Jarðskokkar og sjávartrufflur

MYND/KARL PETERSSON

Jarðskokkar eru ekki beinlínis á hvers manns vörum, enda margir sem þekkja ekki þetta spennandi og jafnvel framandi hráefni. Jarðskokkar eru rótargrænmeti sem vex víða í Norður-Ameríku og Evrópu, jafnvel villt, og uppskerutími þeirra er á haustin.

Jarðskokkar eru rætur sólblómsins og eru stundum kallaðir Jerúsalem-ætiþistlar (e. Jerusalem artichoke), jordskokkar eða jardärtskockar. Þótt erlenda heitið bendi til að jarðskokkar eigi eitthvað sameiginlegt með borginni Jerúsalem eða ætiþistlum er svo ekki en uppruni nafnsins er óljós.

Bragð jarðskokka er einstakt og vel þess virði að prófa. Það er til að mynda gaman að nota þá í súpur og á pítsur. Hér eru þeir notaðir í dýrindismauk með sjávartrufflu, sem er líka þekkt sem þangskegg, og er þari af ætt rauðþörunga.

JARÐSKOKKAMAUK MEÐ SJÁVARTRUFFLU

1 msk. þurrkuð sjávartruffla (þangskegg)
200 g jarðskokkar (Jerúsalem-ætiþistlar)
1 dl rjómi
50 g smjör
salt

Hitið ofninn í 180°C. Skerið jarðskokkana í fernt, leggið á bökunarplötu og bakið þar til þeir eruð orðnir mjúkir, í um það bil 25 mínútur. Þá eru jarðskokkarnir teknir úr ofninum og settir í blandara ásamt smjöri, rjóma og sjávartrufflu. Maukið vel í blandara. Jarðskokkamauk er til dæmis frábært meðlæti með lambakjöti, þorski eða ofan á væna brauðsneið.

Þessi grein birtist í tímaritinu FÆÐA/FOOD 2019-2020. Höfundur uppskriftar: Hinrik Carl Ellertsson.

Myndirnar og uppskriftin eru úr bókinni Sjávarmál, tínsla, verkun og matreiðsla sem er væntanleg innan skamms. Um er að ræða samstarfsverkefni þeirra Karls Petersson ljósmyndara, Eydísar Mary Jónsdóttur umhverfis- og auðlindafræðings, Hinriks Carls Ellertssonar matreiðslumeistara og Silju Daggar Gunnarsdóttur alþingiskonu.

Hér getur þú skoðað myndband frá Íslenskri hollustu þar sem sýnt er hvernig sjávartrufflur eru tíndar í fjöruborðinu.

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.