„Missti lystina á kjöti“

Ég hef alla tíð verið mikill dýravinur, ég ólst upp með gæludýr og átti ketti, kanínu, páfagauka, hamstur, hund, hesta, eðlur, krabba, naggrís.. ja við skulum bara segja eins og er ef einhver sem þekkti okkur mæðgurnar þurfti að losa sig við gæludýr þá tókum við á móti þeim og líka ef villt meidd eða veik dýr sem þurftu hjálp fundust, við gátum ekki vísað neinum frá og vorum á tímabili með meidda kráku í stofunni og broddgölturinn sem bjó undir útidyratröppunum leitaði til okkar þegar hann varð veikur.

Ég gekk á milli nágranna í hverfinu og lék við hundana þeirra og þegar ég var orðin nógu stór til að ráða við þá fékk ég að viðra þá daglega eftir skóla. Það eru til margar sögur af mér og vinskap minn við dýr. Foreldrar mínir fluttu til Svíþjóðar með mig þegar ég var 9 mánaða og ég fékk fljótlega pláss hjá dagmömmu, sú kona var ekki mikið fyrir börn en ég var mjög ánægð þar því hún átti hund, ég var reyndar svo hrifin af hundinum að hún leyfði mér að taka lúrinn minn hjá honum og þegar mamma bað vinkonu sína eitt sinn að sækja mig því hún var sein úr vinnu þá fékk sú áfall því ég lá sofandi í hundabælinu þegar hún kom.

Ef leikskólinn fór í sveitaferð þurfti að passa mig mjög vel því ég vildi knúsa öll dýrin , í eitt skipti fannst ég inni hjá hestunum þar sem ég stóð undir hesti með armana teygða upp til að knúsa. Ég óð líka að öllum hundum sem ég mætti þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli frá mömmu minni um að gera það ekki, það bjó doberman í hverfinu sem var látinn vera með munnkörfu þegar farið var með hann í göngutúr, einn daginn þegar ég var 5 ára að leika fyrir utan húsið okkar hvarf ég, mamma mín bankaði hjá nágrönnunum og einn þeirra sagðist hafa séð mig fara inn til þeirra sem áttu hundinn, mamma sem var skíthrædd við hundinn mannaði sig upp í að fara þangað, bankaði á hurðina og hljóp niðurfyrir tröppurnar til að hundurinn gæti ekki stokkið á hana, þegar eigandinn opnaði fyrir henni þá sá hún mig á bakvið hann þar sem ég var að klöngrast upp á bakið á hundinum með hendina í kjaftinum á honum alsæl og hlæjandi.

Ég var eins og önnur börn ekkert mikið að spá í það hvað ég væri að borða og tengdi matinn ekki sérstaklega við dýrin sem ég elskaði en það breyttist allt á einu augabragði þegar ég var 11 ára. Við fjölskyldan vorum á ferðalagi um landið og vorum komin austur á land, þar ákváðum við að tjalda og þar sem við höfðum rekist á hvolpa á ferð okkar um Hallormstað höfðum við auðvitað ekki staðist mátið að taka einn hvolp að okkur og áttum bara eina nótt eftir áður en við héldum heim til Reykjavíkur með þennan nýja fjölskyldumeðlim. Nóttin i tjaldinu með hvolpinum sem saknaði mömmu sinnar gekk ágætlega en um morguninn vöknuðum við upp við þvílík vein, hryllileg öskur sem nístu inn í merg og bein og svo kom hvellur og þögn. Eftir smá stund aftur hryllilegt vein, hvellur og þögn. Þetta endurtók sig eins og martröð allan morguninn á meðan við pökkuðum saman og komum okkur í burtu, það var verið að slátra svínum í sláturhúsinu við tjaldstæðið.

Ég missti lystina á kjöti eftir þetta og ef þið hafið heyrt óhljóðin í sláturhúsi þá ættuð þið að skilja hvers vegna og hvaðan orðatiltækið „að veina eins og stunginn grís“ kemur. Mér fannst hryllileg tilhugsun að styðja við þessa þjáningu og vissi að ég vildi gera eitthvað til að bæta framtíð þessarra dýra og stöðva þessa grimmilegu meðferð.

Mömmu minni, sem er alin upp í sveit og elskar bæði lifur og hrossabjúgu, fannst erfitt að ég vildi ekki borða kjöt en á sama tíma var hún stolt af því hvað ég var umhyggjusöm og staðföst og reyndi ekkert mikið að fá mig ofan af þessarri ákvörðun.

Mömmu minni, sem er alin upp í sveit og elskar bæði lifur og hrossabjúgu, fannst erfitt að ég vildi ekki borða kjöt en á sama tíma var hún stolt af því hvað ég var umhyggjusöm og staðföst og reyndi ekkert mikið að fá mig ofan af þessarri ákvörðun. Ég borðaði lengi vel í fáfræði minni kjúkling og tók meira segja upp á þvi til að þóknast öðrum og passa inn í að borða „hamingjusamt og frjálst“ lambakjöt um tíma. En svo sá ég myndband úr íslensku sláturhúsi þar sem lömbin voru rotuð með einhverju tóli og hengd upp á snaga til slátrunar, nema það rotuðust ekkert öll lömbin, þau engdust mörg um hangandi á snaga í þjáningu og viti sínu fjær af hræðslu og ég missti aftur lystina, og ef maður missir lystina af því að sjá hvernig maturinn manns er unninn er þá ekki eitthvað að matnum?

Mér hefur ekki fundist erfitt að sleppa því að borða kjöt, ég sakna ekki kjöts og ég borða mjög fjölbreyttan og góðan mat og er alltaf södd og með öll næringarefni í lagi. Það sem mér hefur aftur á móti fundist erfitt eru viðbrögð fólks, það bregst oft ókvæða við ef ég afþakka kjöt, eins og ég sé að móðga það persónulega með ákvörðun minni. Ég þarf að svara fyrir þessa ákvörðun mína trekk í trekk, jafnvel við ókunnugt fólk, „ég er með svo mikið vesen“, ég fæ að heyra „ég gæti ekki sleppt því að borða kjöt, ég skil þig ekki..“og hið margrómaða, „en kjöt er svo gott“ í nánast hverjum einasta matartíma í vinnunni og í fjölskylduboðum. Það er rýnt í diskinn minn og ef það er dýraafurð í einhverju þá hlakkar í fólki sem finnst það þurfa að tilkynna mér það að ég sé nú að borða fisk eða egg, „þykir þér ekkert vænt um fiskana, hvað með varphænurnar?“ Ég vildi að fólk myndi spá minna í því hvað ég geri og hvað ég borða og spá meira í það hvað það gerir sjálft og borðar.

Ég er ekki fullkomin og ég þarf ekki að vera það en ég vinn að því að bæta mig og geng áfram í lífinu opin fyrir nýrri þekkingu og breytingum.

Mín ósk er að fleiri opni augu sín og fari að vera meðvitaðri og ábyrgari neytendur, ef ég get eitthvað aðstoðað við að fræða og deila eigin reynslu þá ætla ég að gera það, hvert lítið skref til að minnka dýraafurðir á disknum skiptir máli, ekki bara fyrir dýrin, heldur fyrir heilsuna og umhverfið.

Tögg úr greininni
, , ,

1 athugasemd

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.