5 ráð gegn streitu

Streita vegna vinnuálags hefur aukist töluvert síðustu ár. En vissir þú að konur eru næmari fyrir áhrifum streitu en karlar?

Streita er orðin mun algengari meðal kvenna og sýna nýjustu rannsóknir í Svíþjóð að fleiri konur hafa þurft að taka leyfi frá vinnu vegna langvarandi streitu.
Mig hefur lengi langað að skrifa um þetta málefni, enda þekki ég þá baráttu að finna jafnvægið á milli heilsunar, fjölskyldu og vinnu. Þrátt fyrir að streita hafi áhrif á bæði kynin hafa rannsóknir sýnt fram á að það sé talverður munur á áhrifunum sem streita hefur á heilsu kvenna og karla. Karlmenn eru til dæmis yfirleitt ólíklegri til þess að sjá streitu sem ógn gagnvart líkamlegri og andlegri heilsu.

Konur eru næmari fyrir áhrifum streitu, ekki eingöngu hvað varðar andlega heilsu þeirra heldur einnig líkamlega heilsu þeirra. Langvarandi streita getur því verið mikil ógn við heilsu kvenna og aukið hættuna á að þær brenni út í starfi.

Fimm ráð til að halda streitu í skefjum

Að hlúa að þér þarf ekki að vera flókið eða tímafrekt og er eitthvað sem við ættum öll að setja okkur markmið að gera.

1. Gefðu þér fimm mínútur daglega

Gefðu þér tíma daglega til að anda og huga að þér. Þetta getur verið stund þar sem þú einfaldlega stoppar í amstri dagsins, andar djúpt og slakar á. Einnig má þetta vera auka tími að morgni til að undirbúa morgunmat í stað þess að grípa eitthvað á hlaupum.

2. Hreyfing

Hreyfing hefur gríðarlega góð áhrif á streitulosun sem og einbeitingu og orku. Reyndu þitt besta að slökkva á símanum á meðan til að ná þannig að loka á allt óþarfa áreiti á meðan æfingin á sér stað.

3. Takmarkaðu raftæki

Langtíma svefnleysi getur haft slæm áhrif á heilsuna og afkastagetu. Ljósin frá raftækjum eins og símum og tölvuskjá geta truflað hvíldarhormón líkamans og góð regla að er að takmarka raftæki alveg tveimur klukkustundum fyrir háttinn. Lestu heldur góða bók og reyndu að ná sjö til átta klukkustunda svefni á hverri nóttu.

4. Hittu vini

Það er fátt jafn nærandi fyrir sálina eins og að eyða tíma með uppáhaldsfólkinu sínu. Þó það sé ekki nema stutt spjall yfir kaffibolla.

5. Iðkaðu þakklæti

Þakklæti hefur lækningarmátt og getur snúið streitu yfir í jákvæðni. Næst þegar streita kemur upp prófaðu að horfa á það sem þú ert þakklát fyrir í lífinu. Með þakklæti erum við jafnframt líklegri að takast betur á við vandann en áður.

Að keyra okkur út mætti einfaldlega líkja við að keyra bíl á tómum tanki. Líkaminn mun þurfa að stoppa á einhverjum tímapunkti og þá sitjum við eftir strand. Ég vona því að greinin komi sem áminning um að hlúa að þér og skapa jafnvægi í dagsins amstri,  með slíku er jafnframt hægt að bæta afköst og auka almennt lífsgleði.

Varanlegar lífsstílsbreytingar er áhrifaríkasta leiðin ekki eingöngu náttúrulegu þyngdartapi heldur einnig bættri vellíðan og minni verkjum, meiri orku, bættum svefn, fallegri húð og allsherjar ljóma!

Hugum vel að heilsunni, hún er það mikilvægasta sem við eigum.

Heilsa og hamingja,

Júlía Heilsumarkþjálfi

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.