Viðhorf og viljastyrkur

Það fylgir því að vera til að upplifa erfiðar aðstæður. Hvort sem það er að missa vinnuna, lenda í peningaerfiðleikum, missa einhvern nákominn, verða fyrir einhversskonar áfalli eða mótlæti í lífinu, allt frá minniháttar til meiriháttar.

Ekkert er eðlilegra en að bregðast við slíkum aðstæðum eða atburðum með því að finna fyrir erfiðum tilfinningum og jafnvel hugsunum sem vekja upp ennþá fleiri óþægilegar tilfinningar. Það er fullkomlega mannlegt og skiljanlegt að upplifa slík viðbrögð og mikilvægt að sýna sér umburðarlyndi og skilning í slíkri upplifun. Á þeim stundum er jafnvel tækifæri til að verða enn nánari og tengjast sínum nánustu í kringum sig, þeim sem styðja og standa þétt við mann í slíkri reynslu. Þá kemur það skýrt í ljós hverjir eru til taks og styðja mann sama hvað kemur fyrir. Það getur einnig verið tækifæri til að læra að biðja um hjálp og leita sér aðstoðar, finna tengingu við annað fólk í kringum sig.

Þannig getur erfið lífsreynsla gert a.m.k. tvennt fyrir mann:

1) Hjálpað manni að horfast í augu við erfiðar tilfinningar og hugsanir og kennt manni að sýna sér umburðarlyndi og samkennd í slíkri upplifun.

2) Gefið manni tækifæri til að tengjast fólkinu sínu eða öðru fólki betur og séð hverjir það eru sem eru tryggir og traustir í lífi manns.

En spurningin er síðan, hvað ætlar þú að gera næst? Hvað velur þú að gera næst í þessari stöðu sem þú ert í? Það er stór spurning sem getur verið ótrúlega mikilvæg í slíkum aðstæðum. Margir leyfa slíkum atburðum að taka yfir líf sitt og framtíð. Það getur verið svo auðvelt að leyfa erfiðum atburðum að skilgreina okkur og leyfa þeim að hafa áhrif á framtíð okkar. Að yfirfæra valdið á mótun framtíðar okkar yfir á þessar aðstæður eða þennan atburð. Það er mjög auðvelt að gera það.

Það er hins vegar annar valmöguleiki. Það er valmöguleikinn að nýta okkur það vald sem við höfum á því að hafa áhrif á okkar eigið líf. Að sleppa því að ,,leyfa” aðstæðunum/viðburðinum að hafa áhrif á framtíðina og líf okkar núna. Sannleikurinn er sá að þær hafa það ekki, það eru aðeins við sem festumst í þeirri trú að aðstæðurnar skilgreini líf okkar. En við stjórnum því í raun hvernig við bregðumst við þeim. Við getum ákveðið að taka góðar ákvarðanir sem hafa jákvæð áhrif á líf okkar og við stjórnum því hvernig við lítum á þessar aðstæður sem við upplifum. Við getum ákveðið að leyfa þeim að letja okkur og detta niður í depurð og sleppt því að halda áfram að njóta lífs okkar eða ákveðið að sjá þetta sem tækifæri til að efla okkur og styrkja viljastyrkinn í að hafa áhrif á okkar eigið líf til góðs.

Við stjórnum ekki aðstæðum í kringum okkur, atburðum eða öðru fólki. En við stjórnum því hvernig við bregðumst við þessu öllu og við getum ákveðið að láta það draga okkur niður eða ákveðið að trúa því að við komumst í gegnum þetta og getum orðið sterkari fyrir vikið og munað að líf okkar haldi áfram.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.