Fæðuóþol: einkenni og ráð

Sagan mín í stuttu máli

Haustið 2010 þegar var ég meira og minna rúmliggjandi með slæma magakrampa. Ég var mjög langt niðri, kvíðin og fór á þunglyndislyf en hætti þó fljótlega að taka þau. Ég fór til meltingarlæknis sem sagði mig með hægðatregðu og að ég yrði að hætta að reykja, minnka gosdrykkju og skyndibitaát. Ég skildi hvorki upp né niður í þessu öllu saman þar sem ég hef aldrei verið fyrir gos, reyki ekki og hef alltaf pælt mikið í mataræðinu. Meltingarlæknirinn ráðlagði mér einnig að borða eins og víkingarnir í gamla daga með því að prufa að taka út mjólkurvörur, sykur og hveiti. Mér fannst þetta stórmál og féllust mér hendur.

Kvölin hélt áfram og stuttu seinna fór ég til Matthildar Þorláksdóttur náttúrulæknis. Þar kom í ljós að ég var með mjög slæmt fæðuóþol. Hún prentaði út nákvæman lista yfir fæðu sem ég átti að sleppa og ráðlagði mér hvað ég gæti borðað í staðinn. Einnig ráðlagði hún mér með vítamín inntöku. Ég hófst strax handa en næstu 2 árin var ég upp og ofan í mataræðinu og upplifði vonleysi og ójafnvægi. Mér leið mjög vel þegar ég lét þá fæðu vera sem ég hafði óþol fyrir. Það kom þó alltof oft fyrir að ég svindlaði og fékk ég það þá tífalt í bakið og urðu viðbrögðin harkalegri með hverju skiptinu. Sem hafði að lokum þau áhrif að ég hætti að svindla.

Árið 2013 fór ég að veita því eftirtekt að ég fékk alveg jafn mikið í magann af því sem var að angra mig andlega eins og þegar ég borðaði eitthvað sem ég hafði óþol fyrir. Ég leitaði hjálpar hjá þerapistanum Guðbjörgu Ósk og fór ég að skilja að ég gæti stjórnað minni líkamlegri líðan með því að vinna í sjálfri mér. Hún hjálpaði mér að hjálpa sjálfri mér með kvíðann, þunglyndið og að elska sjálfa mig.

Ég er ennþá með fæðuóþolið en ég lít allt öðruvísi augum á það. Allt gerist af ástæðu og væri ég ekki sú sem ég er í dag ef ég væri ekki með óþolið. Ég er búin að læra svo mikið á mataræði og áhrif þess bæði á líkamlega og andlega heilsu. Allt þetta spilar saman og ef við veitum því eftirtekt er alltaf verið að gefa okkur vísbendingar hvað líkaminn vill og vill ekki.

Einkenni

Einkenni sem koma fram þegar ég neyti fæðu sem ég hef óþol fyrir eru t.d. pirringur, þreyta, kláði í húð, magaverkir, magakrampi, skot í magann og uppþemba. Einkennin gátu verið í allt að viku og komu ekki alltaf strax fram, fór algjörlega eftir því hvað það var sem ég lét ofan í mig.

Þrátt fyrir miklar kvalir sem maður leggur á líkamann með því að svindla er erfiðast að svindla ekki strax aftur því ef maður fékk sér t.d. eitthvað með sykri í er mjög erfitt að fá sér ekki aftur því fíknin er mikil.

Það er misjafnt eftir hverjum og einum hvernig einkenni fæðuóþols koma fram. Þekkt einkenni fæðuóþols eru t.d. uppþemba, hausverkur-mígreni, niðurgangur, útbrot, kláði í húð, sviti, ör öndun, magaverkir, þreyta, pirringur og fleira.

Hvernig er best að byrja?

Ég er alveg viss um að það er hellingur af fólki með einhverskonar óþol en vita ekki af því eða vilja ekki taka eftir því og takast á við það. Allir ættu að vera vel vakandi fyrir því hvernig samspil líðan og fæðu er. Sniðugt er að skrifa niður í bók hvað maður borðaði yfir daginn og hvernig manni leið; bæði andlega og líkamlega. Þannig getur maður fundið rót vandans.

Leitaðu þér hjálpar ef þér fallast hendur; hvort sem það er hjá þerapista til að hjálpa þér með andlegu hliðina eða hjá náttúrulækni/næringarþerapista ef þig grunar að þú sért með fæðuóþol.

Ef þú ert með fæðuóþol nú þegar en ert ráðalaus þá mæli ég með því að þú búir þér til matarplan fyrir vikuna. Þetta snýst allt um skipulag; fylltu frystinn af hollum valkostum sem þú getur gripið í þegar þú átt annríka daga.

Svo síðast en ekki síst er mikilvægt að vera í andlegu jafnvægi með því að hreyfa sig, hugleiða, gera jóga og fylla líf þitt af jákvæðum og uppbyggilegum hugsunum.

Hugur, mataræði og hreyfing – þetta spilar allt saman!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.