Vinna og vellíðan

Góð ráð til að auka vellíðan, bæta afköst og ekki síst gleðina í vinnunni.

  • Fegraðu umhverfið: Skapaðu persónulegt og fallegt umhverfi. Skreyttu skrifborðið eða skrifstofuna, t.d. með myndum af ástvinum, plöntum og jafnvel huggulegum lampa eða öðrum hlutum sem gleðja þig.
  • Góðir vinir eru gulls ígildi: Ef þú átt góðan vin eða vini í vinnunni getur það ýtt undir betri frammistöðu og meiri gleði. Samkvæmt rannsóknum eru þeir einstaklingar jákvæðari gagnvart starfi sínu og finnst það skemmtilegra, mikilvægara og meira fullnægjandi en þeir sem eiga ekki góða vini.
  • Stund á milli stríða: Taktu stutt hlé á milli verkefna, eða a.m.k á klukkutíma fresti. Stattu upp, hreyfðu þig og fáðu þér jafnvel vatnsglas eða andaðu djúpt að þér og teygðu úr þér. Það mun hafa góð áhrif á framleiðni, streitu, hugmyndaauðgi og auðvitað skapið. Einnig er mikilvægt að fólk fái góð frí reglulega yfir árið til þess að hlaða batteríin.
  • Vertu vel nærð/ur: Ef þú borðar næringarríkan mat ásamt því að drekka nóg af vatni yfir daginn hefur það góð áhrif á starfsorku, einbeitingu og andlega líðan. Til að halda blóðsykrinum í jafnvægi skaltu hafa skyndibita og sætindi í lágmarki og hafðu möndlur og annað hollt nasl við höndina ef maginn kallar.
  • Burt með draslið: Þegar þú kemur að borðinu þínu hreinu og skipulögðu líður þér betur við vinnuna og áreiti og óreiða minnkar. Óskipulagt vinnuumhverfi getur valdið óþarfa streitu og tímaeyðslu sem fer í að finna skjöl og aðra hluti.
  • Réttu úr þér: Situr þú á góðum stól sem veitir réttan stuðning og er í réttri hæð miðað við skrifborð eða aðra vinnuaðstöðu? Ýmislegt annað en hefðbundinn stóll er í boði í dag, eins og t.d. bolti, kollur eða hækkanleg borð, sem þú getur staðið við og hefur góð áhrif á bakið og stoðkerfið.
  • Þú átt það skilið: Ekki bíða eftir að aðrir klappi þér á bakið. Þú átt skilið að verðlauna þig fyrir vel unnið verkefni eða áfanga, hvort sem það er með blómum, góðu súkkulaði eða skála í kampavíni við góðan vin. Þér mun líða betur ef þú kannt að meta þig og þín verkefni.
  • Væntingar til þín: Það að vita nákvæmlega hvað er ætlast til af þér gerir þig öruggari í vinnunni, eykur afköst og ýtir undir ánægju og sjálfstraust. Vinnustaðir eiga flestir að hafa skipurit og starfslýsingar uppi við auk þess að haldnir séu reglulega starfsmannafundir þar sem hægt er að ræða þessa hluti.
  • Sérðu tilganginn? Ertu á vinnustað þar sem kröfurnar eru á pari við hæfileika þína og áhuga? Ef svo er, þá eru mun meiri líkur á að þú njótir þín og skilir góðu verki. Einnig er gott að sjá tilgang vinnu sinnar, og svo er ekki verra ef stjórnendur kunna að veita viðurkenningu fyrir vel unnin störf.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.