Jógakennari og fatahönnuður

Sigrún Halla Unnarsdóttir er jógakennari og fatahönnuður.  Jóga hefur verið hluti af lífsstíl Sigrúnar um árabil en henni finnst fátt skemmtilegra en að gefa það áfram. Við heyrðum í henni hljóðið og fræddumst meira um jógaferðalag hennar. 

Hver er þinn bakgrunnur og hvernig kom það til að þú fórst að stunda jóga?

„Ég er fatahönnuður að mennt og bjó í 5 ár í Danmörku meðan að ég var í námi en flutti heim aftur 2011. Í grunninn er ég landsbyggðarstúlka sem á harðduglega foreldra, mömmu sem er ótrúleg handverkskona og pabba sem getur allt. Ég er í sambúð með tónlistarmanninum Ívari Pétri Kjartanssyni og við eigum son sem heitir Georg Tumi Ívarsson. Ég var mjög mikið í íþróttum á mínum yngri árum og þaðan held ég að ég hafi þessa þörf fyrir að nota líkamann. Meðan að ég var úti í náminu var ég alltaf öðru hvoru í jóga.

Þegar að ég flutti heim og hafði búið á klakanum í tvö ár ráfaði ég inn í jógastöðina Andartak einn daginn, alveg útúr stressuð eftir að hafa tekið ákvörðun um að segja upp vinnunni minni sem fatahönnuður og hafa ekkert annað starf í sjónmáli.

Það eru ekki mörg störf fyrir fatahönnuði á Íslandi, og ég var með fimm ára menntun og þar af leiðandi námslán í takt við það sem þurfti að borga. Þar kynntist ég kundalini jóga og þá var ekki aftur snúið.“

Hvað er það sem jóga gerir helst fyrir þig?

„Það heldur mér gangandi. Það er ekkert flóknara en það. Öðru hvoru missi ég iðkunina mína niður og þá kemur það alltaf í ljós að fljótlega byrja hlutirnir í kringum mig að hrynja niður eins og spilaborg. Kannski full dramatískt, en það er tilfinningin sem ég fæ.“

Af hverju fórstu svo að læra jógakennarann?

„Daginn sem ég fór í jógastöðina Andartak, fór ég þangað til að fara beint í kennaranámið. Ég veit ekki alveg af hverju, ég fékk bara þessa tilfinningu að það væri það sem ég ætti að gera. En ég ákvað svo að prófa að stunda kundalini jóga og sjá hvort að það væri eitthvað sem mér líkaði. Svo lá leiðin í kennaranámið tveimur árum síðar. Ég ákvað það held ég eftir fyrsta tímann sem ég fór í. Þetta var bara eitthvað fyrir mig og ég varð að læra meira.“

Hvað er á döfinni hjá þér?

„Það er mjög margt á döfinni. Ég er að fara að beina mikilli orku næstu misserin að nýju fatamerki sem ég var að stofna sem heitir AD. Þetta er í fyrsta sinn sem ég er að gera algjörlega mitt eigið og ég ætla að vera frekar mikill rebel með þetta merki. Ég ætla að gera nákvæmlega það sem mér sýnist. Ekki gera endilega það sem væri skynsamlegast heldur bara nákvæmlega það sem mig langar að gera hverju sinni. Ég hef fundið að það er eina leiðin til þess að halda áhuganum gangandi hjá mér. Ég er með svo blendnar tilfinningar gagnvart fataiðnaðinum í heild og neyslunni sem honum fylgir. Ég er í rauninni mjög skrítinn fatahönnuður. Ég gæti alveg lifað góðu lífi í crocs skóm og mussu. En á sama tíma finnst mér sjúklega gaman að nördast með efni, liti, framsetningu og hlusta á innsæið og nýta mér það í ákvarðanatöku. Að vera hönnuður snýst mjög mikið um að taka ákvarðanir. Innsæið er sennilega sameiginlegi flöturinn á þessum tveimur heimum mínum, fatahönnuninni og jóganu. Ég framleiði AD fatnaðinn í verksmiðjunni hjá Varma en ég er líka freelance hönnuður hjá þeim. Verksmiðjan er hérna í miðri Reykjavík, nánar tiltekið Ármúla 28. Það gerist ekki mikið meira local og fagurt.

Að kenna kundalini jóga er það skemmtilegasta sem ég geri. Kundalini jóga er svo fallegur heimur sem hægt er að taka svo margt úr og nota í foreldrahlutverkinu og lífinu. Það er það sem jógað snýst um, hversdagurinn og hvernig við getum bætt líf okkar með því að stunda það.“

Einhver hugleiðsla sem þú mælir með fyrir lesendur í lokin?

Fyrir þá sem eru að byrja að hugleiða mæli ég með Kirtan Kriya. Hana er hægt að finna á youtube og leiðbeiningar á heimasíðunni 3ho.org. Svo ég er að byrja á hugleiðslu sem heitir Last mediation. Hana er hægt að finna í bókinni I am a woman. Hún er mjög góð þegar að manni vantar slökun og skýra hugsun eftir erfiða törn.“

Viltu vita meira um kundalini jógatíma Sigrúnar Höllu:

https://www.facebook.com/sigrunkundalini/