Hærri tíðni

Hver hugsun eða tilfinning hefur ákveðna tíðni sem hægt er að mæla. Ástæður fyrir því af hverju þú ættir að vilja hækka þína tíðni er einfaldlega svo að þú getir orðið besta útgáfan af sjálfri þér. Líðanin sem fylgir því að vera í hárri tíðni er þessi alsælu tilfinning þegar þér finnst lífið vera yndislegt og þú upplifir mikið magn af stórkostlegum tilfinningum líkt og gleði, hamingju, frelsi, æðruleysi og þér finnst allir þínir draumar vera orðnir að veruleika.

Dr.Wayne Dyer ætti að vera flestum andlega þenkjandi manneskjum kunnugur en honum var mikið í mun um að minna okkur á einfaldleika og fegurð lífsins. Í bók sinni The power of Intention fjallar hann um hvernig innra sálarlífið er endurspeglun á því hvernig þú sérð þinn ytri veruleika. Eins og franski rithöfundurinn Anaïs Nin mælti svo fallega: „Við sjáum heiminn ekki eins og hann er, heldur sjáum við hann eins og við erum“. Það er mikið til í þessu og Dr.Wayne er sammála því, hann segir að ef þú myndir vita hversu megnug/ur þú virkilega ert þá myndir þú hætta að efast um sjálfan þig og virkilega fara að njóta alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Það er nefnilega þannig að við erum þau einu sem höldum aftur af okkur sjálfum, við neitum okkur um svo ótrúlega margt gott þegar staðreyndin er sú að við eigum allt það besta skilið.

Hér að neðan fylgja 12 hagnýt ráð sem allir ættu að geta tileinkað sér til að öðlast hærri tíðni:

      1. Vertu meðvitaðari um þínar eigin hugsanir

 • Það er til vinsælt enskt orðatiltæki sem segir „hugsanir verða að hlutum “, veldu því hugsanir þínar af mikilli kostgæfni. Hver einasta hugsun hefur áhrif á lífið þitt. Þegar þú leggur þig alla/n fram við að hugsa jákvæðari hugsanir, þá verða þær lífið þitt. Þegar neikvæð hugsun full af vonleysi, gremju og ótta skýtur upp kollinum – þakkaðu henni fyrir að hafa komið upp og leyfðu henni svo að fara. Því oftar sem þú stendur sjálfan þig að því að hugsa neikvætt því líklegra er að þú getir skipt þeim út fyrir jákvæðari og með tímanum verður það þér eðlilegt að hugsa jákvæðara.
 • Ég mæli með að hafa jákvæðar staðhæfingar eða möntrur aðgengilegar og áberandi í umhverfi þínu , t.d. með því að skrifa þær á blað og setja í ramma þar sem þú sérð þær á hverjum degi, til eru alls konar skartgripir eða veggskraut sem á standa jákvæðar staðhæfingar. Þegar þú lest þessar staðhæfingar sem þú hefur sett í kringum þig, lestu þær upphátt að minnsta kosti þrisvar sinnum til að byrja með, þá er líklegra að þær breyti varanlega hugsanamynstrinu þínu.

  2. Gerðu hugleiðslu að daglegri iðkun

 • Þótt að þú hafir jafnvel bara mínútu til að vera í þögn þá er sú mínúta nýtt til góðs. Hugleiðsla er leið fyrir þig til að tengjast inn á við, við þitt æðra sjálf eða þinn æðri mátt. Þetta er tími sem þú ert að gefa sjálfri þér til að tengjast þínu innsæi. Það skiptir ekki öllu hvernig þú eyðir þessum tíma í þögn eða hversu lengi, heldur að þú gerir það einfaldlega. Með tímanum muntu líklegast finna að hugleiðslan og þögnin verður þér jafn mikilvæg og að bursta tennurnar áður en þú ferð út í daginn.

  3. Meðvitaðara mataræði

 • Þetta er svo ótrúlega mikilvægt atriði því matur hefur ákveðna tíðni og margt af því sem við borðum dags daglega hefur mjög lága tíðni og er einfaldlega að gera okkur veik og dofin. Ef það er eitthvað atriði sem best er að byrja á til að hækka tíðnina, þá er það með því að taka mataræðið algjörlega í gegn. Lífrænir ávextir, grænmeti, hnetur, ólífuolía eru allt fæða sem er með háa tíðni. Matur sem fullur er af hvítum sykri, hveiti og mjólkurvörum er á lista yfir lága tíðni.
 • Ég mæli með bókinni hans David Wolfe: Superfoods – þar nefnir hann ofurfæðu sem hækkar tíðni og orku okkar. Auðvitað erum við öll misjöfn og matur fer misjafnlega vel í okkur, því er alltaf besta mælitækið hvernig okkur líður eftir máltíð. Vertu meðvituð/aður um hvernig orkan þín er sirka tveimur klukkustundum eftir að þú hefur borðað matinn.

  4. Dragðu virkilega úr eða stöðvaðu neyslu vímugjafa

 • Áfengi og öll vímuefni eru með lága tíðni. Fyrir utan sjálfa vímugjafana þá hefur fólkið sem þú stundar þessa vímugjafa með lága tíðni að auki. Það getur virst aðlaðandi í fyrstu að vera hluti af þessum félagsskap, þú getur jafnvel upplifað snerpu af andlegri vakningu í byrjun og þér fundist tíðni þín hækka til muna en hún er skammvinn og áhrifin eftir á draga þig inn í enn lægri tíðni sem erfitt er að rífa sig upp úr.

