Orkubrautir líkamans

Flestir sem stunda jóga þekkja dásemdartilfinninguna sem flæðir um okkur í Savasana. Við finnum hvernig líkaminn er allur opinn, blóðið streymir um æðarnar og hver einasta fruma er full af lífi, líkaminn hreinlega víbrar af orku, orku sem er næstum áþreifanleg. Í jógafræðunum er talað um að líkaminn sé í fimm lögum eða “Koshas”, það er efnislíkaminn, orkulíkaminn (sem skiptist í 3 undirflokka) og andlegi líkaminn. Þegar við förum í gegnum jógastöðurnar erum við ekki bara að opna og styrkja efnislíkamann heldur einnig orkulíkamann og í framhaldi opna fyrir tenginu við andlega líkamann.

PRANA

Samkvæmt fornum indverskum fræðum eru Nadis orkubrautir sem flytja Prana, eða lífsorkuna um allan líkamann. Prana er orka sem viðheldur og knýr áfram allt líf í heiminum, sú orka sem býr í eðlilegri framvindu alheimsins. Þessi lífsorka þarf að geta flætt frjálst og óhindrað um líkaman til að okkur líði vel bæði líkamlega og andlega, en til dæmis áföll í lífinu og óheilbrigður lífstíll geta valdið því að þessar brautir stíflast. Innan orkulíkamans eru einnig sjö orkustöðvar eða “Chakras” sem liggja upp eftir hryggjasúlunni. Chakra þýðir hjól eða snúningur, en lífsorkan safnast saman í þessum orkustöðvum og myndar orku-massa sem snýst á miklum hraða. Eftir því sem ofar dregur upp eftir hryggjarsúlinni, snýst orkan hraðar í hverri orkustöð. Hinir fornu jógar sáu þessar orkustöðvar fyrir sér í djúpri hugleiðslu og lýstu þeim sem lótusblómum þar sem blöð hvers blóms urðu fleiri með hækkandi tíðni. Með jógaástundun og öndunaræfingum vinnum við í því að halda þessum brautum og orkustöðvum opnum. “Nadi” er Sandskrít orð og kemur af rótinni “Nad” sem þýðir hreyfing, flæði eða titringur. Það er óendanlegur fjöldi Nadis í orkulíkamanum en samkvæmt Tantra jógafræðunum eru þær 72.000 talsins og þar af þrjár sem skipta mestu máli, Ida, Pingala og Sushumna.

IDA, PINGALA OG SUSHUMNA

tattva_man_tr

Ida og Pingala nadis byrja báðar við Muladhara chakra eða Rótarstöðina. Þær kriss-krossa hverja orkustöð fyrir sig á leið sinni upp eftir hryggjarsúlunni og mynda sjónrænt DNA erfðaefni mannslíkmanns. Sama mynstur má einnig sjá á alþjóðlegu merki læknisfræðinnar, Caduceus.

Ida nadi byrjar vinstra megin við Sushumna nadi og endar í vinstri nösinni. Ida er hvít á litin og táknar kvenlegu hlið okkar, tunglið, mýktina og sköpunina. Orka Ida nadi er kælandi og sefandi og tengist hún ósjálfráða taugakerfinu og hægra heilahvelinu. Ida er Yin hliðin í kínverskri heimspeki. Ef Ida nadi er of sterk eða virk þá getum við þjáðst af þunglyndi, þreytu og jafnvel verið ófær um að sjá hlutina í skýru ljósi.

Pingala nadi byrjar hægra megin við Sushumna nadi og endar í hægri nösinni. Pingala er rauð og stendur fyrir karlorkuna innra með okkur. Pingala er sólin, framkvæmdaorkan og rökhugsunin. Orka Pingala nadi er heit og örvandi, tengist sjálfráða taugakerfinu og vinstra heilahvelinu. Pingala er Yang hliðin í kínverskri heimspeki. Ef Pingala er yfirgnæfandi þá getum við átt í erfiðleikum með að sofa, verið kvíðin, pirruð og fljótfær.

Markmið Hatha jóga er að koma á jafnvægi á milli Pingala og Ida nadi. Þó svo að Sandskrít orðið Hatha þýði kraftmikill þá er það saman sett úr tveimur orðum sem hafa sitthvora merkinguna. Ha sem táknar Sólina eða grunneðli Pingala og tha sem stendur fyrir Tunglið sem er kjarni Ida. Sameining þessara tveggja þátta stuðlar að vakningu Kundalini orkunnar og hærri vitundar.

 Sushumna nadi byrjar í Muladhara chakra eða Rótarstöðinni og liggur beint upp eftir hryggjarsúlunni, alla leið að Sahsrara chakra eða Hvirfilstöðinni. Sushumna nadi er lýst svona af Arthur Avalon, í The Serpent Power “falleg eins og keðja eldinga og fíngerð eins og lótusþráður, skín hún í hugum vitringanna. Hún geymir hreina visku, holdgerfingur Alsælu og hennar innsta eðli fullkomin Vitund.”
Í jógafræðunum má finna hugmyndina um Kundalini Shakti, hina duldu orku lífsins, sem liggur sofandi eins og samanvafinn snákur við rót hryggjarsúlunnar þar sem sem við finnum Muladadhara chakra og Sushumna nadi byrjar. Þegar Kundalini orkan er vakin upp með meðvitaðri hreyfingu Prana eða lífsorkunnar innra með okkur, í gegnum Ida og Pingala nadis, þar sem kven- og karleðlið innra með okkur er sameinað, rís þessi alheimsorka upp Sushumna nadi og orkustöðvarnar sjö, sem hver fyrir sig táknar hækkandi vitund manneksjunnar frá sjálf-hyggju til al-vitundar eða Samadhi.

Orkulíkaminn er hlekkurinn á milli efnislíkamanns og hins andlega líkama og er hægt að nálgast hann frá báðum hliðum. Það er í gegnum efnislíkamann og hinn andlega líkama með hugleiðslu. Það er hinsvegar aðgengilegara fyrir flesta að komast að og hreinsa orkulíkaman í gegnum efnislíkamann með jógastöðum og öndunaræfingum, þar sem við styrkjum sjálfráða- og ósjálfráða taugakerfið. Lífsorkan eða Prana er áþreifanleg myndbirting á hinu æðra Sjálfi. Hatha jóga notar jógastöðurnar og lífsorkuna þar sem fókusinn er á andardráttinn til að auka okkar innri vitund, til að hjálpa okkur að komast nær okkar innsta Kjarna.

Spirituality is not some external goal that one must seek, but a part of the divine core of each of us, which we must reveal.

B.K.S. Iyengar, Light on Life

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir