Slangan: Eykur blóðflæði

Jógastaða vikunnar

SLANGAN: Bhujangasana
Bhujang = (Cobra); Asana = Staða
Jógarnir gerðu jóga í guðsgrænni náttúrunni, hermdu eftir dýrum og lærðu af elementum himins og jarðar. Margir halda að jóga snúist bara um að vera liðugri, en það er bara einn þáttur af mörgum í jóganu. Þegar dýrin veikjast hringja þau ekki í lækninn heldur fara ósjálfrátt í stöður sem örva veiku líffærin. Þannig virka jógastöðurna líka á okkur og eru því örvandi fyrir súrefnis og blóðfæði í öllu líffærakerfinu. Aukið súrefnisflæði bætir blóðfæði og því er jóga frábær leið að bæta heilsuna og lengja lífið!
STAÐAN:

Liggðu á maganum með fótleggi saman og ennið í gólfið. Leggðu lófana í gólfið undir axlirnar og olnbogana samhliða síðunum. Andaðu að og lyftu höfði, bringu og kvið frá jörðu. Lífbein er á jörðu allan tímann. Andaðu rólega og finndu hversu líkaminn er tilbúinn að sveigja sig í slönguna eins og hún sé að ná í laufblað í trénu. Gott er að lyfta kviðarvöðvunum inn og upp, en senda rófubein niður í átt að hælum. Passa að axlir sígi slakar niður frá eyrum. Gott er að hafa augun lokuð og rúlla þeim upp í punktinn milli augnbrúna. Ef staðan er óþægileg má færa hendurnar framar á gólfinu. Að virða líkamann og mörkin sín er mjög mikilvægt í jóga.

ÁHRIF:

Slangan bæði styrkir og liðkar allan hrygginn. Styrkir einnig kviðvöðva og örvar æxlunarfærin. Opnar bringu, háls og axlir. Slangan eykur blóðflæði og örvar nýrnaflæði og hjálpar því að losa um stress og þreytu. Slangan er góð fyrir asma einkenni, en ber þó ekki að gera í asma kasti. Slangan er orkugefandi jógastaða, en ber að varast á meðgöngu.

Tögg úr greininni
, ,