Hvenær byrjaðir þú að skrifa dagbók?
Ég hef skrifað í dagbók síðan ég var sjö ára um tilfinningar og annað persónulegt. Sumir skrifa daglega, þær heita jú DAGbækur, en mér finnst það ekki nauðsynlegt. Dagbækur eru gerðar fyrir mann sjálfan og ættu að notast eins og fólk vill, ekki af skyldurækni. Í dag skrifa ég helst niður hugleiðingar og góðar minningar. Það er svo margt sem ég upplifi sem unglingur, sem ég hef á tilfinningunni að ég eigi ekki eftir að muna þegar ég verð fullorðin, ef ég skrifa það ekki niður núna. Ég er líka með draumabók í náttborðsskúffunni, sem ég skrifa í þá drauma sem ég man og svo er ég líka með Í lok dags – bók sem ég skrifa stundum í á kvöldin til að minna mig á hvað ég hef verið dugleg um daginn. Hvort það er eitthvað sem mætti betur fara og hvað ég er þakklát fyrir.
Ef ég fer úr jafnvægi andlega eða líkamlega nota ég bækurnar til að koma mér aftur á sporið
Ég nota bækurnar í markmiðasetningu og þegar ég þarf að skerpa á hlutunum þá kíki ég í þær og hugsa, já, ég fer of seint að sofa, eða er ekki að hreyfa mig nóg eða forgangsraða vitlaust. Ef ég fer úr jafnvægi andlega eða líkamlega nota ég bækurnar til að koma mér aftur á sporið.