Kitserí- Rjúkandi töframatur

Kitserí (e. Kitchari) er indverskur réttur sem af mörgum er talinn hin fullkomna næring. Í indversku lífsvísindunum, Ayurveda, er kitserí í hávegum haft enda sagt einstaklega heilnæmur réttur og oft neytt með fram andlegri iðkun og hugleiðslu. Kristbjörg Kristmundsdóttir, jógakennari og blómadropameistari, kynntist kitseríi af eigin raun á Indlandi og borðar réttinn reglulega yfir kaldasta árstímann. (GREININ BIRTIST FYRST Í VETRARBLAÐI Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR 2015 – AÐEINS 850 KR. )

Réttur sem af mörgum er talinn hin fullkomna næring

Kristbjörg kynntist kitseríi fyrst á Indlandi þar sem hún var í jóganámi, enda á rétturinn uppruna sinn að rekja þangað og er enn í dag mjög vinsæll. „Ég hef prófað ýmiss konar mataræði; hráfæði, lifandi fæði og grænmetisfæði, enda búin að vera grænmetisæta í tugi ára. Ég hef reynt að vera á lifandi fæði hérna heima, sem er bara mjög fínt á sumrin, en það er ekki séns að ég geti það á veturna og heldur ekki á hráfæði. Líkami minn þolir það alls ekki.“ Kristbjörg segist kunna vel við heitar súpur og rétti á þessum árstíma og þar kemur kitserí sterkt inn. „Nú er ég búin að læra mikið um Ayurveda og þar er kitserí sagt vera töframatur. Það sem er svo flott við kitserí er að þetta er einfaldur réttur, bara ákveðinn grunnur sem maður þarf að kunna og svo getur maður framreitt hann á ýmsa vegu.“

Screen Shot 2015-10-26 at 2.24.44 PM

EINFALDUR GRUNNUR

Grunnurinn í kitseríi er tveir hlutar af basmati-hrísgrjónum á móti einum af mung-baunum. „Basmati-hrísgrjón eru allt öðruvísi en venjuleg hvít hrísgrjón og fara miklu betur í mann. Það er hægt að nota bæði hrísgrjón með hýði og hvít. Þau hvítu valda minna álagi á meltingarfærin en hin eru næringarríkari.“ Kristbjörg segir mung-baunir vera mikilvægt innihald en þær eru einu baunirnar sem eru fullkomlega satviskar, sem þýðir í raun upplyftandi samkvæmt Ayurveda. Þær eru einnig sagðar einu baunirnar sem leiða ekki til vindverkja. Kristbjörg undirbýr kitserí með því að láta baunirnar liggja í vatni yfir nótt, en segir það ekki þurfa ef notaðar eru klofnar baunir.

KITSERÍ „DETOX“ OG PRÓTEINGJAFI

Krisbjörg segir að hægt sé að nota réttinn sem hreinsunarfæði. Þá borði maður einungis einfalt kitserí í öll mál í ákveðinn tíma. Þetta sé góð hreinsun sem veiti meltingarfærunum hvíld, því að kitserí er auðmeltanlegt, en um leið sé maður algerlega virkur í lífi og starfi. „Ef ég ætla að búa til hreinsandi kitserí, sem er grunnurinn, þá set ég baunir, hrísgrjón og vatn í pott og bæti við túrmeriki og Ghee. Það er alltaf Ghee, eða skírt smjör, í kitseríi.“ Það er svo vatnið sem ræður því hvers konar réttur kitserí verður. „Ég set bara vatn eftir því hvað ég vil hafa þetta þykkt. Ef ég ætla að búa til pottrétt þá hef ég lítið vatn og ef ég vil gera súpu þá hef ég meira, það er ekki flóknara en svo!“ Í lokin kryddar hún svo réttinn með grófu íslensku salti.

Margir halda að þessar lífsnauðsynlegu sýrur sé bara hægt að fá úr kjöti en það er ekki rétt. Þessi blanda af basmati-hrísgrjónum og mung-baunum notar líkaminn til að búa til prótein

Það mikilvægasta við næringargildi kitserís, segir Kristbjörg okkur, er ammínósýrurnar sem líkaminn fær til að búa til prótein. „Margir halda að þessar lífsnauðsynlegu sýrur sé bara hægt að fá úr kjöti en það er ekki rétt. Þessa blöndu af basmati-hrísgrjónum og mung-baunum notar líkaminn til að búa til prótein. Þannig að allar grænmetisætur þurfa að passa upp á að fá í sömu máltíð baunir og fræ, til dæmis hrísgrjón eða sólblómafræ. Ef mann vantar þessi grunnatriði í mataræðið þá upplifir maður svo mikinn skort; eins og sælgætislöngun, sem er stundum bara skortur á einhverjum efnum í mataræðinu.“

Samkvæmt Ayurveda kemur hreinsandi kitserí einnig jafnvægi  á „doshurnar“, þ.e. líkamsgerðirnar, sem fara oft úr jafnvægi. Fyrir líkamsgerðirnar vötur og pittur er mikilvægt að borða slíkan graut því þær eiga erfitt með að halda á sér hita um miðjan vetur á Íslandi á eintómu grænmeti. „Ef maður er grænmetisæta af þessari gerðinni er manni alltaf kalt, líkamsstarfsemin dettur niður og það kemur depurð og deyfð yfir fólk á veturna. Kitserí getur þá bæði nært og kætt.“

GAMLA GÓÐA NAGLASÚPAN

Það eru til ótal margar uppskriftir að kitseríi, segir Kristbjörg. „Þar sem ég borða mikið af því, bæti ég stundum fleiri kryddtegundum út í þennan grunn, t.d. kúmenfræjum, karríi, karrílaufi, negul og kardimommum, til þess að hafa þetta ekki alltaf eins á bragðið. Þegar ég er að búa til súpu eða pottrétt sem á að vera matarmikill þá bæti ég við alls konar grænmeti; brokkólíi, blómkáli, kartöflum, lauk – bara öllu sem mér dettur í hug. Þetta er eins og naglasúpan; það er bara spurning hvað á best við þig og hvað þú átt til. Þetta er matur sem er ekki bara góður fyrir mann heldur er hann einfaldur og maður er enga stund að búa hann til.“

HREINSANDI KITSERÍ – GRUNNUPPSKRIFT

Út í þessa grunnuppskrift er gott að bæta við fleiri kryddum eins og svörtum sinnepsfræum, kúmin, kóriander, engifer og asafoetida (fæst í austurlenskum búðum). Einnig er gott að setja hverskyns grænmeti út í þegar rétturinn á að vera matarmikill.

  • 1 bolli hrísgrjón
  • 1/2 bolli af mung-baunum (heilar eða klofnar)
  • 2-3 msk af Ghee (skírt smjör, fæst í heilsubúðum)
  • túrmerik og salt eftir smekk

Ef baunirnar eru ekki klofnar, eru þær látnar liggja fyrst í bleyti yfir nótt og vatninu síðan hellt af. Hrísgrjón og mung-baunir sett saman í pott ásamt c.a. fjórum bollum af vatni, meira ef búa á til súpu. Bætið kryddi og Ghee út í og látið malla. Saltið eftir smekk. Grauturinn er tilbúinn þegar hrísgrjónin og baunirnar eru passlega mjúk.