Nútímamaðurinn er sófakartafla. Árið er 2015 og við sem mannverur erum að mestu laus við miklar farsóttir og læknavísindin hafa náð miklum árangri í að finna lækningu við mörgum bráðdrepandi sjúkdómum. Stærsta váin sem snýr að nútímamanninum í dag er í raun og veru við sjálf eða n.t.t. lífsstíll okkar. Við erum okkar verstu óvinir og hreyfum okkur ekki í samræmi við það sem líkami okkar hefur þörf fyrir. Það er margsannað að hreyfing er ein allra besta forvörnin gegn lífsstílssjúkdómum og gerir okkur sterkari líkamlega og andlega. Ekki veitir af góðum líkamlegum og andlegum styrk í þessu hraða tæknisamfélagi sem við lifum í.
Í dag er nánast allt sem snýr að okkar lífi orðið tölvustýrt og sjálfvirkt og þörf okkar mannskepnunnar til að hreyfa sig er að bíða lægri hlut. Við fæðumst með útlimi til að hreyfa okkur en nútímamaðurinn þarf lítið að hafa fyrir hreyfingu í dag þar sem bílar, rúllustigar og lyftur sjá um að færa okkur milli staða. Tölvur, sjónvörp og önnur afþreying valda því að við eyðum stórum hluta dagsins sitjandi á afturendanum. Hreyfing dæmigerðs Íslendings sem vinnur við tölvu eða er í skóla er nánast engin. Hér má sjá yfirlit yfir daglega „hreyfingu“ dæmigerðs Íslendings:
– Vakna
– Keyra í vinnu/skóla
– Lyfta tekin í stað stiga í vinnu/skóla
– Labba á kaffistofu
– Keyra í búðina. Lagt sem næst búðinni og búðarpokar settir í kerru í stað þess að bera þá
– Keyra heim
– Elda mat
– Horfa á sjónvarp
– Sofa
Eina hreyfingin á þessum degi er smá rölt á vinnustað eða í skóla og pikk á tölvu eða fjarstýringu. Við höfum 365 daga til að snúa við þessari slæmu þróun.
Samkvæmt rannsókn frá árinu 2013 (International Journal of Behavioral Nutrition and Physical Activity), þá er meðalmaðurinn að eyða 64 klukkustundum á viku sitjandi, 28 klukkustundum standandi og 11 stundir fara í rölt milli staða. Þetta eru uggvænlegar tölur, við eyðum nærri þremur sólarhringum í hverri viku í að sitja. Rannsóknir sýna að allar þessar setur hjá nútímamanninum eru að ýta undir stoðkerfisvandamál og sjúkdóma tengda hjarta- og æðakerfi. Ekki þarf heldur að taka það fram að allt þetta hreyfingarleysi stuðlar einnig að þyngdaraukingu, jafnvel offitu og fylgikvillum hennar.
Lítið í kringum ykkur og takið eftir hvað samfélag okkar er orðið vélvætt og það virðast allir nýta sér hin vélrænu þægindi. Það mætti halda að stærstur hluti fólks væri alvarlega hreyfihamlaður og bundinn við hjólastól því allt er orðið þannig að við þurfum varla að hreyfa okkur. Hér eru dæmi um vitleysur í hreyfingarleysi sem við þurfum að snúa við:
– Bílalúgur við skyndibitastaði – Í alvöru talað þá er þetta ein mesta vitleysa sem nútímamaðurinn hefur fundið uppá. Það er nú nógu slæmt að þú sért að skófla í þig óhollum skyndibitanum en að geta ekki einu sinni labbað nokkur skref til að verða þér út um hann er alveg galið. Með svona framferði eigum við mennirnir Homo Sapiens ekki skilið að vera kallaðir „hinn viti borni maður“. Það er kannksi ekkert skrítið að offita og fylgikvillar hennar séu að sliga heilbrigðiskerfi á Vesturlöndum þegar við erum enn að nýta okkur bílalúgur.
– Heimsending á skyndibita – Þetta er af svipuðum meiði og bílalúgurnar. Okkur dettur ekki í hug að hreyfa okkur lengra en að útihurðinni okkar til að ná í gómsæta skyndibitann. Við sjáum öll í kringum okkur hvað þessar heimsendingar eru að gera okkur þyngri og þyngri.