  5. Vertu meðvituð/aður hvað tónlistin er að segja þér

 • Textar sem uppfullir eru af: hatri, sársauka, ofbeldi, dramatík og ótta eru að senda undirmeðvitund þinni ákveðin skilaboð. Ef þú vilt laða að þér meiri ást og kærleika, hlustaðu þá á lög sem fjalla um raunverulegan kærleika og ást. Ef þú vilt meiri frið og slökun, hlustaðu þá meira á lög sem fjalla um frið og slökun. Allt hefur áhrif á tíðnina okkar, hvort sem þú sért meðvituð/aður um það eða ekki. Tónlist er engin undanskylda þar, ef eitthvað er hreyfir hún hvað mest við okkur.

  6. Þitt nánasta umhverfi: heimilið skiptir miklu máli

 • Við eyðum miklum tíma heima hjá okkur og því hefur það mikið að segja um tíðnina okkar. Hvernig eyðir þú tímanum heima við? Bænir, málverk, ljósmyndir, kristalar, styttur, steinar, möntrur, bækur, tímarit, blóm, plöntur, litirnir á veggjunum og meira að segja hvernig húsgögnunum er raðað skapar allt orku og tíðni. Ég mæli með að þú kynnir þér feng shui.

  7. Dragðu úr sjónvarpsáhorfi sem er með lága tíðni

 • Margir sjónvarpsþættir og kvikmyndir sem eru fullir af dramatík setja allan sinn fókus á hversu ljótur og ömurlegur heimurinn er. Þetta er stöðugt streymi af neikvæðri tíðni og ekki nóg með það heldur eru auglýsingarnar sem fylgja þessum sjónvarpstöðvum fulllar af skilaboðum um hvað það er sem þú þarft að kaupa til að laga vandamál þín og bæta líf þitt.

  8. Veldu fólkið sem þú umgengst af mikilli kostgæfni og varkárni

 • Fólkið sem þú umgengst mest, þeirra orka og tíðni hefur mikil áhrif á þína eigin tíðni og orku. Veldu fólkið í kringum þig af mikilli varkárni og skynsemi, einbeittu þér að þeim sem láta þér líða vel og að samskiptin séu nærandi og upplífgandi.

  9. Stundaðu skilyrðislaus góðverk, þar sem þú býst ekki við neinu í staðinn

 • Láttu gott af þér leiða til ókunnugra. Gefðu peninga og tíma til þeirra sem eru jafnvel ekki jafn gæfusamir og þú sjálf/ur. Eru einhver samtök sem þú hefur mikla trú á? Gefðu örlitla upphæð til þeirra. Kannski getur þú borgað í stöðumælinn fyrir samferðamann? Sent hugulsama gjöf til einhvers sem þú hefur ekki talað við í langan tíma, gefið föt sem þú notar ekki lengur, tekið upp rusl af götunni og hent því í nærliggjandi ruslafötu. Ekki gera þessi tilviljunarkennd góðverk með þeirri trú að einhver þakki þér fyrir, gerðu það vegna kærleikans sem býr í hjarta þínu og fyrir bættu samfélagi.

  10. Stundaðu samkennd og fyrirgefningu

 • Að finna til samkenndar og mögulegrar fyrirgefningar í garð einhvers sem særði þig djúpt getur verið það erfiðasta sem við gerum, en það er á sama tíma það allra mikilvægasta. Hugsanir tengdar hefnd eru með lága tíðni á meðan hugsanir tengdar fyrirgefningu eru með háa tíðni. Einungis með því að velta fyrir sér að fyrirgefa einhverjum hækkar tíðni þína.

  11. Að stunda kynlíf

 • Það er fátt sem hækkar tíðnina jafn mikið og að stunda kynlíf. Með því að beina skynjun þinni að sjálfri/um þér og eða að félaga þínum þá ertu að endurnýja orku þína í stað þess að tæma hana út á við. Segja má að önnur orkustöðin okkar séu höfuðstöðvar tilfinninga, unaðar, nándar og tengingar við aðra og sjálfan sig. Hún er nátengd sköpunarkraftinum og þegar hún er ekki í jafnvægi þá er hún líklegast stífluð vegna sektarkenndar og skammar. Ég mæli með heilunaræfingum sem fela í sér að sleppa tökum á sektarkennd og skömm og fókusera á ást og unað. Í hvert sinn sem það kemur upp skömm að sleppa tökum á henni og samþykkja sjálfan sig með ást og kærleika. Við skulum muna að okkur var gefið kynlífið til að njóta og það er ekkert til að skammast sín fyrir þar. Á meðan þú ert samkvæm/ur sjálfum þér og heiðarleg/ur þá getur þetta verið ein besta og árangursríkasta leiðin til að hækka tíðnina þína.

  12. Dansaðu, syngdu og hreyfðu þig

 • Að syngja, dansa og stunda einhvers konar hreyfingu hækkar alltaf tíðnina okkar. Þá kemur hreyfingu á blóðflæðið og súrefni til allra vöðva, það hefur nauðsynleg áhrif á stíflaða orku. Það ráð sem var dýrmætast fyrir mig eftir krefjandi námskeið hjá Tony Robbins var hvernig hann notar tónlist til að hækka orkuna sína. Hann á lítið trampolín sem hann notar óspart þegar hann á lausan tíma til að koma á blóðflæði líkamans, litlar hreyfingar sem virkja sogæðakerfið, svo notar hann tónlist með hárri tíðni og hann byrjar alla morgna á því að hoppa og dansa í takt við tónlistina. Þetta er ein besta leiðin til að rífa sig upp úr þungri og lágri orku, þú þarft ekki einu sinni að trúa því að þetta virki, bara prófa, eiginlega bara “fake it till you make it”.

Heimildir:
http://www.mindbodygreen.com/0-7823/10-practical-ways-to-raise-your-positive-vibrations.html
http://howtoraiseyourvibration.blogspot.is/2012/02/spirituality-sexuality-and-chakra.html