Þessa dagana fer fram átak Á Allra vörum en í þetta sinn er verið að vekja athygli á einelti og safna fyrir samskiptasetri fyrir börn og unglinga sem glíma við einelti. Þetta málefni er mér hjartans mál enda var ég lögð í einelti í grunnskóla
Ég var ekki beitt líkamlegu ofbeldi, skólabókunum mínum var ekki stolið og ég var ekki skilin út undan af vinum mínum en ákveðnir einstaklingar létu mér engu að síður líða eins og ég væri svo ómerkileg að það væri ekki ástæða til að viðurkenna tilvist mína. Það var afar sársaukafullt og þegar ástandið var sem verst langaði mig svo sannarlega ekki til þess að fara í skólann á hverjum morgni heldur beið óþolinmóð eftir því að ljúka grunnskólanum í litla heimabænum mínum svo að ég kæmist í burtu.
Sem fullorðinn einstaklingur sem hefur farið í gegnum viðtalsmeðferð og eytt töluverðum tíma og orku í að vinna úr þeim áföllum sem ég varð fyrir sem barn hef ég að sjálfsögðu aðra sýn á eineltið sem ég upplifði í dag heldur en ég gerði þá. Fyrir það fyrsta þá tek ég skýrt fram að ég ber engan kala til þeirra sem komu fram við mig á þennan hátt. Gerendur þurfa jú alveg jafn mikla hjálp og þolendur enda leggur enginn aðra manneskju í einelti nema eitthvað búi þar að baki. Það hver verður fyrir einelti og hver leggur aðra í einelti er ekki tilviljanakennt.
Ég veit núna af hverju ég var lögð í einelti. Ég ólst upp við meðvirkar aðstæður og þegar ég byrjaði í grunnskóla þá hafði ég ekki lært að setja fólki mörk, eða skilja að ákveðna hegðun ætti ég ekki skilið, og var því ekki fær um að standa með sjálfri mér og segja hingað og ekki lengra. Ég var því tilvalið fórnarlamb gerenda enda hafa þeir vit á því að velja einstaklinga sem eru ekki færir um að verja sig.
Samkvæmt minni upplifun eru gerendur hins vegar einstaklingar sem eiga alveg jafn erfitt en bregðast við á annan hátt en ég gerði á sínum tíma. Í stað þess að fara inn í sig og reyna að taka upp eins lítið pláss í heiminum og hægt er þá byggja gerendur sig upp á kostnað annarra. Ég held að í flestum tilvikum sé það raunverulega ekki að reyna að særa einn né neinn en það kann ekki neina aðra leið til þess að láta sér líða betur en að gera lítið úr öðrum í þeirri tilraun að setja sjálft sig skörinni ofar.
Það sem við þurfum því fyrst og fremst að forðast þegar kemur að einelti er að sýna fólki dómhörku. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða gerendur sem eru börn eða fullorðnir, ef ekki er um að ræða einstaklega sem eru hreinlega siðblindir þá er yfirleitt að finna einhverja ástæðu fyrir hegðun þeirra í sálarlífi eða fortíð viðkomandi. Gerendur eru ekki ógeðslegir, þeir eru ekki illa innrættir, þeir þurfa á skilningi, samúð og aðstoð að halda rétt eins og við hin.