Einfaldar kókoskúlur

Ég er svolítill sælkeri og finnst afar gott að eiga eitthvað til með kaffibollanum. Eftir að ég byrjaði að prófa mig áfram í uppskriftagerð er þetta sú uppskrift sem ég hef gert hvað mest af. Þessar kókoskúlur eru mjög einfaldar og fljótlegar í gerð, stútfullar af hollri fitu og innihalda engan viðbættan sykur. Ég reyni oftast að halda mig við eina kúlu en þær eiga þó stundum til að rata fleiri upp í munn. Kókoskúlurnar eru tilvaldar sem hollara helgarnammi og gott að eiga inn í frysti þegar óvænta gesti ber að garði.

Innihald
2 dl döðlur
2 dl pekanhnetur
1 dl kókosmjöl
2 msk möndlusmjör
2 msk kókosolía
2 msk kakóduft
1 teskeið vanilla
Smá sjávarsalt

Aðferð
Blandið öllu saman í matvinnsluvél og hrærið þangað til að deigið er orðið þétt. Hnoðið í litlar kúlur og veltið upp úr kókosmjöli, kakódufti, hampfræum eða hverju sem hugurinn girnist. Raðið kúlunum í box og geymið í frysti eða kæli. Svo er bara að njóta!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.