– Rúllustigar og rúllubönd – Við höfum velflest verið á flugvöllum hér heima og erlendis og þar eru rúllustigar og rúllubönd útum allt. Hvers vegna er fólk ekki hvatt til þess að hreyfa sig á flugvöllum? Er Glanni Glæpur í alþjóðastjórn flugvalla heimsins? Það eru langar vegalengdir á flugvöllum og þetta er frábært tækifæri til þess að hreyfa sig og sérstaklega eftir að hafa setið í flugsæti tímunum saman og úðað í sig brauðmeti og áfengum drykkjum.
– Úti að viðra hundinn sinn, sitjandi í bílnum – Sem hundaeigandi fer ég ósjaldan út á Geirsnef í Reykjavík þar sem hundurinn minn fær að hlaupa um án þess að vera í bandi. Ósjaldan sé ég fólk sem situr í bílum sínum (margir eru að reykja) á meðan hundurinn er að viðra sig. Ef eigandinn vill að hundurinn taki vel á því þá lætur hann hundinn hlaupa á eftir bílnum. Það væri mun skárra að sjá hundspottið undir stýri og eigandann hlaupa á eftir, því eigandinn hefði oft mun betra af hreyfingu en hundurinn.
– Rafmagnsreiðhjól – Vinsældir rafknúinna reiðhjóla eru sífellt að aukast og er það óheillaþróun, þó það sé vissulega skárra að nýta sér það en liggja uppí sófa eða fyrir framan tölvu. Það er frábært að sjá að hjólreiðar eru að aukast á Íslandi því við höfum svo sannarlega gott af hreyfingunni. Gerum heilsu okkar greiða og kaupum okkur frekar fótknúið reiðhjól en rafmagnsknúið.
– Sjónvarp allan sólarhringinn – Það besta sem gæti gerst heilsu okkar vegna væri að það yrðu teknir upp sjónvarpslausir fimmtudagar eins og RÚV var með á „dagskránni“ fyrir nokkrum áratugum. Í dag er hægt að horfa á sjónvarpið allan sólarhringinn og sjónvarpsstöðvaúrvalið hleypur á hundruðum. Við eyðum stórum hluta af deginum horfandi á misuppbyggilegt sjónvarpsefni í stað þess að vera á ferðinni og hreyfa okkur.
– Tölvuvæðing með smáforritum og samfélagsmiðlum – Helstu samskipti okkar í dag fara fram í gegnum samfélagsmiðla líkt og facebook, twitter og instagram. Þetta er uggvænleg þróun og við erum hætt að ganga til vina okkar í heimsókn því öll samskipti fara fram í gegnum tölvu. Þó það sé ekki tengt minnkandi hreyfingu er mjög sorglegt að sjá þegar fólk hittist að velflestir eru með snjallsímann uppi að fylgjst með samfélagsmiðlum í stað þess að eiga samskipti við sessunauta sína. Þessi þróun mun leiða til félagslegrar- og andlegrar hrörnunar okkar mannanna.
Förum að vakna til vitundar um mikilvægi hreyfingar og notum hvert einasta tækifæri sem við höfum í hversdeginum til að hreyfa okkur, því allt telur alveg sama hversu lítið það er. Þó göngutúrinn sé bara 5 mínútur er það betra en ekkert. Alllar þessar setur okkar eru að verða sama mein og reykingar voru lengi vel og þurfum við átak og meðvitund til að berjast á móti þessu hreyfingarleysi.
Það þarf ekki að fara af stað með einhverju offorsi og látum í hreyfinguna það má t.d. standa upp reglulega frá tölvunni í vinnunni og gera liðleikaæfingar, fá sér vinnuborð sem maður þarf að standa við, ganga í hádeginu, taka tröppurnar í vinnunni, leggja bílnum lengra frá vinnustaðnum eða jafnvel ganga til vinnu, leika sér með börnum, o.fl. Hér er tengill á grein um 10 skemmtilega möguleika til hreyfingar dagsdaglega.
Gerum heilsu okkar greiða og minnkum notkun allra þessara „þæginda“ í nútíma tæknisamfélagi, með því erum við að bera ábyrgð á okkur eigin heilsu og tryggja heilbrigðari framtíð okkar.