Gönguferðir Ferðafélag Íslands

FERÐAFÉLAG ÍSLANDS + LIFUM BETUR

Vinsælustu gönguleiðir Ferðafélags Íslands eru göngur um Laugaveginn og nágrenni ásamt Hornströndum. Vinsældir Laugavegarins skýrast af því hversu ótrúlega fallegt og fjölbreytt landslagið er og á hverjum degi ber nýja fegurð fyrir augu. 

Einstakar gönguleiðir

Þar má meðal annars nefna litadýrðina í Landmannalaugum og hverina í Hrafntinnuskeri, þar sem svartur  sandurinn og gljáandi hrafntinnan skapa einstaka sjónræna upplifun. Jöklasýnin þegar komið er upp á brún Jökultungna er óviðjafnanleg  og útsýnið yfir Álftavatn og jöklanna er engu líkt. Þetta er meðal annars það sem gerir Laugaveginn að svo einstakri gönguleið á heimsmælikvarða. Erlendir ferðamenn vilja gista í sem flestum skálum til að geta tekið því rólega og skoðað landið í kring. Þá gista þeir í Landmannalaugum, Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Emstrum og Þórsmörk.

Þetta eru fjórir til  sex  dagar en þá hafa fæstir fengið nóg svo þeir halda oftar en ekki áfram yfir Fimmvörðuháls niður í Skóga og gista þá í Baldvinsskála.  Íslendingar fara hraðar yfir og taka þetta oft á tveimur eða þremur dögum, gista í Hvanngili og svo í Þórsmörk. En það má vissulega mæla með því að taka sér tíma því við hvern skála fyrir sig er eitthvað einstakt, og alltaf hægt að fara í kvöldgöngur og skoða sig um. Í Emstrum er til dæmis hægt að fara að Markarfljótsgljúfrinu og gleyma sér í klukkutíma við fegurðina þar. Þess má geta að í Árbók Ferðafélagsins 2021 er fjallað um Laugaveginn og Fimmvörðuháls og er hún eftir fráfarandi forseta Ferðafélagsins Ólaf Örn Haraldsson.

Vinsælar dagsferðir

Ferðirnar á Hornstrandir hafa einnig verið mjög vinsælar og þar hefur verið bætt við ferðum, til dæmis í Reykjafjörð á Ströndum og Sæból,  Aðalvík og til Hesteyrar.  Einnig má nefna bækistöðvaferð í Hlöðuvík, þar blasir við  fjallið Ásfell, sem mörgum finnst eitt fegursta fjall á Hornströndum.

Einnig er boðið upp á  dagsferðir við allra hæfi, til að mynda skógargöngur í Heiðmörk þriðja fimmtudag hvers mánaðar í júlí, ágúst og september og ferðir sem bera heiti eins og „Sumarnætur á Þyril í Hvalfirði“, „Upplifðu Þórsmörkina með eldri og heldri“ auk þess sem hægt er að feta „Í fótspor Konrads Maurers í september“.

Bráðnun jökla skoðað

Þá má nefna göngur í umhverfi Hagavatns og Hagafellsjökuls með Jöklarannsóknafélaginu þar sem hugað verður að bráðnun jökla. Þar er fararstjórinn Einar Ragnarsson en hann hefur mælt jökulinn í meira en áratug og hversu mikið hann hefur hopað.

Boðið er upp á skemmtilegar tjaldferðir, til dæmis inn í Núpsstaðaskóg til að  skoða þær náttúruperlur sem þar er að finna. Eitt af best geymdu leyndarmálum í náttúru Íslands er hin stórkostlega fossasinfónía í botni Djúpárdals í Fljótshverfi, ótrúlega fallegt svæði sem fáir vita af.

Af ofangreindu má sjá að Ferðafélag Íslands leggur metnað í að höfða til allra aldurshópa og getustiga og býður upp á rútuferðir, tjaldferðir, skálaferðir, hótelferðir, hjólaferðir, hlaupaferðir og skíðaferðir, bæði langar og stuttar. Þá má líka nefna Ferðafélag barnanna og Ferðafélag unga fólksins. Ferðafélag Íslands er ferðafélag allra Íslendinga. 

Þessi grein er úr sumarblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2021