas Hvönn Baldursdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.