Skötuveisla með augum gestsins

TEXTI  Gary Wake  MYNDSKREYTING Lóa Hjálmtýsdóttir

Á miðjum 8. áratugnum geisaði þorskastríð á milli Bretlands og Íslands. Löngu síðar átti Englendingurinn Gary Wake í annars konar stríði við Íslendinga út af fiski, skötu í skötuveislu. 

Himinninn var heiðskír. Norðurljósin glitruðu yfir snævi þaktri jörðu. Það var að kvöldi 22. desember, mínum fyrstu íslensku jólum.

Þar sem ég stóð fyrir utan hvítmálaða kirkjugarðsveggi dáðist ég að því hvernig grafirnar ljómuðu. Lugtir og tindrandi kertalogar – hlýjar kveðjur til ástvina, sem farnir voru yfir móðuna miklu. Tryggvi, vinur minn, var að reyna að átta sig á því hvað mér þætti svona heillandi. Ég útskýrði fyrir honum að á Englandi þætti það aldrei boða á gott að standa um nætur í dimmum og drungalegum kirkjugörðum. En ljósadýrðin hér minnti reyndar frekar á diskótek!

Þegar við komum að heimili hans í Garðabænum – ég enn upptendraður eftir þessa einkennilegu upplifun – blasti við mér yfirgefið jólatré í heimreiðinni, liggjandi í snjónum. Var þetta fólk virkilega of önnum kafið til að færa það inn fyrir og skreyta? Var þetta orsök allsherjarmisskilnings milli fjölskyldumeðlima? Þeir hlutu að vita að það væru aðeins tveir dagar til jóla!

„Samkvæmt hefð færum við tréð ekki inn fyrr en 23. desember, á Þorláksmessu,“ útskýrði Tryggvi. „Með þessu móti verða sokkarnir þínir að minnsta kosti ekki að nálapúða. Og tréð mun ekki minna á útlifaða beinagrind á aðfangadagskvöld enda fella jólatré helling af nálum bara við það að horft sé á þau!“ Ég útskýrði í framhaldinu að flestir Englendingar skreyttu jólatrén sín um tveimur vikum fyrir jól. En hvað var Þorláksmessa?

Ég átti eftir að komast að því innan skamms. Það átti eftir að vera minn draugur liðinna jóla eins og í Jólasögu Dickens. Reynsla sem ásækir mig fram á þennan dag. Tryggvi lagði til að við kæmum ferðatöskunni minni fyrir, heilsuðum upp á fjölskylduna og færum síðan í bæinn að fagna komu minni með fáeinum mjög dýrum bjórglösum. Jæja, kannski aðeins fleirum en fáeinum. Og töluvert dýrari en það sem ég á að venjast sem dýrum bjór! 

Ég man ekki mikið eftir þessu kvöldi – öðru en að læra orðið Skál! Og heyra það allt of oft. Ég man hins vegar eftir því að ranka við mér smám saman og horfa á risavaxin snjókorn falla til jarðar um leið og birti af morgni.

Þennan auðþekkjanlega fnyk af ammoníaki, sem varð til þess að ég hrökk upp með andfælum. Hvað hafði ég eiginlega drukkið mikið kvöldið áður? Þetta átti eftir að vera vandræðalegt. Ég hafði ekki pissað undir síðan ég var fjögurra ára.

Og þá fann ég hann fyrst. Þennan auðþekkjanlega fnyk af ammoníaki, sem varð til þess að ég hrökk upp með andfælum. Hvað hafði ég eiginlega drukkið mikið kvöldið áður? Þetta átti eftir að vera vandræðalegt. Ég hafði ekki pissað undir síðan ég var fjögurra ára. En hvorki ég né rúmfötin voru blaut. Hjúkk! Það var semsagt ekki ég, það hlaut þá að vera Tryggvi. Þar sem ég lá og velti því fyrir mér hvernig best væri að höndla málið vaknaði hann. „Allt í góðu, félagi?“ spurði ég varfærnislega, er sterk lyktin reyndi sitt allra besta til að bera mig ofurliði. „Gæti ekki verið betri, minn kæri.“

