UPPSKRIFT: Shakshuka

Matarþáttur Í boði náttúrunnar Í HAUSTBLAÐINU 2014 var í höndum þeirra sem standa á bak við sjónvarpsþáttinn Hið blómlega bú, matreiðsluþátt sem fjallar um íslenska matarmenningu og hvernig hægt er að lifa af landinu í takt við árstíðirnar. Matgæðingurinn Árni Ólafur Jónsson starfaði áður sem kokkur á Manhattan en í honum blundaði þó sú þrá að kynnast íslenskri matarmenningu enn betur og þegar hann kynntist framleiðendunum Bryndísi Geirsdóttur og Guðna Páli Sæmundssyni, kvikmyndagerðarmanni, fóru hlutirnir að gerast. Úr varð að þau tóku á leigu landskika uppi í Borgarfirði og byrjuðu að taka upp þáttinn, rækta, gera og græja. Hér birtist brot úr greininni af réttinum Shakshuka:

Oft er þessi réttur notaður sem morgunmatur þar sem hann er upprunninn, sem er í Norður-Afríku og Ísrael. Okkur finnst hann mjög þægilegur þegar við erum í löngum törnum og þurfum góða næringu í léttum mat. Við gerum stóra skamta sem eiga að endast í tvö mál … en gera það ekki alltaf. Shakshuka er nefnilega virkilega gott!
Það er frábært að elda Shakshuka úr fjalli af vel þroskuðum nýtíndum tómötum en einnig má notast við niðursoðna tómata. Hefðbundið er að nota tómata, lauk, kartöflur, broddkúmen og harissa, sem er mauk úr m.a ristuðum belgpipar og papriku. Við notum oft reykta papriku í staðinn og finnst passa vel. Bragðgóð ólívuolía er mikilvæg og þó að eldamennskan fari ekki vel með fínu kaldpressuðu ólívuolíuna þá á bragðið heima í þessum rétti. Við nýtum það grænmeti sem garðurinn gefur; í þetta sinn nokkra litla spergilkálhausa sem spruttu á plöntunni eftir að við höfðum uppskorið aðalhausinn, safaríka fenniku og fallegar fjólubláar kartöflur.

Shakshuka

– Fyrir fjóra til sex

Innihald

3 msk. jómfrúarolía

1 laukur, helmingaður og skorinn í þunnar sneiðar

1 lítið fennel, helmingað og skorið í þunnar sneiðar

5 hvítlauksgeirar, sneiddir þunnt

1 tsk. malað broddkúmen (kummin)

1 tsk. reykt paprika

⅛  tsk. cayenne-pipar

1½  kíló vel þroskaðir tómatar, grófhakkaðir

100 g nýjar möndlukartöflur, skornar til helminga

50 g svartkál, grófskorið

1 stór lúka af litlu spergilkáli

1½ tsk. salt

½ tsk. pipar

150 g paneer (eða fetaostur), skorinn í litla teninga

6 egg

Ferskar kryddjurtir, svo sem steinselja eða kóríanderlauf

Leiðbeiningar

  1. Hitið ofn í 180º C.
  2. Hitið stóra pönnu yfir miðlungshita. Mýkið lauk, fennel og hvítlauk í olíunni í um 5-10 mínútur. Bætið broddkúmeni, reyktri papriku og cayenne-pipar á pönnuna og eldið í 30 sekúndur eða þar til anganin af kryddinu stígur upp.
  3. Tómatar fara þá á pönnuna og sósan látin malla á vægum hita í 20 mínútur. Setjið þá kartöflurnar, svartkálið og spergilkálið út í og eldið í 10 mínútur í viðbót. Kryddið með salti og pipar og bætið við vatni ef sósan verður of þykk.
  4. Setjið ostinn út í og gerið sex dældir í sósuna með ausu. Brjótið eggin ofan í dældirnar og færið pönnuna yfir í ofninn. Bakið í 7 mínútur eða þar til hvítan er orðin stíf en rauðurnar enn linar.
  5. Stráið ferskum kryddjurtum yfir rétt áður en rétturinn er borinn fram.

Verði ykkur að góðu!

GREININ BIRTIST Í HEILD SINNI Í HAUSTBLAÐI Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR 2014 – KAUPTU HÉR Á AÐEINS 850 KR

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.