TRYGGJUM HEILKORNIN

Ég gleðst mikið yfir því hversu heilkorn eru að verða meira áberandi í matvörubúðum og þar af leiðandi í mataræði okkar. Vonandi detta þau aldrei úr tísku. Hafrar, kínóa, bygg og hýðishrísgrjón eru dæmi um heilkorn þar sem ekki er búið að fjarlægja hýðið og kímið af korninu og þar af leiðandi tapast ekki mikilvæg vítamín og steinefni sem við getum fengið úr þessum fæðutegundum.

Ásamt næringarefnum sem við fáum úr heilkornum þá innihalda þau hátt hlutfall af trefjum en þær hafa góð áhrif á meltingu og seddu. Talið er að aukin neysla á heilkornum dragi úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki 2 og sumum tegundum krabbameina. Einnig þykir mér jákvætt að það er auðvelt nálgast þessi korn lífræn án þess að kosta of mikið.

Við þurfum þó að hafa í huga að sumar vörur sem bera heilkornastimpil eru ekki endilega gríðarlega hollar. Sumir matvælaframleiðendur sem framleiða vörur úr fínunnum kornum setja oft hugtakið heilkorn á vörurnar sem einhvers konar hollustustimpil. Við verðum alltaf að skoða annað innihald vörunnar áður en við erum viss um að varan sé holl þó að hún innihaldi eitthvert magn af heilkornum. Fínmalaður heilkornamaís sem er í Cocoa Puffsi hefur t.d. ekki sömu heilsufarseiginleika og heilkornarúgur eða bankabygg. Þó að heilkornabrauð sé vissulega mun hollara en brauð úr 100% hvítu hveiti þá er búið að mala heilkornin mjög fínt og þá tapast sumir eiginleikar trefjanna sem við annars hefðum þurft að taka lengri tíma til að tyggja og melta. Því mæli ég með hóflegri brauðneyslu og legg áherslu á að borða heilkorn og heilkornavörur eins lítið unnar og hægt er. Góð regla er að kaupa ekki brauð nema að þau innihaldi að minnsta kosti 6 grömm af trefjum í 100 grömmum af brauði.

Ekki láta framleiðendur plata þig með “heilkorna-skreytingum” og fáðu mest af þínum heilkornum úr algjörlega óunnum fæðutegundum sem þú þarft að tyggja vel og lengi.

Hér er uppskrift af einföldum heilkorna morgunverði:

Fyrir 2

2 dl bankabygg

5 dl vatn

Kanill eftir smekk

Bankabygg frá Vallanesi er skolað vel og sett í pott ásamt vatni. Þegar suðan er komin upp er gott að slökkva alveg undir og skella loki á pottinn. Byggið látið malla í um 30-40 mínútur og hrært aðeins í á milli eða þar til það hefur tekið allt vatn í sig.

Mjög gott að toppa grautinn með hreinu skyri og slettu af grískri jógúrt ásamt söxuðum hnetum, mórberjum eða bláberjum.

Þessi morgunverður er saðsamur og trefjaríkur sem inniheldur langvarandi orku úr byggi, gott prótein úr hreinum mjólkurvörum og holla fitu úr þeim hnetum og fræjum sem þú skreytir grautinn með eftir smekk.

Elísabet á Instagram