„Ketómataræðið á gríðarlegum vinsældum að fagna um víða veröld í dag, helstu ástæður fyrir áhuganum má rekja til þess hve vel það virkar á þyngdartap.
Ketó er samt ekki ný bóla. Í kringum 1920 voru læknar í Bandaríkjunum að leita að læknandi mataræði fyrir börn með flogaveiki. Þeir sáu að með því að skera kolvetni verulega niður, í einungis 2-5% af heildarorku í fæðu barnanna, og auka fituinnihald í 80%, minnkuðu flogaveikisköstin eða hættu alveg. Þetta upprunalega ketófæði, sem er jafnan kallað hefðbundið ketó, var notað við flogaveiki í nokkur ár með góðum árangri þar til lyf voru þróuð sem komu í stað mataræðisins.
Ketósagan er mun eldri en þetta og á upptök sín í fæðunni sem forfeður okkar og –mæður borðuðu frá upphafi.
Hellisbúarnir hafa verið meira eða minna í ketósu og líkaminn framleitt ketóna sem aðalorkugjafa þeirra. Á þessum tíma var sáralítið eða ekkert til af kolvetnum. Frumfólkið var veiðimenn sem veiddu dýr sér til matar. Það var ekki fyrr en miklu seinna, eða fyrir um tíu þúsund árum, sem við byrjuðum að yrkja landið og rækta korn til brauðbaksturs. Upp úr því, í gegnum nokkrar aldir, fórum við að breyta orkugjafanum og enduðum með að nota glúkósa sem aðalorkugjafa okkar. Það sem gerðist síðar er næringar- og matarþróunarsaga, sem því miður þróaðist ekki alltof vel, því ofneysla sykurs og kolvetna á stóran þátt í hvernig komið er fyrir heilsu okkar mannfólksins í dag.“
Úr bókinni Ketóflex 3-3-1