Morgunvenjur Valgerðar innkaupastjóra

Valgerður Árnadóttir starfar sem innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða. Hún hlaut menntun sína í Danmörku og hefur unnið að ýmsum nýsköpunarverkefnum sem stuðla að sjálfbærni, umhverfisvænum aðferðum og endurvinnslu í fataiðnaðinum. Valgerður kallar sig „nútímahippa“ sem brennur fyrir dýra- og náttúruvernd og hefur áhuga á að fræða og miðla af reynslu sinni til meðvitaða neytandans. Hún hefur því hafið að skrifa pistla fyrir ibn.is þar sem hún mun dreifa boðskapnum og hafa gaman að. Við fengum að forvitnast um morgunvenjur hennar, en hún segir morgunverðinn nauðsynlegan fyrir heilastarfsemina, dreymir um að eiga hænur og veit fátt betra en „helgarbrunch“ heimilisins:

IMG_3612Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?

Ég vakna 7:20 við vekjaraklukkuna þegar ég þarf að mæta í vinnu. Ég er þá oftast sofnuð milli 11-12 kvöldið áður því ég er alveg ómöguleg ef ég fæ minna en 7 tíma svefn og kýs helst 8 tíma. Þegar ég er í fríi vaki ég oftast til 1-2 á nóttunni og vakna 9-10 á morgnana. Ég er orðin mikið meiri A manneskja eftir að ég eignaðist börn sem vekja mig alla morgna kl 8, hinsvegar er ég ekki mamman sem stekk á fætur og útbý dýrindis morgunverð og fer svo út á róló eldsnemma á morgnana heldur drattast ég hálfsofandi framúr, set morgunkorn í skál, kveiki á barnatímanum og kúri svo áfram 1-2 tíma eftir því hvað börnin leyfa mér.

Hvernig eru morgunvenjurnar?

Ég byrja alla morgna á að drekka 1-2 glös af vatni. Á vinnudögum vakna ég, drekk mitt vatn og fer í sturtu. Ég verð að borða morgunmat til að koma heilanum af stað fá orku á morgnana ogá  meðan ég er að gera mig til hita ég vatn og blanda hráefnum í grautinn minn í krukku. Ég fæ mér oftast hafra-og chiagraut með kanil, næringageri, kókosolíu og berjum eða öðrum ávextum Ég blanda öllu í krukku, helli sjóðandi vatni yfir, læt standa smá stund og borða á leið í vinnuna eða við skrifborðið.

Þegar ég á frí geri ég meira úr morgunmatnum og geri ferskan safa í safavélinni minni. Við erum stór fjölskylda og þó að við viljum helst lífræna ávexti þá kaupum við pyngjunnar vegna oftast „10 ávaxta pokann“ í Krónunni og setjum þá helst epli, appelsínur og gulrætur í vélina svo bæti ég sítrónu og engifer út í fyrir mig og manninn minn en börnunum mínum finnst það of „sterkt“. Á laugardögum á veturna fer ég svo í ræktina fyrir hádegi og kem oftar en ekki heim í “brunch”. Við fjölskyldan erum mikið “brunch” fólk og steikjum pönnsur eða lummur og berum fram með sýrópi, sultu, banönum og berjum, sjóðum, steikjum og hrærum egg, ristum brauð og svo sér kallinn um að steikja sér beikon eða pylsur en sjálf er ég grænmetisæta sem er alltaf að hallast meira að veganisma. Ég vildi helst eiga mínar eigin hænur en ég er ekki með garð eins og er og kaupi því„hamingjuegg“ á heimilið, nota haframjólk eða möndlumjólk út í kaffið og er hætt öllum mjólkurvörum nema einstaka sinnum stelst ég í ost eða ís svo ég er að taka þetta skref fyrir skref. Mér finnst mikilvægt að fólk hugi að því hvaðan vörurnar koma sem það kaupir og sé meðvitað að hvert skref í átt að því að lifa „vænna“ lífi skiptir máli, þá með tilliti til allra lifandi vera á jörðinni. Mér finnst frábært að sjá fleiri og fleiri „venjulegar kjötætur“ taka þátt í „veganuar“ á ári hverju og alla sem eru að taka kjötlausan dag í hverri viku, því ég er á því að það opni augu þeirra og breyti venjum skref fyrir skref.


IMG_3413

Hvernig heldur þú í þessar venjur?

Þessar fáu morgunvenjur mínar eru algjörlega nauðsynlegar til að ég eigi góðan dag, svefninn og næringin er það sem ég þarf til að þrauka heilan vinnudag og eiga orku eftir fyrir heimili og börn. Ég er frekar ströng við sjálfa mig hvað varðar svefn því ég veit hvað ég er ómöguleg ef ég sef of lítið, sama á við um næringuna, ef ég borða ekki morgunmat þá er ég komin með í magann af svengd um tíuleitið sem bitnar á líðan og starfsgetu. Þó ég sé í hjarta mínu félagslyndur hippi sem vill stundum fara á barinn á virku kvöldi og slá öllu upp í kæruleysi þá er ég orðin mjög öguð, passa mig að drekka ekki meira en 2 drykki og vera komin upp í rúm fyrir 12 til að ég geti verið alveg 100% daginn eftir. Með aldri og barneignum er það bara ekki þess virði að vera ryðgaður daginn eftir nema við mjög sérstök tilefni.

Svo er margt sem aðrir gera á morgnana sem hentar mér alls ekki eins og að taka vítamín og fara í ræktina, en mér verður óglatt af vítamínum nema ég taki þau með heilli máltíð og geri það því oftast um kvöldmatarleiti og þar sem ég er með börn fer ég ekki í ræktina á morgnana. Ég hef reynt að vakna eldsnemma og klára ræktina af áður en börnin vakna en þá er orka mín búin uppúr hádegi og ég vil helst fara heim að leggja mig. Mín morgunhreyfing er að ganga að og frá strætóskýlum á leið í vinnu (eða hlaupa, ef ég er sein) og mér finnst best að fara í ræktina í hádeginu. Það er svo misjafnt hvað hentar hverjum!

IMG_3613