Að byrja upp á nýtt

Það sem lífið getur verið merkilegt. Við stöndum stöðugt frammi fyrir því að byrja upp á nýtt. Núllstillast. Anda djúpan, þungan andardrátt að okkur og sleppa síðan tökum á því sem hefur verið að íþyngja okkur.

Mig langar að staldra við í augnablik og meta þessar endurfæðingar okkar og oftar en ekki þessa litlu sigra sem láta okkur á endanum standa uppi sem sigurvegara.

Öll augnablik lífsins, góð jafnt sem slæm eru partur af heildinni og móta okkur að þeim manneskjum sem við erum og persónunum sem við munum vera í framtíðinni. Þegar svartnættið virðist engan endi ætla að taka þá kemur alltaf óvænt ljóstýra sem leiðir okkur áfram í átt að bjartari dögum.

Þessir töfrar geta verið yogaiðkun, hugleiðsla, tónlist, samverustund með manneskjum sem næra þig með uppbyggjandi hugleiðingum eða jafnvel augnablik þar sem þú finnur einfaldlega fyrir því hversu magnað lífið er.

Hugarfarið skiptir svo miklu máli. Það eru töfrar allt í kringum okkur og það eina sem við þurfum að gera er að opna huga og hjarta og leyfa töfrunum að koma með allan sinn mátt og heila okkur að nýju eins og þegar sólin hækkar á lofti og fyllir hverja einustu lífveru af orku og birtu. Leyfðu neikvæðum hugsunum að koma upp en leyfðu þeim jafnóðum að fara. Ekki leyfa þeim að taka bólfestu í huga þínum og hvað þá að dvelja þar frítt!

Byrjaðu hvern dag með þakklæti í hjarta, þakklæti fyrir öllum töfrandi stundunum og þakklæti fyrir öllum erfiðu stundunum því án þeirra kynnum við ekki að meta allt það góða. Hver einasti dagur er nýtt upphaf með óteljandi tækifærum til að byrja að nýju. Jákvæðni flytur fjöll og það að þjálfa hugann í að hugsa í lausnum, hjálpar okkur þegar við þurfum að takast á við erfiðleika. Í miðju sálar þinnar býr svarið við öllu sem þú þarft að vita.

Ef ég þarf að “tengja” eins og ég kalla það. Ná að fara innávið, í miðju hringiðu þess sem veldur mér hugarangri, þá leggst ég á yogadýnuna mína eða uppí rúmið mitt, legg vinstri hönd á hjartað og hægri hönd á kvið og legg olnboganna slaka niður. Ég loka augunum, anda það djúpt að mér að ég ýti naflanum upp í loft og þegar ég anda frá mér þá dæsi ég vel og reyni að tæma lungun. Síðan hlusta ég. Ég finn hjartað slá, ég finn kviðinn lyftast upp þegar ég anda að mér og ég finn hann lækka þegar ég anda frá mér. Ég leyfi öllum tilfinningum og hugsunum að koma og ég tek fagnandi á móti þeim. Ég kveð þær einnig með þakklæti að vopni og vissu í huga að allt mun verða allt í lagi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.