Indverskur linsubaunaréttur

UPPSKRIFT Helga María Ragnarsdóttir

Þegar ég kom heim um daginn var ísskápurinn frekar tómur. Ég tók út allt það grænmeti sem ég átti, fann poka af linsubaunum í skúffunni og tuttugu mínútum seinna hafði ég útbúið æðislegan og næringaríkan linsubaunarétt.

LINSUBAUNARÉTTUR
1 lítil sæt kartafla
2 gulir laukar
4 gulrætur
1 msk rifið engifer
pressaður hvítlauksgeiri
1,5 bolli linsubaunir
1 líter grænmetissoð. 
1 tsk túrmerik
2 tsk garam masala
Salt og pipar eftir smekk.

1. Ég byrjaði á því að skera niður grænmetið og setja í pottinn ásamt örlitu vatni og leyfa grænmetinu að mýkjast aðeins í nokkrar mínútur. Ef þið viljið steikja það uppúr olíu er það ekkert mál, ég reyni bara að nota olíu sem minnst.

2. Á meðan grænmetið var að hitna aðeins skolaði ég linsubaunirnar og leyfði þeim að liggja í bleyti í smá stund.

3. Eftir nokkrar mínútur bætti ég linsubaununum, grænmetissoðinu (ég sýð yfirleitt vatn í hraðsuðukatli og blanda grænmetiskrafti frá Sollu útí), engiferinu, hvítlauknum og kryddunum útí og leyfði þessu að malla í sirka tuttugu mínútur.

Ef ykkur finnst ekki nóg krydd þá er ekkert mál að bæta því útí. Betra að byrja á því að setja of lítið en of mikið.