Vorhreingerning líkamans

Screen Shot 2015-04-10 at 12.55.13 PM

Með hækkandi sól finna margir fyrir knýjandi þörf til að taka til hendinni og fara í allsherjar vorhreingerningu þar sem skítugir gluggar eru þrifnir og rykið, sem ekki var sýnilegt í skammdeginu, er fjarlægt. Á sama árstíma er einnig vinsælt að fara í svokallað dítox eða vorhreingerningu á líkamanum. Það felst í því að losa líkamann við óæskileg eiturefni sem geta, ef ekkert er að gert, dregið úr getu hans til að viðhalda sjálfum sér.

Fasta eða hreinsun hefur verið notuð í ýmsum menningarheimum, s.s. Kína og Indlandi, í árhundruð og gengur út á að hjálpa helstu hreinsunarlíffærunum, s.s. lifrinni, nýrunum, húðinni, lungunum og ristlinum, að hreinsa sig. Aðferðirnar eru bæði margar og ólíkar en markmiðið með þeim flestum er það sama: Að bæta lífsgæðin með því að hjálpa meltingunni og ónæmiskerfinu að starfa betur, bæta svefninn, auka orkuna og svo mætti lengi telja. Ætla má að þörfin fyrir hreinsun sé enn meiri nú en áður fyrr ef miðað er við magn mengunar, eiturefna og ruslfæðis í umhverfi okkar og neysluvenjum.

Hreinsun er framkvæmd með því að fasta, hvort sem hún er fógin í því að drekka bara vatn, neyta aðeins fljótandi fæðu eða breyta mataræðinu. Á þann hátt fær hreinsunarkerfi líkamans hvíld og getur hafist handa við að byggja upp og græða líkamann af enn meiri krafti en áður. Fastan getur tekið mismunandi langan tíma eftir því hvaða leið er farin og hversu vanur sá er sem ætlar að fasta. Einnig skiptir miklu máli hvernig fólk brýtur föstuna og byrjar að borða aftur. Við leituðum til nokkurra vaskra kvenna, sem allar hafa boðið upp á leiðsögn í þessum fræðum, til þess að fræðast meira um mikilvægi hreinsunarinnar, hvaða áhrif hún hefur á líkamann og hvernig best er að bera sig að.

Listgreinin að fasta

Að mati Kristbjargar Kristmundsdóttur jógakennara og blómaþerapista er gjörningurinn að fasta listgrein sem mikilvægt er að framkvæma vísindalega og af þekkingu til þess að upplifunin verði ánægjuleg bæði andlega og líkamlega. Hún segir að erfitt sé að mæla með einni aðferð því það sé mjög einstaklingsbundið hvað fólk þarf. „Sem þerapisti hjálpa ég fólki að velja aðferð sem hentar því með tilliti til aldurs, líkamsbyggingar o.fl. Það er ekki til nein alhliða lausn á því hvernig á að fasta en auðvitað eru samt alltaf reglur sem þarf að fara eftir. Venjuleg manneskja myndi aldrei fasta eins og ég geri. Það yrði alltof mikið sjokk fyrir líkamann.“

Kolbrún Björnsdóttir grasalæknir tekur í sama streng og bætir því við að stundum sé nóg að hætta bara að borða mjólkurvörur, ger, sykur og hveiti og drekka kaffi og áfengi en borða allan hefðbundinn mat áfram. Þá fær líkaminn frið til að hreinsa sig þrátt fyrir að manneskjan sé ennþá að borða mat. „Það fer mikil orka í að melta þungan mat. Ef fólk er orðið þreytt og er með einhverja kvilla sem ræna mikilli orku þá er líkaminn fljótari að lækna sig ef það er á léttara fæði.“ Kolbrún notar líka jurtir í dítox-meðferð sinni til að hjálpa nýrunum og lifrinni en það eru aðal hreinsunarlíffærin. „Önnur leið er að fasta aðeins á grænmetisfæði, hvort sem það er soðið eða hrátt, maukað eða ómaukað.“ Hún mælir samt með því að borðuð sé lifandi fæða með sem ekki hefur verið elduð við háan hita, s.s. súrkál (mjólkursýrt), kornspírusafa og spírur sem auðvelda meltinguna. „Ef þú borðar bara grænmeti getur það verið svolítið tormelt.“