Ég yppti öxlum og fór í sturtu. Hitaveituvatnið lyktaði eins og fúlegg og ég bjó mig undir að lykta enn verr á eftir. Þegar ég kom til baka var Tryggvi farinn. Ég notaði tækifærið og kíkti í rúmið hans. Þurrt! Engu að síður yfirgnæfði þessi sterka þvaglykt allt herbergið. Reyndar hafði hún hertekið allt húsið. Þar sem ég sat í eldhúsinu með bolla af rótsterku kaffi, við glugga sem neitaði að opnast, vonaði ég heitt og innilega að göfugur keimur Kólumbíublöndunnar myndi lina þrautir mínar. Því miður varð það ekki raunin.

Tryggvi kom inn, hress í bragði og tilkynnti að á Þorláksmessu, sem væri helguð 12. aldar biskupnum Þorláki Þórhallssyni, væri siður að skreyta tréð og dreifa jólagjöfum til vina og vandamanna. „Og borða ákveðinn mat,“ bætti hann við og brosti lævíslega. Ég vildi segja eitthvað, en kurteisinnar vegna nefndi ég ekki að ég hefði fundið fyrir ógeðslegri lykt í húsinu. Hvorki hann né foreldrar hans, Eyja og Árni, sem höfðu tyllt sér hjá okkur, höfðu heldur gert neitt sem benti til þess að eitthvað óvenjulegt væri á seyði. Kannski lyktuðu öll íslensk heimili svona. Það átti reyndar eftir að koma á daginn að mörg þeirra gerðu það vissulega. Samkvæmt nýlegri könnun lykta 40% íslenskra heimila svona á Þorláksmessu!

Við vörðum síðdeginu í erindagjörðum jólasveinsins. Við heimkomuna fylltist ég vonleysi við að sjá engan opinn glugga. „Jæja vinur, nú er mál að fara í betri fötin. Öll fjölskyldan er á leiðinni í mat,“ sagði Tryggvi. „Hefðbundinn íslenskan kvöldverð,“ bætti hann við og brosti sama dularfulla brosinu. Mig sundlaði en barðist samt gegnum ólyktina á þessu ágæta Garðarbæjarheimili. Dró fram mína bestu skyrtu, hnýtti á mig bindi og settist svo við borðstofuborðið, ásamt Tryggva, foreldrum hans, þremur bræðrum og eiginkonum þeirra. Einhvers konar samsæri gegn grunlausa gestinum frá Englandi lá í loftinu. Bókstaflega! Það hafði verið þar allan liðlangan daginn og ágerðist stöðugt!

Þegar Eyja valsaði inn í herbergið með fat af rjúkandi veislufæðu sló hátíðlegri þögn á hópinn, og allir litu á mig. Hún lyfti lokinu stolt og stjakaði einhverju sem líktist slímugum gráum sokkum á diskinn minn. Lyktin var kæfandi! Þetta var þá það sem lék mig svona grátt! En hvað í ósköpunum var þetta? Lengi gat vont versnað. Næst kom Eyja með bálreiða og frussandi steikarpönnu og tilkynnti létt í bragði að þetta væri hamsatólg. Bráðin kindafita!

Hún beið ekki boðanna heldur hellti hamsatólginni yfir gráu sokkana með velþóknun viðstaddra. Ja, kannski ekki allra. Þegar ég hélt að sokkarnir gætu ekki verið ólystugri þá var þetta punkturinn yfir i-ið. Þegar fitan kólnaði myndaðist hvítt, storknað lag af fitu sem minnti á slímugan snigil.

En bragðið gæti varla verið eins vont og lyktin. Ég herti mig upp að Breta sið og stakk gafflinum í sokkana. En fyrst bætti ég soðinni kartöflu og rófu á diskinn. Mamma hvatti mig jú alltaf til að borða grænmeti. Áferðin var seig og sleip og það var vandasamt að koma fæðunni upp á gaffalinn. Ég barðist gegn betri vitund og lyfti hikandi gafflinum að munninum.

