Á Íslandi getur sólin verið sjaldgæf sjón en þegar hún birtist hlakkar í mér. Ég bjó í nokkurn tíma í Flórída í Bandaríkjunum og til að byrja með var ég uppnuminn af öllu sólskininu. Smátt og smátt hætti ég þó að taka eftir veðrinu, hver dagur var öðrum líkur og ég tók sólinni sem sjálfsögðum hlut.
Á Íslandi er sólin hins vegar aldrei sjálfsögð, en við búum samt við þann lúxus að geta nálgast nánast hvað sem er hvenær sem er. Það verður sífellt erfiðara að átta sig á árstíðarbundnum sveiflum í hráefnisframboði. Fersk bláber má til að mynda finna í verslunum allan ársins hring. Ef þau eru ekki íslensk þá koma þau frá Hollandi, Ítalíu, Suður-Afríku, Bandaríkjunum eða alla leið frá Síle. Það er jú alltaf berjatími einhvers staðar í heiminum.
En ef við höfum alltaf aðgang að öllu, og borðum allt sem okkur lystir, verða matarvenjur okkar þá ekki eins og veðrið í Flórída: fyrirsjáanlegt og óspennandi?
Verður einhver eftirvænting eftir berjatímabilinu á haustin ef við borðum bláber allt árið um kring? Myndum við hlakka til jólakræsinganna ef þær væru á borðum í hverri viku? Það efast ég um. En hvað er til ráða þegar skynjun okkar á árstíðarsveiflum verður brengluð?
Þar koma hefðirnar inn, sem einstaklingar, vinahópur, fjölskylda, samfélag eða þjóð sköpum við ákveðnar aðstæður í kringum mat, meðvitað eða ómeðvitað. Hefðir sem markast oft af árstíðum eða trúarbrögðum, sem skilgreina og sameina okkur. Þær gefa okkur sjálfsagann til að neita okkur um hluti og hlakka til þeirra, eins og íslensku sólarinnar á vorin. Höldum því í hefðirnar, búum til nýjar og hlökkum til þess að borða.
Höfundur: Árni Ólafur Jónsson, gestritstjóri FÆÐA/FOOD 2019-2020. Hann er mörgum að góðu kunnur fyrir sjónvarpsþættina Hið blómlega bú, sem sýndir hafa verið sýndir á Stöð 2 og fjalla að mestu um matargerð. Þættirnir eru gerðir í samvinnu við Bryndísi Geirsdóttur og Guðna Pál Sæmundsson. Nú þegar hafa verið gerðar fjórar þáttaraðir í seríunnu og eru fleiri þættir í bígerð.
Árni Ólafur lærði matreiðslu í New York við The French Culunary Institute á Manhattan, sem nú heitir The International Culunary Center.
Þessi grein birtist í tímaritinu FÆÐA/FOOD 2019-2020.
Smelltu hér til að lesa grein eftir Árna Ólaf um eldun á ferskri skötu.
2 athugasemdir