Lilja Oddsdóttir, skólastýra Heilsumeistaraskólans, mælir með notkun svokallaðrar saltvatnsaðferðar. Hún byggist á því að drukkinn er lítri af saltvatnsblöndu, í sömu hlutföllum og vatnið í frumum líkamans, á hverjum morgni í tíu daga til að skola út úr ristlinum. Hlutföllin eru ein matskeið af salti á móti einum lítra af vatni. Æskilegt er að vatnið sé volgt, notað sé hágæða salt, s.s. Himalaya-salt eða íslenska saltið frá Reykhólum, og að vatnið sé drukkið á innan við 15 mínútum. Samtímis er best að borða lífrænan, óunninn mat. Galdurinn felst svo í því að saltvatnsblandan fari í gegnum ristilinn án þess að líkaminn sjúgi til sín vatnið en það gerist bæði vegna þess hve hratt vatnið er drukkið og vegna þess að hlutföllin eru þau sömu og í frumum líkamans. Þeim sem eru með of háan blóðþrýsting er samt ekki ráðlagt að nota þessa aðferð. „Það er mjög mikilvægt að fara í gegnum einhvers konar hreinsun á hverju ári til þess að hvíla líffærin því við erum að drepa okkur á því að borða of mikið og ekki nógu góðan mat. Við fáum líka alltof lítið af trefjum úr matnum og losnum því ekki við úrgang og lyf sem sitja eftir í ristlinum.“

Stólpípa eða magnesíum

Þeir sem lengra eru komnir fasta oft eingöngu á safa eða mat í fljótandi formi og þeir sem eru komnir lengst, eða í „heimsmeistaraflokk“ eins og Kristbjörg kallar það, geta fastað með því að drekka aðeins vatn. Það er ekki mælt með því að leikmenn reyni vatnsföstu því mikil vanlíðan getur fylgt henni fyrir þá sem ekki eru vanir. „Það er alltof algengt að fólk ætli sér að fasta án leiðsagnar og drekki bara vatn sem endar með því að viðkomandi er að drepast úr hausverk og vanlíðan og gefst svo upp. Ef þú ert grænmetisæta hefurðu um ótal margar leiðir að velja til að fasta. Ein af þeim væri að borða bara mat úr einum fæðuflokki í svolítinn tíma. Þá borðar þú kannski bara grænmeti. Það er til að létta á líkamanum. Mjög flókinn matur er erfiður fyrir meltingarfærin. Það er líka munur á því að fasta á safa og á fljótandi súpum og hristingum því með því að borða súpur og hristinga er líkaminn að fá heitan mat sem veitir vellíðan.“ Kristbjörg bendir á mikilvægi þess að líða vel á föstunni og því þurfi að fara varlega og fá leiðsögn þeirra sem lengra eru komnir. „Það þarf að gera þetta með gát því líkaminn er að taka upp næringu og verður að skila hægðum, annars er alveg eins hægt að sleppa því að fasta. Margir flaska á þessu atriði. Ef manneskjan er ekki með reglulegar hægðir getur ristillinn sogað til sín úrgangsefnin aftur sem þurfa þá að fara annan hring í kerfinu.“ Kristbjörg mælir með notkun stólpípu en þá er auðvitað mikilvægt að kunna vel til verka. Einnig er hægt að taka trefjar, nota magnesíum, c-vítamín og aðrar aðferðir og hver og einn verður auðvitað að velja sína aðferð sjálfur. Langflestir verða að hjálpa líkamanum að koma frá sér úrgangi ef um safaföstu sé að ræða. Kristbjörg segist sjálf aldrei fasta án þess að nota stólpípu og skolpoka.