Ég held að ég hafi engu að síður virst hugrakkur, enda gerði ég mitt allra besta til að vera verðugur fulltrúi fósturjarðar minnar.

Augu allra viðstaddra hvíldu áfram á mér. Ég vissi samstundis að ég væri í vondum málum. Sem betur fer, dálítið eins og móðir sem nær að útiloka minninguna frá sársaukafullum barnsburði, átti minnið eftir að hjálpa mér að þurrka út alla minningu af því hvernig þetta bragðaðist. En ég veit þó að það sveið og var ennþá ógeðslegra en það virtist. Það var vonlaust að tyggja það – því fyrr sem ég kom því niður þeim mun betra. Maginn var allur í uppnámi og við það að gjósa. En hvernig gat ég þóst halda ró minni? Og það sem meira er, sjálfsvirðingunni? Ég greip glas af vatni og skellti því öllu í mig. Hér var enginn tími fyrir borðsiði. Þetta var neyðarástand!

En þetta var ekki vatn! Þetta var brennivín, íslenskur snafs sem heitir líka því viðeigandi nafni Svarti dauði. Eða í mínu tilfelli: Hægur kvalafullur dauðdagi. Ég held að ég hafi engu að síður virst hugrakkur, enda gerði ég mitt allra besta til að vera verðugur fulltrúi fósturjarðar minnar. Þegar Árni sá hvernig ég hesthúsaði brennivíninu stóð hann upp og fyllti glasið mitt aftur. Upp að brún. „Ja hérna, þessi kann svo sannarlega að drekka,“ sýndist mér hann hugsa með sér. „Jæja… hvernig finnst þér?“ spurði einhver. „Mér þykir það afar leitt en er í lagi ef ég leifi afgangnum? Sagði ég með grátstafinn í kverkunum en reyndi mitt besta til að halda aftur tárunum. „Hvað er þetta eiginlega?“

„Skata,“ sögðu þau öll í kór. „Við hlökkum alltaf til hennar á þorláksmessu,“ sagði Tryggvi. „Viltu vita hvernig við verkum hana? Ég vissi að hann myndi segja mér það hvort sem er – og njóta þess í botn! Vildi ég virkilega heyra þetta? Gæti þessi dagur orðið eitthvað verri? Ég var nú þegar byrjaður að hata Þorlák og messuna hans! „Skatan hefur legið grafin úti í garði í heilan mánuð og við höfum öll pissað á hana. Þannig er hún verkuð,“ sagði hann stoltur. Þetta var semsagt verra. Miklu verra. Það útskýrði að minnsta kosti lyktina. Ég hefði frekar kosið sokkana.

Í gamla daga var skatan, rétt eins og hákarlinn – hitt sem Íslendingar kalla góðgæti en öðrum reynist nær ómögulegt að borða – grafin og látin rotna, eða réttara sagt gerjast (það er víst munur þar á). Að kasta á hana þvagi gæti hafa verið gert fyrir heilli öld þegar viðhorf til hreinlætis, öryggis og matargerðar var afslappaðra á Íslandi. En ég held að þetta sé bara flökkusaga – og að vinir mínir séu enn að hlæja á minn kostnað. Nú til dags er skatan látin gerjast í tæpan mánuð á meðan þvagefni úr henni breytist í ammoníak, sem skýrir sterku lyktina.

„Og að hugsa sér að við skyldum meira að segja hafa farið í stríð við ykkur Íslendinga yfir fiski. Við vorum svo sannarlega ekki að deila um þetta!” sagði ég áður en ég hvolfdi í mig næsta snafsi í von um að skola óbragðið úr munninum. Ég varð jú að viðhalda áliti Árna á mér sem hetju.

Þessi grein er úr Fæða|Food 2019