7 leiðir til betri samskipta

Hefur þú hrósað einhverjum eða sagt eitthvað fallegt við einhvern í dag? Ef ekki, gerðu það og sjáðu hvað gerist.

 

TEXTI Þórunn Júlíusdóttir

Í bókinni How full is your Bucket? eftir Tom Rath og Ph. D. Donald O. Clifton (2004) er andlegu ástandi okkar líkt við fötu sem er full þegar okkur líður vel og erum full af orku og jákvæðni en tóm þegar við erum gersamlega búin og/eða neikvæð. Það veltur á eðli samskipta okkar við samferðamenn okkar og líðan okkar í framhaldi hversu mikið eða lítið er í fötunni okkar.

Þegar við segjum eða gerum eitthvað jákvætt og uppbyggilegt gagnvart öðrum þá erum við að bæta í fötu þeirra en einnig í okkar eigin fötu. Því er ávinningurinn gagnkvæmur. Við neikvæð samskipti tæmist smátt og smátt úr fötunni okkar og þeirrra sem við eigum í neikvæðum samskiptum við og því ekki skrýtið ef fólki líður illa. Líf okkar snýst nefnilega um samskipti og gæði þeirra.

Jákvæð sálfræði er ekki ný af nálinni en augu fólks eru í æ ríkari mæli að beinast að gæðum samskipta og að því hvað einkennir hamingjusamt fólk. Við getum gert margt jákvætt í samskiptum. Fyrir þá sem vilja æfa sig og telja sig geta bætt sig smávegis, þá eru hér nokkrar æfingar og áskoranir:

  1. Heilsaðu fólki að fyrra bragði; fólki sem þú hefur hingað til litið fram hjá án þess að hugsa um það. Það getur verið hver sem verður á vegi þínum, nágranni, fólk á biðstofum eða bara gamall maður á leið yfir götu um leið og þú. Það er svo skemmtilegt að kynnast fólki á óhefðbundinn hátt. Fólk er margt svo spennandi og kemur sífellt á óvart.
  2. Hugsaðu um það sem þú segir hverju sinni; eru orð mín jákvæð eða neikvæð? Af hverju segi ég þetta en ekki annað við Hönnu eða Leif? Stundum þarf maður að breyta ,,orðavenjum” sínum. Ef þú rýnir í þinn daglega orðaforða þá inniheldur hann kannski of mörg neikvæð orð og til hvers eru þau brúkleg? Spáðu aðeins í það. Og hugsanir okkar móta orðin, ekki satt?
  3. Líttu á þig sem virkan þátttakanda en ekki hlutlausan aðila í umhverfinu. Þetta hefur líka með sjálfsálit okkar að gera og þá staðreynd að öll höfum við áhrif hvort á annað. Og orð okkar hafa áhrif.
  4. Æfðu þig í að skoða fólkið í kringum þig hvort sem það eru fjölskyldumeðlimir, vinir eða vinnufélagar. Velta fyrir þér hvernig þeim líður og reyna að lesa í hegðun þeirra. Líður Magga litla vel í dag? Er eitthvað sem ég get gert? Af hverju var Atli vinnufélagi svona dapur í morgunkaffinu? Gunna kemur úrill úr vinnunni; af hverju?
  5. Leggðu þig fram við að segja við samferðafólk þitt ef það gerir vel, hrósaðu. Ef einhver hefur unnið vel eða gert góðan hlut, segðu skoðun þína. Jafnvel yfir vinnuhópinn í morgunkaffinu eða við kvöldverðarborðið. Þeir félagar Tom og Donald segja í bókinni að mun færri en við teljum er hrósað á vinnustað fyrir gott verk. Og í fjölskyldum og vinahópum ef því er að skipta. En ef eitthvað neikvætt á sér stað stendur ekki á aðfinnslum.
  6. Gaman er að finna og virkja styrkleika fólks, finna út hver er bestur í þessu eða hinu og fá viðkomandi til að nota þessa hæfileika og blómstra. Prófaðu að vinna í þessu, líka gagnvart þér og fjölskyldunni.
  7. Brostu.

Hamingjusamir einstaklingar gleðjast með öðrum, einblína á það góða og það sem virkilega skiptir máli. Þeir ná að lyfta öðrum upp og draga fram það besta.

Tögg úr greininni
, , ,