Ekki má heldur gleyma mikilvægi þess að hlúa að öllum líkamanum á föstunni. Góð hreyfing og iðkun jóga og hvers kyns hugleiðslu er mjög mikilvæg til þess að koma hreyfingu á blóðið og minnka stress í líkamanum. Hugsaðu líka jákvætt til að lyfta andanum og mundu að anda djúpt ofan í maga til þess að fá nóg af súrefni. Að bursta húðina með náttúrulegum bursta er mjög gott til að losna við dauðar húðfrumur og örva húðina sem er eitt af hreinsunarlíffærum líkamans. Einnig er frábært að fara í nudd. Gufuböð stuðla líka að betri föstu því með því að svitna losar maður eiturefni út um húðina.

Allur er varinn góður

Þær Kolbrún, Kristbjörg og Lilja eru allar sammála um mikilvægi þess að hreinsa líkamann öðru hverju því enginn komist hjá því að fá í sig einhver eiturefni þrátt fyrir að reynt sé að borða lífrænt. Samt sem áður er ekki æskilegt fyrir þá sem eru sykursjúkir, með nýrnabilun eða á miklum lyfjum að fasta. Ekki ættu ófrískar konur og þær sem eru með börn á brjósti heldur að fasta. Lilja bendir einnig á að varasamt sé að fasta ef mikil andleg vandamál eru fyrir hendi því tilfinningarnar komi alltaf upp á yfirborðið í hreinsun. Hreinsunin ýki í raun allt, hvort sem það séu tilfinningar eða virkni lyfja, og því sé gott að leita ráða leiðbeinanda ef um einhvers konar kvilla, andlega eða líkamlega, sé að ræða.

Að lokum er gott að hafa í huga að auðvitað er ekki æskilegt að byrja strax að raða í sig ruslfæði eða kaffi eftir föstuna. Að brjóta föstuna rétt getur verið eins mikilvægt og að byrja hana rétt. Hversu hægt þið farið í að byrja að borða venjulegan mat aftur fer samt auðvitað eftir því hvernig föstu þið völduð. Ef um er að ræða safaföstu er gott að byrja á því að borða banana eða aðra ávexti og í framhaldinu aðra auðmeltanlega fæðu, s.s. gufusoðið grænmeti og súpur. Forðist að borða mjög feitan mat eða sterkkryddaðan. Alltaf er mælt með því að taka acidophilus og aðrar góðar bakteríur fyrir meltingarfærin og drekka vel af vatni. Einnig er gott að borða aðeins fáar matartegundir í einu og bíða jafnvel með að borða fisk og kjöt í viku. Fyrstu dagana er því hægt að borða ávexti og svo grænmeti en færa sig yfir í fisk og kjöt eftir u.þ.b. viku. Þegar byrjað er að borða fisk og kjöt er best að byrja á fuglakjöti og fiski. Og það á alltaf við að borða ekki of stóra skammta. Drekkið svo nóg af engifertei og gangi ykkur vel!

Texti Elín Hrund Þorgeirsdóttir’

forsíða Í boði náttúrunnar sumar 2014 GREININ BIRTIST Í SUMARBLAÐI í BOÐI NÁTTÚRUNNAR 2013– FÁÐU ÞÉR EINTAK Á AÐEINS 850 KR: HÉR

Aðrar greinar í tölublaðinu:

Sólarvarnir: góðar eða slæmar?
Heimsókn í 3 falleg gróðurhús
Skreytt með villtri náttúru
Óvenjulegt Brúðkaup
Vistmenning (permaculture)
Te menning, hvernig hellirðu upp á hinn fullkomna bolla
Hjólhesturinn – gerir upp gömul hjól

O.fl ofl.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.