Borðað í takt við árstíðirnar

Í hröðum takti samtímans gleyma margir að velta fyrir sér gangi náttúrunnar og huga að því hvaða afurð hver árstími gefur af sér. Tækni nútímans og greiðar flutningsleiðir gera flestar tegundir ávaxta og grænmetis aðgengilegar allan ársins hring. Allar grænmetis- og ávaxtategundir eiga sér sína árstíð og á þeim tíma eru þær næringarríkari en ella. Það gefur líka auga að það sem vex í túnfætinum stendur upp úr. Það þarf heldur ekki að flytja langar leiðir og veldur þar af leiðandi minni mengun. Árstíðabundin fæða er augljóslega ferskari, næringarríkari og umhverfisvænni.

Gerðar hafa verið rannsóknir á vegum breska landbúnaðarráðuneytsins og fleiri stofnana á mjólkurvörum sem sýna að þær eru ríkari af joði yfir vetrartímann og betakarótíni á sumrin og er þetta að sjálfsögðu beintengt fóðri kúnna. Fóður þeirra er saltmeira á veturna og ferskara á sumrin. Samskonar rannsóknir hafa verið framkvæmdar í Japan sem sýna t.d. að vor/ sumar- spínatið er þrisvar sinnum C-vítamínríkara en spínat sem vex á öðrum árstímum. Þetta þýðir að ef við lærum inn á náttúrulegan uppskerutíma grænmetis og ávaxta, eins og Ayurveda og fleiri mæla með, og borðum í takt við það þá uppskerum við meiri bragðgæði og dýpri næringu.

Hér er stiklað á stóru um hvenær er best að neyta nokkurra grænmetis- og ávaxtategunda:

VORIÐ (apríl, maí, júní)

Á vorin er gott að teygja sig eftir dökkgrænu laufríku grænmeti. Má þar nefna spínat, steinselju, nýsprottin túnfífilsblöð, hvönn og basiliku ofl. Avókado, þistilhjörtu og aspas eru vorgrænmeti en þekkt er að aspasinn er mjög vatnslosandi og hjálpar okkur að hreinsa líkamann. Af ávöxtum vorsins má einnig nefna apríkósur, ananas, mangó, að ógleymdum íslenskum rabarbara. Grænar baunir ýmiskonar eins og sykur- og snjóbaunir eru ferskastar á vorin.

SUMAR (júlí, ágúst, september)

Yfir sumarið ætti fólk að neyta léttrar og kælandi fæðu, sem er einmitt það sem bæði Ayurveda og kínverska læknisfræðin boða. Hér er átt við ávexti eins og jarðaber, epli, perur, nektarínur, vatnsmelónur og plómur og íslenskt útigrænmeti s.s. spergilkál, blómkál, rauðrófur, hnúðkál, kartöflur, strandblöðku, grænkál, rófur, auk korns sem þá sprettur sem aldrei fyrr. Sumartíminn er líka náttúrulegur uppskerutími agúrka, tómata og eggaldins. Piparminta, kóríander, blóðberg og steinselja teljast til sumarkryddjurta. Og allir vita að íslenskra bláberja og krækiberja njótum við síðsumars. Þetta á líka við um hindber og nokkrar fleiri berjategundir, sem tekist hefur að rækta hér á landi með góðum árangri.

HAUSTIÐ (okt, nóv, des)

Fram eftir hausti ætti fólk að horfa til haustuppskerunnar, þ.e. borða grænmeti eins og gulrætur, sætar kartöflur, kúrbít, sveppi, grasker, nípur, radísur og ýmis konar lauk og hvítlauk en líka heitar og ferskar krydd- og lækningajurtir eins og engifer, piparávexti, sinnepslauf og fræ. Ávextir sem eru aldrei nýrri og betri en á haustin eru epli, fíkjur, vínber, granatepli og perur, svo nokkur dæmi séu tekin.

VETUR (janúar, febrúar, mars)

Yfir vetrartímann er gott að horfa til fæðutegunda sem gefa hita. Þar koma auðvitað allskyns dýraafurðir við sögu en mælt er sérstaklega með neyslu mikils rótargrænmetis ásamt korni og hnetum. En fyrir þá sem ekki vita teljast greipaldin, appelsínur, tangerínur og sítrónur til vetrarávaxta. Þegar fólk er að velja sér þessa vinsælu ávexti ætti það að huga sérstaklega að eðlisþyngd þeirra en þeim mun þyngri sem þeir eru miðað við stærð þeim mun bragðbetri eru þeir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.