4 leiðir til að njóta helgarinnar

Helgin er framundan og líklega margir sem hafa ímyndað sér að gera sem minnst og ná að hvílast vel fyrir vikuna framundan. Aðrir eru með pakkaða dagskrá frá morgni til kvölds til að nýta fríið sem best. Hvort sem er, er mikilvægt að staldra við og setja það í forgang að koma því fyrir sem gerir okkur gott og við virkilega njótum.

Hér eru nokkrar hugmyndir að dægrastyttingu fyrir einn, tvo eða alla fjölskylduna:

  1. Að vinna með höndunum, að búa eitthvað til, hefur stórkostleg áhrif á sálartetrið. Helgarfríið er tilvalin tími til þess að gefa sér tíma í að vanda sig við eitthvað, hvort sem það er einhvers konar föndur, endurnýting að einhverju tagi eða það eitt að búa til heilsusamlega máltíð frá grunni. Eina sem þarf er viljinn til að prufa eittvað nýtt og helst að það sé örlítil áskorun í því falin. Á pinterestinu okkar er að finna margar af hugmyndum af mat og föndri!
  1. Farðu nýjar leiðir. Við búum í ótrúlegri náttúruparadís sem ferðamenn borga stórar upphæðir til að heimsækja svo að það er um að gera að nýta þennan fallega bakgarð sem við eigum og fara í könnunarleiðangur. Farðu í bíltúr (eða taktu strætó!) á stað sem þú hefur ekki heimsótt áður og farðu einhverja af hinum mörgu gönguleiðum sem finna má á höfuðborgarsvæði og nágrenni. Taktu þér tíma til þess að njóta náttúrufegurðinnar og mundu eftir myndavélinni!
  2. Öðruvísi skemmtun í 101. Það er alltaf er nóg að gerast í fallega miðbænum okkar ef við nennum að leita það uppi. Um helgina er til dæmis „Book swap“ markaður á  Loft Hostel í Bankastræti. Þar er hægt að fara með rykugar bækur sem þú vilt losa þig við og skipta þeim út fyrir aðrar. Einnig er náttúrutengd sýning á Kjarvalsstöðum sem sýnir verk Hildar Ásgeirsdóttur Jónsson hefur í rúm 15 ár sameinað málaralist og vefnað með því að búa til málverk ofin úr handlituðum silkiþráðum. Hún sækir efnivið sinn í íslenskt landslag og hefur t.d. búið til myndraðir um Vatnajökul og Heklu. Miklatún þar á bakvið Kjarvalsstaði er einnig tilvalið til þess að fara í leiki með börnunum eða búa til snjókarl. Fleiri hugmyndir að afþreyingu í 101 má sjá á HandPicked Reykjavík kortinu.
  3. Búðu til sunnudagshefð. Þó að það sé hollt að prufa nýja hluti og fara út úr kassanum þá erum við líka rútínu dýr og hefðir gefa fastan punkt í tilveruna sem er hægt að hlakka til í hverri viku. Hvort sem hefðin felst í  „brunch“ með vinum og vandamönnum, fjölskyldugöngu, rólegri testund með bók í hendi eða heimsókn til foreldra þá ætti hefðin að vera eitthvað sem þú virkilega nýtur og hefur gaman af.

Góða helgi!

Tögg úr greininni
, ,