Einstakar gönguleiðir
Þar má meðal annars nefna litadýrðina í Landmannalaugum og hverina í Hrafntinnuskeri, þar sem svartur sandurinn og gljáandi hrafntinnan skapa einstaka sjónræna upplifun. Jöklasýnin þegar komið er upp á brún Jökultungna er óviðjafnanleg og útsýnið yfir Álftavatn og jöklanna er engu líkt. Þetta er meðal annars það sem gerir Laugaveginn að svo einstakri gönguleið á heimsmælikvarða. Erlendir ferðamenn vilja gista í sem flestum skálum til að geta tekið því rólega og skoðað landið í kring. Þá gista þeir í Landmannalaugum, Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Emstrum og Þórsmörk.
Þetta eru fjórir til sex dagar en þá hafa fæstir fengið nóg svo þeir halda oftar en ekki áfram yfir Fimmvörðuháls niður í Skóga og gista þá í Baldvinsskála. Íslendingar fara hraðar yfir og taka þetta oft á tveimur eða þremur dögum, gista í Hvanngili og svo í Þórsmörk. En það má vissulega mæla með því að taka sér tíma því við hvern skála fyrir sig er eitthvað einstakt, og alltaf hægt að fara í kvöldgöngur og skoða sig um. Í Emstrum er til dæmis hægt að fara að Markarfljótsgljúfrinu og gleyma sér í klukkutíma við fegurðina þar. Þess má geta að í Árbók Ferðafélagsins 2021 er fjallað um Laugaveginn og Fimmvörðuháls og er hún eftir fráfarandi forseta Ferðafélagsins Ólaf Örn Haraldsson.