Gulrótarnammi

Haustið er uppáhalds árstíminn minn. Ég elska þó allar árstíðir (ég elska meira að segja brjálað veður í janúar – alveg satt) en það er eitthvað sem er svo sérlega sjarmerandi við haustin: Svala loftið, rökkrið, litirnir… og svo auðvitað uppskeran.

Þegar maður er garðyrkjubóndi þá eru mestu annirnar á vorin og haustin. Undanfarnar vikur erum við pabbi búin að vera að taka upp rófur og skera niður rófufræið í gróðurhúsunum. Fyrir þá sem ekki vita þá ræktum við bæði rófur og rófufræ.

12011344_10152705653622609_3389603779105559787_n

Sökum anna hefur ekki verið mikill tími til að tilraunast í eldhúsinu. En ef það er vilji þá er leið! Og í gærmorgun fann ég tíma til að búa til þetta guðdómlega gulrótarnammi.

Ég vildi gera uppskrift sem kallaði ekki á einhver brjáluð tól og tæki. Að þeir sem ættu enga matvinnsluvél og engan blandara gætu búið til þetta nammi. Og það tókst!

Innblásturinn að þessu gulrótarnammi er fenginn frá uppskrift sem ég fann á heimasíðu dr. Mark Hyman, en hann er einn af þessum mönnum sem ég tek mikið mark á. Á endanum breytti ég uppskriftinni það mikið að úr varð glæný uppskrift – og alveg meiriháttar góð.

Gulrótarnammi

Hráefni:

 • Tæplega 1 bolli af pekanhnetum (lagðar í bleyti yfir nótt)
 • Sirka ¼ bolli af valhnetum (lagðar í bleyti yfir nótt)
 • ½ bolli döðlur
 • ½ bolli þurrkuð trönuber*
 • 5 stk litlar gulrætur
 • 1 tsk alvöru lífræn vanilla (duft ekki dropar)
 • 2 tsk kanill
 • ½ tsk múskat
 • ½ tsk fínrifið engifer
 • Smá sjávarsalt
 • 1/3 bolli kókosmjöl
 • 1/3 bolli kókosolía, við stofuhita
 • 4 msk mjúkt möndlusmjör

* Ég mæli með þessum trönuberjum hér. Þau eru mjúk og bragðgóð en eins og með gojiberin þá getur áferðin og bragðið verðið æði misjafnt eftir framleiðendum.

tronuber

Aðferð:

 1. Skolið hneturnar og þerrið (ég leyfði þeim að vera á eldhúspappír í sólarljósi í nokkrar klst – en það er ekki nauðsynlegt).
 2. Saxið hneturnar smátt niður (eða kurlið) og setjið í stóra skál.
 3. Saxið döðlurnar og trönuberin niður og setjið í skálina með hnetunum. Blandið vel saman með sleikju.
 4. Rífið niður gulræturnar og engiferið og setjið í skálina. Blandið vel saman með sleikju.
 5. Setjið vanilluna, kanilinn, múskatið, sjávarsaltið og kókosmjölið í skálina. Blandið vel saman með sleikju.
 6. Hellið kókosolíunni út í og hrærið vel saman með sleikju.
 7. Setjið möndlusmjörið í skálina og blandið vel saman með sleikju.
 8. Setjið bökunarpappír í kassalaga form. Hellið blöndunni í formið og dreifið úr. Gott að þjappa blöndunni betur niður í formið með sleikjunni eða bara gaffli.
 9. Notið hníf til að gera línur í deigið og mótið þannig stærðina sem þið viljið hafa á bitunum. Það er allt í lagi að línurnar nái ekki alveg niður – þetta er aðallega til þess að það sé auðveldara að skera nammið niður þegar það er tilbúið.
 10. Setjið formið inn í frysti og geymið í sirka klukkustund.
 11. Takið formið úr frystinum, skerið í bita, borðið og njótið!

 

gulrotarnammi2ATH. #1 Ef þið eruð búin að geyma nammið í frystinum í nokkra klukkutíma þá þarf það að fá að standa í smá stund á borðinu áður en þið borðið það. Þetta nammi er betra þegar það er ekki alveg gaddfreðið 🙂

ATH. #2 Það skiptir mjög miklu máli að þið notið mjúkt möndlusmjör annars er hætta á að það blandist deiginu ekki nógu vel.

ATH. #3 Þið megið auðvitað nota aðrar hnetur eða breyta hlutföllunum. Það er gott að miða við að hnetumagnið sé sirka 1 bolli í heildina. 

ATH. #4 Ég mæli eindregið með því að þið notið ceylon kanil frekar en venjulegan kanil (cassia) – alltaf, ekki bara í þessari uppskrift. Ceylon kanill er mun hollari og betri fyrir okkur en hann inniheldur mun minna magn af efninu coumarin. Coumarin í miklu magni og í langan tíma getur verið hættulegt heilsu manna.

Til að fræðast meira um kanil þá mæli ég með þessari grein hér.

Ást & friður

Ykkar,
J Ó H A N N A

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.