Satya er önnur Yaman (hér má sjá fyrstu) í jógafræðunum eða Jógasútrum Patanjali og þýðir “að tala sannleikann”.
Við fyrstu sýn þá virkar Satya frekar einföld og augljós. Með því að leggja okkur fram um að vera góðar manneskjur, þá vöndum við okkur við það sem við segjum. Erum ekki vísvitandi að segja ósatt eða tala á niðrandi hátt um aðra. Sannleikurinn er þó ekki alltaf sagna bestur. Ef að það sem við segjum særir eða skaðar aðra, þá er betra að halda því fyrir sig og með því að minna okkur á Ahimsa – að valda ekki skaða, eða fyrstu Yömuna. Mahābhārata, epískt indverskt ljóð, segir:
Talaðu þann sannleika sem er ánægjulegur. Talaðu ekki óþægilegan sannleika. Ljúgðu ekki, jafnvel þó að lygarnar séu ánægjulega fyrir eyrað. Þetta er hið eilífa lögmál, eða dharma.
Ef við förum að æfa okkur í því að tala alltaf það sem er satt, þá hugsa ég að margir hefðu mikið minna að segja á degi hverjum! Það að skuldbinda sig til að halda sig við sannleikann er ekki auðvelt til að byrja með en getur einfaldað margt. Við erum þá til dæmis ekki að lofa upp í ermina á okkur því sem við vitum að við getum ekki staðið við og þurfum þar af leiðandi ekki að leiðrétta það sem við höfum áður sagt. Það eitt og sér minnkar streituvaldinn í okkar lífi.
Satya felur fleira í sér heldur en að vanda sig við það sem maður segir. Það sem er jafnvel erfiðara er að vera sannur gangvart sjálfum sér. Að fylgja hjartanu, sínum innri sannleika, eða eins og segir í lagi Sssól;
Vertu þú sjálfur,
gerðu það sem þú villt.
Vertu þú sjálfur,
eins og þú ert.
Láttu það flakka,
dansaðu í vindinum.
Faðmaðu heiminn,
elskaðu.
Það að hlusta á hjartað þarfnast hugrekkis. Við viljum falla inn í hópinn, hvort sem það er fjölskyldu- eða vinahópurinn. Flestir þrá það að tilheyra, að vera hluti af einhverju, og við setjum jafnvel upp margar grímur yfir daginn, eina fyrir hvern hluta í lífi okkar, vinnufélaga, vini og fjölskyldu. Það að þurfa jafnvel að fara á móti gildum viðkomandi hóps eða samfélags getur tekið á, þrátt fyrir að við vitum að það sé okkur fyrir bestu. Sem dæmi má nefna fjölskyldufaðir í vel launaðri ábyrgðarstöðu sem þráir að skipta um starfsvettvang. Það myndi þýða launalækkun og breytta lífshætti fyrir fjölskyldu hans, en á sama tíma myndi það færa honum meiri lífsfyllingu. Það er oft ekki hagkvæmt að fylgja hjartanu, og sjaldan bein og greið leið. Í lok dags er það engu að síður þess virði, þar sem við erum í sátt við okkur sjálf.
Að vera sannur, þýðir að leyfa sér að vera raunverulegur með opið hjarta í hverjum þeim aðstæðum sem lífið færir okkur. Að leyfa sér að tala sinn sannleika með styrk og kærleika, án þess að þurfa að verja nokkuð eða reyna að hagræða aðstæðum sér í hag. Að sama skapi að geta verið til staðar fyrir þá sem standa manni næst án þess að setja upp grímu. Að vera sannur þýðir að þú ert á staðnum, að þú getir tekið á móti og leyft ástvinum þínum að vera raunverulegir í hverjum þeim tilfinningum sem koma upp án þess að þurfa að laga nokkuð eða breyta því á einhvern hátt. Einfaldlega að hlusta, veita viðkomandi athygli og gefa honum frelsi til að vera fullkomlega alvöru og sjálfum sér trúr.
Í sjálfsævisögu Gandhi segir hann að líf hans hafi verið tilraun með sannleikann. Það fær mann óneitanlega til að sjá hversu miklu er hægt að áorka með því að vera sannur, með því að hlusta á og fara eftir sinni dýpstu sannfæringu.
Ef þig langar til að dilla þér aðeins og hlusta á Sssól flytja lagið sem fylgir textanum hér að ofan smelltu þá á tengilinn