Skrautlegt skipulag Heru Lindar

TEXTI Brynhildur Björnsdóttir    VIÐTAL OG MYNDIR Guðbjörg Gissurardóttir  

Hera Lind Birgisdóttir er 19 ára Reykjavíkurmær, nýútskrifuð úr menntaskóla. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún komið miklu í verk enda einstaklega skipulögð. Hún heldur utan um líf sitt og markmið ásamt því að rækta andlegan þroska með margvíslegum dagbókum, sem hún hefur skrifað í síðan hún var lítil. Henni finnst hún koma mun meiru í verk ef hún skipuleggur sig en aðallega finnst henni þetta svo skemmtilegt. Hera Lind stefnir á nám í grafískri hönnun, enda finnst henni fátt meira gefandi en að hanna sínar eigin dagækur og bæta líf sitt í leiðinni.

Hvenær byrjaðir þú að skrifa dagbók?

Ég hef skrifað í dagbók síðan ég var sjö ára um tilfinningar og annað persónulegt. Sumir skrifa daglega, þær heita jú DAGbækur, en mér finnst það ekki nauðsynlegt. Dagbækur eru gerðar fyrir mann sjálfan og ættu að notast eins og fólk vill, ekki af skyldurækni. Í dag skrifa ég helst niður hugleiðingar og góðar minningar. Það er svo margt sem ég upplifi sem unglingur, sem ég hef á tilfinningunni að ég eigi ekki eftir að muna þegar ég verð fullorðin, ef ég skrifa það ekki niður núna. Ég er líka með draumabók í náttborðsskúffunni, sem ég skrifa í þá drauma sem ég man og svo er ég líka með Í lok dags – bók sem ég skrifa stundum í á kvöldin til að minna mig á hvað ég hef verið dugleg um daginn. Hvort það er eitthvað sem mætti betur fara og hvað ég er þakklát fyrir.

Ef ég fer úr jafnvægi andlega eða líkamlega nota ég bækurnar til að koma mér aftur á sporið

Ég nota bækurnar í markmiðasetningu og þegar ég þarf að skerpa á hlutunum þá kíki ég í þær og hugsa, já, ég fer of seint að sofa, eða er ekki að hreyfa mig nóg eða forgangsraða vitlaust. Ef ég fer úr jafnvægi andlega eða líkamlega nota ég bækurnar til að koma mér aftur á sporið.

Hera Lind hand teiknaði vikudagatal sérstaklega fyrir lesendur Lifum betur. Til að nálgast það og prenta út ferðu https://ibn.is/vikudagatal_heru_lindar

Notarðu símann eitthvað til að skipuleggja þig?

Nei, ég er svo miklu meiri pappírsmanneskja. Stundum þegar ég fæ hugmynd þá skrifa ég það í ,,Notes“ en ástæðan er þá bara sú að ég er ekki með bók á mér. Það er miklu áþreifanlegra að skrifa hluti niður. Ég finn fyrir bókinni í töskunni og það fer fyrir henni, eins og það fer fyrir lífinu. Mér finnst líklegra að ég framkvæmi það sem ég skrifa niður á pappír. Ég fer í símann þegar ég vil kúpla mig út og þá finnst mér ekki passa að hafa það sem heldur mér í virkni þar líka. Skipulag snýst um að bæta líf sitt og lífsstíl, ekki bara til að halda uppi einhverjum aga. Ég skrifa til að vinna í sjálfri mér, setja mér ný markmið og fylgja þeim eftir. Áður en ég fór að skipuleggja mig var ég alltaf í stressi með verkefni sem ég þurfti að skila en núna er ég minna stressuð og sé heildarmyndina betur. Þetta er eiginlega eins og tölvuleikur fyrir mér. Ég er alltaf að bæta mig og ég get litið til baka og séð hver markmiðin mín voru og hvar ég er núna stödd, svona á hvaða borði ég er.

Notarðu liti?

Ég notaði litakóða mikið fyrst og var mikið að pæla í litum en svo var það of flókið. Í staðinn er ég farin að nota tákn. Þríhyrningur er próf, hjartað er eitthvað sem ég vil gera, stjarnan er eitthvað sem ég hef klárað, öðruvísi stjarna er afmæli og plús er eitthvað sem er í forgangi. Mér finnst þetta betra en að nota liti. Ég er ekki alltaf með liti á mér en ég er alltaf með penna, svo þetta virkar betur.

Á hverjum einasta degi skrifa ég þrjú mikilvæg verkefni sem ég vil klára

Hvernig skipuleggur þú vikuna?

Það fer mikið eftir því hvað er mikið að gera hjá mér. Ef það er lítið að gera þá tek ég góða tvo klukkutíma á sunnudagskvöldum til að hanna vikuplanið og setja markmið fyrir vikuna, fjölskyldumarkmið, mín eigin markmið og eitthvað í þá áttina. Á hverjum einasta degi skrifa ég þrjú mikilvæg verkefni sem ég vil klára. Ég klára þau yfirleitt áður en ég geri það sem mig langar að gera og þá er ég bara miklu skipulagðari og kemst yfir það sem ég ætla mér.

Hannar þú dagbækurnar þínar sjálf?

Ef ég sé fram á að það verði mikið að gera á önninni þá er ég með tilbúna skipulagsbók en það er skemmtilegra þegar ég hanna bókina sjálf. Þá eyði ég miklum tíma í að hanna vikuna á opnu í bókinni og geri aldrei alveg sömu teikninguna. Þetta er áhugamál mitt. Ég er í Facebook-grúppu sem heitir Journal Fanatics og þar fylgist ég með öðru fólki sem hefur það líka að áhugamáli að teikna sínar eigin dagbækur. Ég hef hugsað mér að sækja um í grafískri hönnun og ætla að leggja bækurnar mínar fram með umsókninni.