Árni Grétar a.k.a. Futuregrapher er raftónlistarmaður sem gaf út frábæru plötuna Skynveru fyrir ekki svo löngu. Hann hugleiðir reglulega í sundlaugum og segir það hjálpa sér að finna innri frið. Við fengum að forvitnast um hugleiðsluvenjur hans í tilefni Friðsældar í febrúar:
Af hverju fórstu upphaflega að hugleiða ?
Mig langaði í innri frið – þar sem hugur minn er oft á fleygiferð. Hugleiðsla virkar fyrir mig og skapar frið og ró í hausnum og í sálarlífinu mínu.
Hvernig hugleiðir þú og hve lengi í senn?
Það er mismunandi. Um helgar tek ég oft lengri hugleiðslur, en styttri á virkum dögum. Það er bara ég. Ég er oftast að taka hugleiðslu í 15 mínútur – tvisvar á dag. Stundum tek ég 20 mínútur eða 30 mínútur. Fer eftir stað og stund.
Hvar finnst þér best að hugleiða og af hverju?
Ég er mikill sundlaugarmaður – og er oftast að hugleiða þar. Annað hvort í pottunum, eða í gufubaðinu. Annars finnst mér rosalega gott að vera heima, eða einhvers staðar útí móa, og hlusta á sveimtónlist á meðan ég hugleiði. Svo er geri ég sjálfur sveimtónlist – og er oftast í hugleiðslumóti er ég er að taka upp verkin mín.
Hvað gerir hugleiðsla fyrir þig?
Hún hjálpar mér að koma frið og ró í kringum mig – og hjálpar mér að taka vel á móti deginum (eða nóttinni).
Getur þú nefnt dæmi þar sem að hugleiðslan kom sér sérstaklega vel?
Dæmin eru svo mörg að það er kannski erfitt að benda á eitt ákveðið dæmi. En ég finn það innra með mér að hvernig ég bregst við erfiðum aðstæðum – að hugleiðslan, og þessi friður sem hún gefur mér, hjálpar mér að taka ákvarðanir. Hjálpar mér að verða betri manneskja. Betri pabbi. Betri tónlistarmaður. Betri fyrirmynd.
Hverju mælir þú með fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í hugleiðslu?
Fyrir tónlistaráhugafólk myndi ég ekki leita lengra en að fara á youtube og kveikja á tónlist eftir Harold Budd, Brian Eno, Biosphere eða Pete Namlook – finna eitthvað lag sem gæti snert viðkomandi og loka svo bara augunum og anda inn og anda út. Finna tónlistina. Finna andardráttinn. Hlusta. Annars er hægt að fara á bókasöfnin og finna kennsluefni fyrir byrjendur. Finna aðferðir sem henta. Enginn er eins. Margt virkar – og það eru engar reglur. Bara slaka á og treysta.