Við hjá Í boði náttúrunnar heyrðum af sykurlausu áskorun Júlíu heilsumarkþjálfa Lifðu til fulls og Gló og urðum að fá eina girnilega uppskrift frá henni. Uppskriftirnar í áskoruninni eru samsettar úr fæðu sem dregur úr sykurlöngun þannig að eftir tvær vikur ætti sykurþörfin að vera orðin minni hjá þeim sem taka þátt:
„Við leggjum áherslu á að fólk taki einfaldlega áskoruninni og geri sitt besta. Það er engin krafa um að allir sleppi öllum sykri, þetta fer eftir einstaklingum og hvernig mataræði fólks er í dag. Þeir sem borða mikinn sykur geta valið að sleppa engu í núverandi mataræði en nota uppskriftirnar og borða þessa fæðu sem minnkar sykurlöngun og sjá svo til hvað gerist.“ segir Júlía heilsumarkþjálfi
„Sykurþörf einstaklinga er þá orðin minni því líkaminn er farin að njóta betur náttúrulegrar sætu eins og honum var ætlað og líður bara einfaldlega svo miklu miklu betur. Þátttakendur í fyrri áskorunum tala um að þeir hafi náð að auka orkuna, upplifðu þyngdartap, bættan svefn og liðu almennt betur í líkamanum. Sykurlaus fæða er langt frá því að vera leiðigjörn og sem fyrrum sykurskrímsli læt ég aldrei vanta upp á bragðið í uppskriftum mínum og prófa ég allar uppskriftir á vinum sem borða sykur og „venjulega fæðu”. Ef þeim líkar ekki uppskriftin nota ég hana ekki“ 🙂 segir Júlía okkur kát í bragði.
„Mig langar að sýna fólki með þessari áskorun að það er ekki eins mikið mál og margir halda að sleppa sykri.“ Yfir 13.000 eru skráðir til leiks að vera sykurlausir og fæst skráning hér,http://lifdutilfulls.is/14-daga-sykurlaus/
Expresso og kakó „yfirnóttu” hafrar
~ fyrir 2 góða skammta
2 bollar glúteinlausir hafrar eða tröllahafrar
4 bollar möndlumjólk/rísmjólk/kókosmjólk
1/2 bolli sterkt svart kaffi eða 1 tsk grænt kaffi duft (fæst m.a í hylkjum) eða kaffi extract
8 msk chia fræ
6 msk kakóduft
4 tsk kakóanibbur
2 dropar stevia eða 2 döðlur skornar smátt
1 Vanilludropi
1.Settu öll innihaldsefnin í krukku, settu lok yfir og geymdu yfir nóttu. Ef þú notar kaffi extract vertu viss um að bæta við allt að 1/2 bolla af möndlumjólk.
2.Þetta má borða kalt eða örlítið upphitað í potti. Njóttu!