Lifum betur er fastur liður þar sem við spyrjum áhugavert fólk spjörunum úr og fáum innsýn í þeirra lífsvenjur. Með slíku samtali vonumst við til að fá hugmyndir og innblástur og ekki síður fyrirmyndir á okkar oft á tíðum hlykkjóttu vegferð – til þess að lifa betur.
Martha Ernstsdóttir var um árabil ein fremsta hlaupakona þjóðarinnar og keppti m.a. í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum árið 2000. Hún hefur síður en svo lagt hlaupaskóna á hilluna og fer daglega út að hlaupa, auk þess sem hún stundar jóga reglulega. Martha er sjúkraþjálfari að mennt og jafnframt með gráðu í hómópatíu. Hún segir að góð heilsa sé jafnvægi á milli líkama, sálar, tilfinninga og hugsana. Hún borðar helst lífræna fæðu og íslenskt salat. Barnabörnin þrjú eru nýjastu kraftaverkin í lífi Mörthu.
Lýstu sjálfri þér í þremur orðum: Skipulagt kaos, jákvæð, trygglynd (úpps þetta voru 4 orð!).
Morgunrútínan þín: Stundum vakna ég rétt fyrir klukkan 7 og fer út að skokka með systkinum mínum eða Femu, vinkonu minni, en ég fæ mér alltaf grænan drykk með blágrænum þörungum og marga góða, dökka, lífræna Rapunzel súkkulaðibita.
Hvernig viltu kaffið þitt? Drekk ekki kaffi og hef aldrei gert það.
Matarspeki? Fyrir mitt leyti vil ég borða sem mest lífrænt og sem mest af íslensku grænmeti. Ég vil borða það sem mér líður vel af og skaðar mig og náttúruna sem allra minnst.
Hreyfingin þín? Hlaup og aftur hlaup og jóga og göngutúr í góðum félagsskap. Einstaka sinnum hjóla ég í vinnuna á sumrin og langar að auka það.
Ómissandi í eldhúsið? Gott lífrænt, dökkt súkkulaði, matvinnsluvél, auðvitað ísskápur og gaseldavélin og ekki má gleyma boost-vélinni.
Þrennt matarkyns sem þú átt alltaf til? Dökkt, lífrænt súkkulaði, íslenskir piccolotómatar og gott, íslenskt grænmeti í salat.
Hvaða verkefni eru á döfinni hjá þér? Skattaskýrslan, heilsuhelgi á Sólheimum 19.-22. mars og passa barnabörnin um næstu helgi.
Þrjár manneskjur sem veita þér innblástur? Mahatma Gandhi, hvunndagshetjan hún mamma mín og Gunnar Páll, hlaupaþjálfarinn minn.
Sannleikurinn á bakvið velgengni? Að mínu mati liggur velgengnin í því að geta sannarlega verið hamingjusamur og ná að takast á við þau verkefni sem lífið færir manni. Þess vegna held ég að það sé svo mikilvægt að „taka til í bakpokanum sínum“, létta smám saman á honum og geta lifað í sátt við sjálfan sig og aðra í kringum sig. Þannig held ég að komist á friður í heiminum. Það er velgengni.
Hvernig hugar þú að andlegri heilsu? Ég fer daglega út að hlaupa, iðka jóga og er stöðugt að vinna í sjálfri mér varðandi hugsun, tilfinningar og innri líðan. Ég fer reglulega í nudd/orkuvinnu hjá góðum meðferðaraðilum. Mér finnst æði að hitta stórfjölskylduna reglulega og elska að bjóða henni í mat. Barnabörnin þrjú eru nýjustu kraftaverkin í lífinu mínu. Að staldra við og meta og njóta vina, fjölskyldu, maka, barnanna og barnabarnanna er það mikilvægasta í lífinu að mínu mati.
Uppáhalds heilsuuppgötvun? Góð heilsa er jafnvægi á milli líkama, sálar, tilfinninga og hugsana. Ég fór í nám 1994 í hómópatíu og þar lærði ég um þetta samspil og hef síðan þá leitast við að jafnvægisstilla sjálfa mig og einnig leitast ég við að aðstoða skjólstæðinga mína að finna þetta jafnvægi.
Ráð sem þú hefðir vilja gefa yngri sjálfri þér? Þú ert nóg Martha.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið? Þegar ég var 12/13 ára þá var „í tísku“ að stela í búðum, ég tók þátt í því og setti „varningin“ í kassa undir rúm. Þegar mamma fann kassann þá sagði hún við mig, pollróleg: „Martha, þegar maður stelur og tekur frá öðrum þá svertir maður sjálfan sig“. Þessi djúpa speki frá henni mömmu minni hefur alltaf fylgt mér.
Hvað er það besta við að búa á Íslandi? Fjölskyldan, vinirnir, fámennið, öryggið, náttúran.
Hver er uppáhalds staðurinn þinn á landinu? Fyrir utan mitt eigið heimili þá er það ekki spurning: Ísafjörður og nágrenni.
Hvert er þitt framlag að bættum heimi? Ég er alltaf að leitast við að ná meira innra jafnvægi þannig að ég geti gefið af mér skilyrðislaust. Ég vel að kaupa inn lífrænt og íslenskt eins mikið og hægt er, bæði í matvörum, hreinsivörum og í fatnaði. Ég er grænmetisæta og borða lítið sem ekkert úr dýraríkinu (nema feitan ost og haloumni ost, nammi, namm). Ég flokka sorp og reyni að draga úr umbúðum þegar hægt er. Mahatma Gandhi sagði að til að friður komist á í heiminum þurfum við að byrja á því að taka til í eigin garði.
Hvar líður þér best? Í raun hvar sem er þegar ég næ að dveljast í eigin kyrrð og hugurinn er ekki „í stríði“ við sjálfa mig né umheiminn en mér finnst rosalega gott að vera heima, nýbúið að taka aðeins til, með fjölskyldu og vinum að borða góðan mat og tala saman. Það er líka algjör dásemd að vera úti að hlaupa meðfram strönd í góðum félagsskap og ekki má gleyma því að vera í góðum jógatíma að flæða með andardrættinum, þá er maður mjög nálægt kjarnanum sínum.
Draumaferðalagið? Ég er svo lánsöm og er búin að fara í svo mörg draumaferðalög um ævina en mig langar fljótlega aftur til Hawaii með eiginmanninum og í hjólaferð til Víetnam, líka með honum.
Uppáhaldsárstíð? Sumarið þegar ég get verið úti að hlaupa á topp í góðum, kjaftafélagsskap og verið úti á palli að iðka yoga og til að toppa hlaupatúrinn og jógaiðkunina, að sitja úti á palli með gott salat sem ég rækta sjálf í garðinum mínum.
Uppáhaldsbók? Úff, ég er bókaormur og elska að lesa alls konar bækur; glæpasögur, heimspeki, andlega speki, jógabækur og fræðibækur en tveir af uppáhaldshöfundunum mínum eru Paulo Coelho og Jodi Picolt.
Mantra/mottó? Lífið er núna.
Vegan múffur a la Martha:
2 1/2 bolli spelt
1 bolli maukaðar döðlur
1/4 -1/2 bolli kókos sykur
1 bolli kókosolía
3-4 stappaðir bananar (má setja líka ca. 1 bolla af eplamauki og þá hafa 3 banana í stað 4)
3 tsk. vínsteinslyftiduft
1 bolli jurtamjólk
1 tsk. Himalaya-salt
1/2 bolli kókosmjöl eða muldar kókosflögur
200 g dökkt súkkulaði, niðurskorið
Blandið öllu saman og setjið súkkulaðið síðast út í. Hitið ofninn í um 180°. Setjið deigið í múffuform. Látið bakast í um 20 mín. Fylgist með og þegar múffurnar eru orðnar ljósbrúnar eru þær tilbúnar.
Hér eru frekari upplýsingar um heilsuhelgar Mörthu Ernst.