Fjögur hjálpleg öpp sem bæta afköst og skipulag

1. HUGLEITT Í HÁDEGINU

Headspace er þægilegt smáforrit sem hjálpar þér að hugleiða og fræðir þig um ávinninginn sem hlýst af því í leiðinni. Hægt er að velja stuttar hugleiðslur sem hjálpa þér að minnka stress, kvíða og auka einbeitingu. Væri ekki upplagt að búa til „ekki trufla“ merki og setja á hurðina á meðan þú endurnærir þig í 5-10 mínútur.

 

2. EKKI GLEYMA VATNINU

Waterminder hjálpar þér að fylgjast með hvað þú drekkur mikið vatn yfir daginn og minnir þig jafnframt á að drekka það. Það er því eins gott að finna strax fallegan vatnsbrúsa og skella á skrifborðið. Vatnsdrykkja er gríðarlega mikilvæg og getur aukið orkuna og komið í veg fyrir einbeitingarskort og höfuðverk.

3. LISTAR Á EINUM STAÐ

Any er fyrir þá sem vilja halda utan um verkefni, lista og áminningar og hafa allt á einum stað. Þú kannast eflaust við langa lista yfir verkefni dagsins, vikunnar eða mánaðarins, sem eru hingað og þangað, og nú getur sami verkefnalistinn verið í símanum, tölvunni og snjallúrinu. Svo fylgist þú með árangrinum og færð áminningar, svo ekkert gleymist. Trello er einnig svipað app.

 

4. HÖLDUM EINBEITINGU

Focus er með lausnina ef þú átt erfitt með að halda einbeitingu á tímum endalausra truflana frá samfélagsmiðlum. Í appinu getur þú sett upp verkefnalista, ákveðið hversu miklum tíma eigi að verja í hvert og eitt þeirra og það hjálpar þér líka að halda áætlun. Þá er mælt með fimm mínútna pásu á 25 mínútna fresti til þess að halda einbeitingunni.

Þessi grein birtist í vetrarblaði Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR 2018-2019

HÉR ER HÆGT AÐ GERAST ÁSKRIFANDI AÐ Í BOÐI  NÁTTÚRUNNAR