Lúxus pestó úr grænkáli

TEXTI OG UPPSKRIFT Mæðgurnar
MYND Matthías Árni Ingimarsson

Í fyrsta skipti sem ég ræktaði mitt eigið grænkál alveg sjálf hafði ég sinnt því af mikilli alúð allt sumarið. Stollt fór ég með alla uppskeruna heim til mömmu því hún átti svo fínan þurrkofn sem ég ætlaði að fá að útbúa grænkálsflögur í (besta snakk í heimi!). Mamma var með gesti svo ég skildi grænkálið eftir í eldhúsinu hjá henni og skrapp í sund. Þegar ég kom til baka var allt grænkálið horfið. Einn gestanna hafði laumast til að setja ALLT grænkálið mitt í djúser og sporðrennt því ÖLLU á meðan ég var í sundi. Ég endurtek: ALLA grænkálsuppskeruna mína hafði EIN manneskja innbyrt á meðan ég var í sundi. Þrátt fyrir að nú sé liðinn meira en áratugur frá dramatíska grænkálshvarfinu hef ég ekki enn treyst mér til að skilja grænkál eftir eftirlitslaust heima hjá mömmu.

– HILDUR –

Grænkál er eldgömul káltegund sem hefur verið ræktuð í Evrópu frá fornu fari. Við Íslendingar þekkjum þetta harðgerða kál vel, enda þrífst það án mikillar fyrirhafnar í okkar loftslagi og hefð er fyrir því að rækta grænkál í íslenskum görðum. Amma Hildur og Afi Eiríkur hafa ræktað grænkál svo lengi sem við mæðgurnar munum og við höfum sjálfar ræktað grænkál hvenær sem aðstæður hafa leyft. Þó maður eigi ekki stóran garð er einfalt að vera með nokkrar grænkálsplöntur í potti á svölunum eða bara úti á stétt. Það er huggulegt að geta skroppið út í garð eða út á svalir og nælt sér í eitt og eitt grænkálsblað til að skella í sjeikinn eða salatið. Og það er okkar reynsla að börnum finnst gaman að tína sér í gogginn úti í garði (eða úr blómapotti úti í glugga) og borða oft meira af því sem þau tína sjálf. Svo er líka til ótrúlega fallegt íslenskt grænkál í búðunum sem er um að gera að nýta sér.

Grænkál hefur verið í tísku undanfarin ár, enda næringarrík fæða. Grænkál er ríkt af A, E og C-vítamínum og fólati og er auk þess ágætis B-vítamín gjafi, kalk- og járngjafi og inniheldur blaðgrænu og góð plöntuefni eins og flest grænmeti. Það er með grænkálið eins og með svo margt sem kemst aftur í tísku: kostir grænkálsins eru ekki nýjar fréttir, það er bara gamalt og gott grænmeti. En það skemmtilega er að þegar gamalkunnugt hráefni verður vinsælt þróast allskonar girnilegar uppskriftir og nýjar leiðir til að nýta hráefnið á spennandi hátt.

Grænkálsflögur eru dæmi um frábæra nýtingu á grænkáli, við mæðgurnar útbúum grænkálsflögur á hverju ári, þær eru svo ótrúlega gott snakk. Einfalda leiðin er að nudda kálið upp úr góðri ólífuolíu, strá smá salti og skvetta sítrónu yfir og baka síðan í ofni. Til að breyta grænkálinu í ennþá meira sælkera snakk er hægt að útbúa kasjúhnetusósu til að velta kálinu upp úr áður en það er þurrkað í ofni eða þurrkofni. Grænkál er auðvitað frábært í græna djúsa og græna sjeika, svo er æðislegt að skera grænkálið mjög smátt og blanda út í öll salöt. Og grænkál er snilld í pestó.

Við mæðgurnar hittumst um daginn og gerðum algjört lúxus pestó úr grænkáli úr garðinum. Þvílíkt sælgæti! Í pestóið notuðum við lífrænar ólífur frá Toscana, í sælkera pestó skiptir máli að ólífurnar séu af bestu gerð. Þetta pestó hefur allt annað bragð en hefðbundið pestó og er mjög skemmtilegt tilbreyting. Við kláruðum allt pestóið fljótt með góðu brauði, en það er án efa mjög gott út á salöt, sem pastasósa eða ofan á pizzu, eða sem meðlæti með því sem hugurinn girnist.

LÚXUS PESTÓ ÚR GRÆNKÁLI

5 grænkálsblöð (takið stilkinn af)
5 góðar ólífur (takið steinana úr)
50g heslihnetur (ristaðar eða bakaðar)
2 döðlur, smátt saxaðar
1 hvítlauksrif
smá sjávarsalt
safi og hýði af 1 sítrónu (lífrænni)
½ – ¾ dl jómfrúarólífuolía

Byrjið á að rista eða baka heslihneturnar við vægan hita.
Setjið svo allt nema ólífuolíuna í matvinnsluvél eða morter og maukið/merjið.
Setjið í skál og hrærið ólífuolíunni út í.

Berið fram í fallegu íláti og njótið!

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir