Glúteinlaust Chia-hrökkbrauð

Það er kjörið að nýta helgarnar í matarundirbúning fyrir komandi vinnuviku. Bara það að eiga hrökkbrauð á lager bjargar strax heilmiklu í annríki dagsins. Þetta hrökkbrauð tekur enga stund að gera, ég hrærði þessu saman í skál í gærkvöldi og inn í ofn. Síðan skar ég þetta í sneiðar í morgunsárið. Maður þarf ekkert að vera sveittur í eldhúsinu allan daginn þó maður sé að flýta fyrir komandi vinnuviku. Það þarf varla að taka það fram að hrökkbrauðið er glútenlaust, gerlaust, mjólkurlaust og sykurlaust. Það er því ótrúlega gott í mallakútinn. Hrökkbrauðið er svipað chia-pizzabotninum sem ég geri oft, ákvað bara aðeins að breyta til og setja aðrar hnetur og fræ en ég geri vanalega. Þú getur sett það sem þér dettur í hug af fræjum, hnetum og kryddi.

Chia-hrökkbrauð

 • ¾ bolli Chia-fræ
 • 2 ¼ bolli Vatn
 • 9 msk Quinoamjöl/Bókhveiti/Kókoshveiti
 • 3 msk Valhnetur
 • 3 msk Hörfræ
 • 6msk Graskersfræ
 • 3 tsk Oreganó
 • 3 tsk Salt

chia1

 1. Byrjaðu á því að setja chia-fræin og vatnið saman í skál, hrærðu aðeins. Á meðan þetta verður að geli skaltu saxa hneturnar og fræin.
 2. Þegar chia-vatnsblandan er orðin gelkennd skaltu blanda restinni af innihaldsefnunum út í og hrærðu vel.
 3. Settu bökunarpappír á ofnplötu. Makaðu deginu á plötuna með sleif og hafðu það í þeirri þykkt sem þú kýst. Botninn lyftir sér ekki, ég hafði þetta ca. 1/2 cm hjá mér.
 4. Bakaðu í 40-45 mín á 180°C.
 5. Kældu og skerðu svo í heppilegar sneiðar. Ég myndi taka frá þann hluta sem þú áætlar að nota næstu 3 daga og frysta restina. Gott er að geyma hrökkbrauðið í loftþéttri krukku.

dsc04057

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.