ÁSTRÍÐA FYRIR PRENTI

Í fyrsta sinn í þau fimm ár sem ég hef gefið út tímaritið fór ég á ráðstefnu í London sem er sérstaklega haldin fyrir smáar og sjálfstæðar útgáfur líkt og Í boði náttúrunnar. Þessi vönduðu litlu tímarit sem stofnuð eru af ástríðu fyrir prentmiðlinum og vönduðu innihaldi hafa poppað upp hvert af öðru úti um allan heim síðastliðin ár. Mörg þeirra hverfa jafn hratt og þau koma inn en önnur hafa haldið velli á þessum erfiða markaði. Einstaka rit hafa meira að segja „meikað það“, eins og Kinfolk og Flow sem eru nú gefin út á tveimur til þremur tungumálum og dreift um allan heim. Auk þess sem þau eru farin að framleiða ýmsar vörur undir merkjum sínum.

Það er óhætt að segja að ég hafi stofnað Í boði náttúrunnar í upphafi þessarar bylgju án þess þó að vera meðvituð um það. Að hitta allt þetta fólk sem stendur í svipuðum sporum með sömu ástríðu fyrir tímaritaútgáfu er mikill og dýrmætur innblástur og fær mann til að hugsa hlutina upp á nýtt. Tímamót eins og fimm ára útgáfuafmæli er líka góður tími til naflaskoðunar; viðra gamlar og nýjar hugmyndir, eins og þá hvort við eigum að fara út í enska útgáfu, eða hafa blaðið á tveimur tungumálum; gera lítil aukarit um sérhæft efni, stofna „content marketing“-stofu með fram útgáfunni, gera meira af viðburðum, myndböndum o.fl. o.fl. En það sem er mikilvægast af öllu er að slík samkoma skerpir á því af hverju maður fór út í þennan bransa.

Traustir og ánægðir lesendur þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að farið verði í drastískar breytingar. A.m.k. ekki fyrr en við höfum heyrt ykkar skoðun á þeim málum. Hvað ykkur finnst t.d. um efnistök, hvað er að virka og hvað ekki. Við ætlum sem sagt að gera skoðanakönnun fljótlega eftir að þetta blað er komið út og fá ykkar hjálp og innlegg til að gera tímaritið (og vefinn) enn betra en það er í dag.

Þangað til vona ég að þið njótið jólaundirbúningsins með blaðið við höndina. Það ættu allir að geta fundið innblástur og fróðleik við sitt hæfi og í framhaldinu gert eitthvað af eftirfarandi: einfaldað líf sitt, búið til eigin sápu, slakað á og litað, borðað í núvitund, eldað guðdómlegan mat og bakað hollari smákökur, breytt laufabrauðs-uppskriftinni hennar ömmu og jafnvel sett góða tónlist á fóninn og dansað eins og enginn sé að horfa!


——-
Auk jólablaðsins gefum við út í fyrsta sinn Jólahandbók en tilgangurinn með henni er m.a. að minna á að við getum haft áhrif með innkaupum okkar og hvetja fólk til að setja sér jóla innkaupastefnu í framhaldinu. Í handbókinni eru leiðbeiningar til að einfalda slíka stefnu og þar er einnig að fynna hugmyndir að því hvernig jólaundirbúningurinn og jólagjafakaupinn geta verið umhverfisvænni. Handbókin fylgir jólablaðinu til áskrifenda og er annars dreift frítt um borgina.

Það var líka annað sem við gerðum í fyrsta sinn, en við létum myndskreyta og prenta dagatal fyrir árið 2016. Það er myndskreytt af Elísabetu Brynhildardóttur og er mikið prýði heima eða á skrifstofuna (40×50 cm). Jú og einstakelga falleg og græn gjöf þar sem það er prentað í svansvottaðri prentsmiðju á Íslandi!

Megið þið eiga innihaldsríkan jólaundirbúning!

Guðbjörg

https://vimeo.com/146997417

Við gerð tímaritsins fáum við tækifæri á að upplifa einstakar stundir með fólki, kynnumst frábærum einstaklingum sem veita okkur innblástur og minna okkur á að gera það besta úr lífinu.
Hér er eitt gott dæmi um dýrmætar hefðir og samveru sem við áttum á heimili Matthildar Leifsdóttur og Ingólfs Stefánssonar

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.