Morgunvenjur Sirrýar Svöludóttur

Sirrý Svöludóttir er 31 árs sölu- og markaðsstjóri hjá Yggdrasil og jafnframt mikil áhugakona um heilsu og lífrænan lífsstíl . Áhuginn kviknaði hjá henni á unglingsaldri og starfar hún í dag í heilsugeiranum og hefur verið mikill talsmaður lífrænnar ræktunar. 

Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?

Ég stilli klukkuna yfirleitt kl. 6:30 en vakna því miður ekki fyrr en rúmlega 7. Á hverju einasta kvöldi þá tel ég mig trú um að ég geti vaknað svo snemma, það gerist aðeins of sjaldan. Ég er er nú að vinna markvisst í að koma mér fyrr á fætur og bókin hans Guðna Guðnasonar, Máttur Viljans hefur stutt mig heilshugar í því.

Hvernig eru morgunvenjurnar?

Alveg frá því að ég leggst á koddann og vakna hugsa ég um hvernig ég ætla að ná árangri í lífi og starfi. Ég er með markmiðalista sem ég fylgi mjög stíft og hef rosalega gaman að þegar ég næ markmiðum mínum. Ég legg mig fram við að vera umkringd fólki sem hvetur mig áfram að ná þeim, veitir mér innblástur og kennir mér eitthvað nýtt. Ég myndi gjarnan vilja segja að morgunvenjurnar mínar innihéldu kyrrðarstund, jóga og tebolla – en ég vakna flesta daga við  háværa klukku, snooze-a yfirleitt nokkrum sinnum og vakna svo almennilega þegar að ég hugsa til góða rótsterka kaffibollans sem ég laga mér á hverjum morgni.

Sirrý forsíðumynd okt 14

Þegar mokkakannan mín er komin í gang, þá knúsa ég dóttur mína innilega og bið til Guðs um að hún vakni með bros á vör því þá veit ég að framhaldið verður ljúft. Við erum báðar frekar matgrannar á morgnana og því fer yfirleitt ekki langur tími í morgunmat. Eftir morgunsnarlið fáum við okkur alltaf fiskolíu og D3 vítamín. Svo höldum við til vinnu og skóla. Á leiðinni í vinnuna nota ég svo tónlist til að hita mig upp fyrir krefjandi vinnudag. Tónlist skiptir mig svakalega miklu máli og ég gæti ekki án hennar verið.

Hvernig heldur þú í þessar venjur?

Morgunvenjurnar mínar eru svo hefðbundnar svo það er mjög auðvelt fyrir mig að halda í þær. Ég elska að vakna á morgnana og byrja daginn. Gleðin og spennan sem fylgir starfinu mínu hjálpar líka til.  Í fyrravetur þá vöndum við mæðgur okkur á að fara í sund á  morgnana áður en vinnudagurinn hófst. Það var alveg dásamlegt og  við endurtökum leikinn pottþétt aftur í vetur.

Tögg úr greininni
, ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.