Bókamolar – barnabækur

Kápumynd af barnabókunum Útivera, Ró, Egill spámaður og Álfarannsóknin

Margar spennandi og fallegar barnabækur hafa orðið á vegi okkar undanfarið og fannst okkur því tilvalið að breyta aðeins til og hafa bókamolana okkar um barnabækur í þetta skiptið.
Það er svo gaman að sjá þegar metnaðurinn er augljóslega mikill og reynt er að gera allt sem best. En það er einmitt það sem þessar barnabækur eiga sameiginlegt. Vandað hefur verið til verka og útkoman, góðar, fallegar og eigulegar bækur fyrir börnin.

 


Kápumynd af barnabókinni Egill spámaðurEgill spámaður

Egill er feiminn strákur sem reynir eftir fremsta megni að komast hjá því að tala. Laugardagar eru hans uppáhalds dagar því þá þarf hann ekkert að tala. Þá fer hann niður í fjöru og skráir hjá sér sólarupprás og sólarlag og hvenær er fjara og hvenær flæðir að. Einn laugardaginn á leið sinni niður í fjöru hittir hann nýju stelpuna úr skólanum sem vill ólm slást í för með honum.
Krúttleg saga sem lifnar við á blaðsíðum bókarinnar með fallegum myndskreytingum. Ákaflega falleg og vönduð bók í alla staði.

Höfundur: Lani Yamamoto
Myndskreytingar: Lani Yamamoto

Fæst hér


Kápumynd af barnabókinni Ró

Í dagsins amstri er mikilvægt fyrir alla að geta tekið sér stund, slakað á og fundið ró inni í sér.
Gott er að læra að koma jafnvægi á tilfinningar sínar, læra að taka á óskemmtilegum hlutum og ekki síst, temja sér jákvætt hugarfar.
Þetta eru allt hlutir sem eru okkur svo mikilvægir til að geta tæklað lífið, allar þær hæðir og lægðir sem það hefur upp á að bjóða.
Þessi fallega myndskreytta bók er frábær því hún bæði sýnir og segir börnunum okkar hvernig á að gera einmitt þetta. Í henni má meðal annars finna öndunar-, hvíldar og hugleiðsluæfingar, allt gert með skemmtilegri nálgun sniðinni að börnum.

Höfundur: Eva Rún Þorgeirsdóttir
Myndskreytingar: Bergrún Íris Sævarsdóttir

Fæst hér


Kápumynd af barnabókinni ÚtiveraÚtivera

Að eyða tíma undir berum himni gerir okkur svo gott að öll ættum við að vera duglegri að fara út sama hvaða árstími er.
Í þessari bók er að finna 52 skemmtilegar hugmyndir að útiveru fyrir alla fjölskylduna, allan ársins hring.
Útivera hefur sérstaklega jákvæð áhrif á börn, en sýnt hefur verið fram á að
hún stuðli meðal annars að bættri einbeitingu, sköpunargáfu, örvi skilningarvitin og efli hreyfiþroska.
Höfundur bókarinnar, Sabína Steinunn, er íþrótta- og heilsufræðingur og hefur hún sérhæft sig í hreyfifærni barna með áherslu á útivist í námi og starfi. Hún skrifaði einnig bækurnar Færni til framtíðar og Leikgleði – 50 leikir.

Höfundur: Sabína Steinunn Halldórsdóttir
Myndskreytingar: Auður Ýr Elísabetardóttir

Fæst hér


Kápumynd af barnabókinni ÁlfarannsókninÁlfarannsóknin

Aðalsöguhetjan Baldur er fróðleiksfús strákur sem tekur málin í sínar hendur og leitar svara, þegar undarlegir hlutir fara að gerast í sveitinni. Þar bila vinnuvélar, tæki brotna, kaðlar losna og fleira sem erfitt er að útskýra hvernig hafi gerst. Baldur fer að rannsaka málið, geta álfar mögulega tengst eitthvað þessum hrakförum?
Vel skrifuð og skemmtileg bók sem vekur upp spennu og forvitni, sem heldur barninu, jú og foreldrinu, við efnið.
Boðskapur bókarinnar er líka mikilvægur, við verðum að passa upp á náttúruna okkar og ekki ganga of nærri henni.
Baldur er ekki alveg óreyndur þegar kemur að því að leysa ráðgátur. En áður kom út bókin Jólasveinarannsóknin. Þar rannsakar Baldur hver það sé sem gefi í skóinn.

Höfundur: Benný Sif Ísleifsdóttir
Myndskreytingar: Elín Elísabet Einarsdóttir

Fæst hér

 

Aðrar áhugaverðar og náttúrutengdar íslenskar bækur eru Tinna trítlimús og Sagan um ekkert eftir Aðalstein Stefánsson.