Aðalbláberjate, ærberjasnakk, rauðvínssalami og heitreyktur makríll voru á meðal þeirra matvara sem kepptu um Askinn 2019, Íslandsmeistarakeppninni í matarhandverki. Að þessu sinni voru 133 vörur skráðar til keppni og fengu valinkunnir matgæðingar það vandasama verkefni að velja sigurvegara í hverjum flokki fyrir sig. Í ár var keppt í bakstri, mjólkurvörum, kjöti og kjötvörum, fiski og sjávarfangi, berjum, ávöxtum og grænmeti og nýsköpun í matarhandverki.
HVAÐ ER MATARHANDVERK?
Matarhandverk snýst um að skapa vörur þar sem lögð er áhersla á einstakt bragð, gæði og ekki síst ímynd, sem iðnaðarvara getur ekki búið til. Nýtt er staðbundið hráefni og framleitt í litlu magni. Matarhandverk er án óþarfa aukefna og hægt er að rekja uppruna vörunnar. Aðalsmerki matarhandverks er að nota það hráefni, mannafla og verkkunnáttu sem fyrirfinnst á staðnum, í gegnum alla framleiðslukeðjuna.
VERÐLAUNAHAFAR 2019
Hart var barist um vinningssætin en gullverðlaunahafarnir voru Brauðhúsið í Grímsbæ fyrir rúgbrauð. Holt og heiðar fyrir þurrkaða lerkisveppi. Bjarteyjarsandur fyrir pikklaðar radísur. Urta Íslandica fyrir aðalbláberjate. Matarhandverk úr fram-Skorradal fyrir birkireyktan urriða. Gæsakæfa frá Villibráð Silla og rauðvínssalami frá Tariello. Sveitaskyr frá Rjómabúinu Erpsstöðum. Í nýsköpun deildu Havarí fyrir Pobb – poppaðar byggflögur og söl snakk frá Bjargarsteini Mathúsi gullsætinu. Glóaldin kombucha frá Kúbalúbra hlaut gull í nýsköpun-drykkir.
HVER ER TILGANGURINN?
Að Askinum 2019 stendur Matís í samstarfi við Sóknaráætlun Vesturlands, Markaðsstofu Vesturlands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Matarauð Íslands.
Markmið keppninnar er að allir framleiðendur fái faglegt mat á gæði vöru sinnar sem nýtist í frekari þróun. Vinningshafar fá viðurkenningu fyrir einstök gæði og leyfi til að merkja vinningsvörurnar með viðeigandi límmiða, sem er gull-, silfur eða bronsaskur.
Keppnin á fyrst og fremst að þjóna framleiðendum matarhandverks og er haldin að sænskri fyrirmynd, Svenska Mästerskapen i Mathantverk, einnig kölluð Særimner. Sú keppni hefur verið haldin árlega, við góðan orðstír frá 1998.
KAUPUM ÍSLENSKT MATARHANDVERK
Það er mikilvægt að matarhandverk þrífist á Íslandi sem og annarstaðar í heiminum. Með því að kaupa slíka vöru erum við að stuðla að sjálfbærni, nýsköpun og oft á tíðum varðveislu gamalla hefða og framleiðsluaðferða. Það er einnig mun umhverfisvænna þar sem kolefnisspor vörunnar er lítið. Varan er hrein, rekjanleg og strangheiðarleg! Ekki spillir það matarlystinni, að vita af ástríðunni og góða fólkinu sem er á bak við hvern munnbita.