Jógastaða vikunnar

TRÉ: Vrikshasana

Hugurinn flýgur með okkur um víðan völl og áreyti og hraði nútímans geta orsakað einbeitingarskort og eirðarleysi. Jafnvægisstöður í jóga eru frábærar til að jarðtengja okkur, styrkja líkamann og einbeitinguna. Jafnvægið okkar er mjög misjafnt frá degi til dags, innra sem ytra. Lífið er eilíf leit að jafnvægi!
 
STAÐAN: Stattu í beinni stöðu eins og fjall með hendur niður með síðum. Beygðu svo hægra hnéð og settu fótinn hátt upp á vinstra lærið. Þrýstu ilinni vel að læri og lærinu á móti haltu vinstri fótlegg beinum. Augun eru opin og þú horfir á sama punktinn allan tímann. Þegar jafnvægið er komið lyftirðu höndunum rólega upp með lófana saman (Namaste mudra) Finndu beinan hrygginn  lengjast eins og mjúkt teygjuband. Öndunin er djúp og róleg og gott að brosa mjúku búddabrosi. Með rólegri fráöndun kemurðu með hendur niður og síðan fótinn. Gott er að standa augnablik á báðum fótum með lokuð augun og þiggja áhrifin áður en þú skiptir um hlið. Finndu þig sem tré með djupar rætur!
 
ÁHRIF: Eins og margar jógastöður, er tréð frábær staða fyrir bæði líkama og huga. Tréð er jarðtengjandi og bætir í senn innra og ytra jafnvægið. Tréð styrkir læri, kálfa, ökkla og hrygginn. Teygir á nára og innanlærum og opnar bringu og axlir,  Kyrrlát augu styrkja jafnvægi og einbeitingu. Dásamlegt er að gera tréð úti í náttúrunni. Ef ekki þá geturðu ímyndað þér að þú sért úti í guðsgrænni náttúrunni, tengd/ur við himinn og jörð.
Tögg úr greininni
, ,