Á grænni hillu – Guðrún Bergmann

UMSJÓN Dagný B. Gísladóttir

Guðrún Bergmann, rithöfundur og heilsu- og lífsstílsráðgjafi er mörgum þekkt og hefur tileinkað sér heilbrigðan og grænan lífstíl sem felur í sér að hún hugsar ekki einungis hvað hún setur ofan í sig og á, heldur einnig hvað hún setur út í umhverfið. 

HÚÐ

Ég hreinsa andlitið kvölds og morgna. Ég nota Ferskwhite-sápukremið frá Sóley og Rawganics-hreinsiklúta til að hreinsa burt augnfarðann á kvöldin. Á andlit og líkama nota ég krem með lífrænum innihaldsefnum. Ég á gjarnan nokkur krem á sama tíma sem ég nota til skiptis. Fyrir nokkum árum datt mér í hug að setja þunnt lag af rakamaska á andlitið áður en ég fór í langflug og fannst það frábært. Það er einnig gott að gera slíkt yfir nótt þegar veður er þurrt og kalt. Ég nota þá yfirleitt maskana frá Lavera. Svo hef ég notað Episilk Q10-sermið (serum) og finnst það sérlega nærandi fyrir húðina; það er búið til úr óerfðabreyttum efnum. Mér finnst mikilvægt að þurrbursta líkamann reglulega og bera á hann góða olíu. Einnig fer ég reglulega í heitt bað með epsom-salti.

HÁR

Ég fór að nota lífrænar snyrtivörur fyrir meira en tuttugu árum og hef lagt mikið upp úr því að nota einnig þannig hárvörur. Sjampó og hárnæring frá Lavera eru í miklu uppáhaldi, bæði með mangó- og rósailmi. Hef líka notað mótunargelið frá Lavera. Ég er með sjálfliðað hár og hef nú lært að leyfa krullunum að njóta sín. Ég litaði einnig lengi á mér hárið en er nú hætt því.

FARÐI

Ég legg mig fram um að nota farða úr lífrænum efnum og hef í gegnum tíðina keypt slíkar vörur frá ýmsum merkjum til að prufa og finna það besta. Upp á síðkastið hef ég mikið notað farðavörur frá Lavera, sem bæði eru góðar og á góðu verði. Ég nota litað dagkem, kinnalit, augnskugga og augnblýant frá þeim, en enn sem komið er hef ég ekki fundið í lífrænu línunum varalit með réttum lit fyrir mig, þannig að hann er frá Lancome.

ILMUR

Ég hef ekki notað ilmvatn í yfir tuttugu og fimm ár því það er svoddan urmull af efnum í þeim, en ég nota þó annað slagið ilmolíur þegar ég vil lykta sérlega vel. Á meðan ég átti Betra Líf á árunum 1989-1994, var ég ein af þeim fyrstu til að flytja inn alúmíumlausan svitalyktareyði og hef notað æ síðan.

ANNAÐ

Góðar líkamsmeðferðir koma svo fínu jafnvægi á orkuflæði líkamans og eru svo endurnærandi en ég fer reglulega í nudd og höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð. Ég er lítið í öðru dekri; held ég hafi farið þrisvar í andlitsbað um ævina.

NÆRING

Húðin og hárið njóta góðs af því að við tökum inn ríkulegt magn af Omega-olíum. Ég passa líka að taka alltaf góða skammta af B-vítamínum og fyrir húðina tek ég reglulega inn Hyaluronic Acid frá KAL sem styrkir hana innan frá. Ég borða hollan mat, sneiði hjá sykri, nota ekki sterkt áfengi og reyki ekki – en allt hefur þetta slæm áhrif á húðina.