Mundu eftir þér!

Það er gott að gefa af sér. Tilfinningin að geta gefið af sér bæði í starfi og lífi er dásamleg. Það getur gefið manni kraft og hvatningu til þess að vakna á morgnanna og knúið mann áfram til athafna að vita að maður hafi tilgang, að maður geti hjálpað öðrum og lagt eitthvað að mörkum. Möguleikarnir til þess að gefa af sér geta oft verið ótal margir sem er mikil gjöf.

Það gefur lífinu tilgang að hafa þennan möguleika að verða að liði. Þetta eru algjör forréttindi og ómissandi hlutur af lífinu ef svo má segja. Hins vegar er annar ómissandi og jafnstór hluti af lífinu, sem helst í hendur við þennan hluta. Það er að taka á móti og gefa til sjálfs síns. Þ.e. að elska sjálfan sig og hlúa að sjálfum sér. Að hugsa um sig og sjá til þess að maður sé vel nærður, elskaður, öruggur, glaður og eins hamingjusöm/samur og hægt er. Þetta er alveg jafn mikilvægur þáttur í lífsgleði og að gefa af sér. Og í raun og veru nánast forsenda þess að geta gefið af sér. Þetta er einfalt en gleymist þó oft.

Að setja sig í forgang

Sumum þykir það að sinna sér vera algjör lúxus eða aukaatriði, aðrir eiga jafnvel erfitt með að gefa þessu gaum, upplifa jafnvel sjálfsgagnrýni að vilja veita sér tíma eða eiga bara almennt erfitt með að hugsa um sig eða hlúa að sjálfum sér. Telja það einfaldlega göfugra að hugsa um aðra eða hlúa að öðrum.

Hins vegar er stór þáttur í þessu sem við megum ekki gleyma. Ef þú hlúir að sjálfum þér og hugsar vel um sjálfan þig, þá hefur þú ennþá meira að gefa til annarra. Þannig að aðrir njóta góðs af þinni eigin vellíðan og hamingju. Þín eigin vellíðan getur verið mikilvæg fyrir aðra ef þú lítur á það í þessu samhengi. Sjálfsumhyggjan fær annað gildi en einungis að vera mikilvæg fyrir sjálfan þig. Jafnvægið á milli þess að gefa af sér og næra sig er lykillinn.

Það er því alveg jafn göfugt og mikilvægt að hlúa að sjálfum sér, elska sig og rækta eigin vellíðan eins og að gefa af sér til annarra.

Því hvet ég þig til þess að muna eftir þér!

Sigrún

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.