Þrír nýir staðir hafa bæst við blómlega veitingahúsaflóru landsins, tveir í Reykjavík og einn á Akureyri.
EIRIKSSON BRASSERIE
Í stórglæsilegu húsnæði gamla Landsbankans er nú hægt að snæða dýrindismáltíð og njóta afslappaðrar stemningar frá hádegi til kvölds. Ítalskur andi svífur yfir vötnum en áhersla er lögð á það besta í evrópskri matargerð auk þess sem EIRIKSSON státar af einum glæsilegasta vínkjallara landsins. Einstök upplifun fyrir augu, eyru og bragðlauka.
Hvar: Laugavegur 77.
Centrum Kitchen & Bar
Eigendur eins af betri gistihúsum Norðurlands hafa nú opnað fallegan og hlýlegan veitingastað við Hafnarstræti á Akureyri. Þar er hægt að gæða sér á dýrindismat eins og pönnusteiktum lax, lambakjöti, ribeye eða alvöru hamborgara, ef þú ert í þannig stuði. Frábært úrval af handverksbjór og víni tryggir góða kvöldstund.
Hvar: Hafnarstræti 102, 600 Akureyri.
Fjallkonan – krá og kræsingar
Nóg til og meira frammi er viðkvæðið hjá Fjallkonunni, sem býður upp á stóran og fjölbreyttan matseðil þar sem blandast saman íslenskar hefðir og alþjóðlegir straumar. Með frábæru úrvali af smáréttum til að deila, djúsí aðalréttum, ógleymanlegum eftirréttum og kokteilum skyldi engan undra vinsældir staðarins. Hér er gleði og glamúr ávallt við völd!
Hvar: Hafnarstræti 1-3, 101 Reykjavík.