Bleikur hummus

Það er alltaf góð hugmynd að eiga hummus í ísskápnum enda fer hann vel með nánast öllum mat, í millimál eða sem meðlæti með stærri máltíðum. Þessi hummus er bæði fljótlegur í framkvæmd og stútfullur af góðri næringu. Rauðrófur eru til að mynda ríkar í C-vítamíni og fólinsýru og innihalda gott magn af trefjum og andoxunarefnum. Regluleg neysla getur því haft ýmis heilsueflandi áhrif, styrkt ónæmiskerfið og dregið úr bólgumyndun í líkamanum. Ekki nóg með það þá er hummusinn líka svo fallega bleikur – í stíl við sumarið.

Innihaldsefni

400g kjúklingabaunir í dós, fjarlægjið vökva
1 lítil eða hálf stór rauðrófa
2 msk ólífuolía + smá til skreytingar
¼ bolli tahini
1 hvítlauksgeiri
½ tsk fínt salt + meira ef þarf
ferskur malaður svartur pipar
söxuð fersk steinselja til skreytingar

Aðferð

Setjið kjúklingabaunir, soðna eða bakaða rauðrófu, ólífuolíu, tahini, hvítlauk og salt saman í matvinnsluvél og látið blandast í um 2 til 3 mínútur eða þangað til mjúk áferð hefur myndast. Kryddið svo með salti og pipar. Berið fram í skál, hellið örlítið af ólíuolíu yfir og skreytið með steinselju. Geymist í loftþéttu íláti í kæli í allt að þrjá daga.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.